Án lestrarþjálfunar verður enginn læs

Ungur lestrarhestur í Bókasafni Reykjanesbæjar
Ungur lestrarhestur í Bókasafni Reykjanesbæjar

Læsisstefna Reykjanesbæjar hefur verið gefin út. Stefnan inniheldur fjölmarga þætti er varða mál og læsi nemenda í leik- og grunnskólum sveitarfélagsins. Þar er farið yfir grunnþætti læsis ásamt sex lykilþáttum sem mikilvægir eru fyrir læsi barna og ungmenna það eru almennir þættir, mikilvægi foreldrasamstarfs, lestrarmenning, frávik í læsi, starfsþróun og íslenska sem annað tungumál.

„Læsi felur í sér færni einstaklingsins til að tala, lesa og rita tungumál sitt ásamt því að geta aflað sér upplýsinga úr umhverfinu. Læsi er þróunarferli sem hefst í frumbernsku og heldur áfram allt lífið en það byggir á reynslu barna af lestri og ritmáli í nánasta umhverfi þeirra. Góð færni í læsi er mikilvæg til þess að einstaklingar geti tekið virkan þátt í samfélaginu og er undirstaða alls náms. Það skiptir því miklu máli að börn í Reykjanesbæ nái tökum á þessari færni til þess að geta notað hana í samskiptum, í námi, fyrir sig sjálf og fyrir samfélagið allt,“ segir í upphafi læsisstefnu Reykjanesbæjar.

Hjá Fræðslusviði Reykjanesbæjar hafa verðið settir upp verkferlar er varðar skimun, áhersluþætti og framkvæmd alveg frá 18 mánaða aldri og út grunnskólann. Fylgst er með orðaforða, málskilningi, hljóðkerfisvitund, lesfimi og stafaþekkingu og lögð áhersla á snemmtæka íhlutun í leikskólum og fyrstu bekkjum grunnskólans. Markmiðið er að draga úr þörfum á sérkennslu þegar lengra líður á skólagönguna og koma í veg fyrir erfiðleika í námi síðar á lífsleiðinni.

Hér má nálgast læsisstefnu Reykjanesbæjar.