Foreldrafærninámskeið framundan

Skólaþjónustan býður uppá ýmis fræðslu- og meðferðarnámskeið sem miða að því að styrkja foreldra í uppeldishlutverki sínu og aðstoða börnin við að takast á við tiltekinn vanda. Ólík námskeið eru í boði og eru þau sérsniðin að ólíkum aldri og þörfum barnanna. Námskeiðin byggja á vel rannsökuðum aðferðum og allir leiðbeinendur hafa viðurkennda og löggilda fagmenntun. 

Fræðslusvið stendur fyrir fjórum mismunandi foreldrafærninámskeiðum skólaárið 2018/2019. Hér fyrir neðan eru nánari upplýsingar og eru námskeiðin í þeirri tímaröð sem þau verða haldin. Einnig  má nálgast nánari upplýsingar um námskeiðin hér til hliðar.

 • Klókir krakkar

  Um er að ræða meðferðarúrræði fyrir börn á aldrinum 8 - 12 ára sem eru með hamlandi kvíða og foreldra þeirra. Börnin vinna saman í hópi með tveimur sálfræðingum og foreldrar í öðrum hópi með einum sálfræðingi. Þau eru frædd um eðli kvíða og kenndar aðferðir til að takast smám saman á við kvíða barnanna. Börnunum er meðal annars kennt að hugsa eins og einkaspæjari þar sem þau finna sannanir fyrir óraunsæjum kvíðahugsunum og læra að hugsa á raunsæjan hátt. Börnin vinna sér þar að auki inn smá umbun í hverjum tíma fyrir þátttöku, heimaverkefni og fleira.  ATH: Námskeiðið er ekki ætlað börnum á einhverfurófi.

  Námskeiðin verða tvö, það fyrra hefst 27. september og það síðara verður kennt á vorönn. Hvert námskeið er 12 klst. sem skiptist í átta skipti.  Kennt verður í Fjölskyldusetrinu í Reykjanesbæ, Skólavegi 1. Námskeiðsgjald er 20.000 krónur. 

  Kennt verður á fimmtudögum kl. 15:30 til 17:00 eftirtalda daga:

  27. september 
  4. október
  11. október
  18. október
  25. október
  1. nóvember
  15. nóvember
  29. nóvember

  Skólaþjónusta Reykjanesbæjar og skólaþjónusta Grindavíkurbæjar halda saman næsta námskeið og verður það haldið í Reykjanesbæ (eins og áður kemur fram). Leiðbeinendur eru sálfræðingarnir Einar Trausti Einarsson, Kristín Reynisdóttir og Ingibjörg María Guðmundsdóttir.

  Opið er fyrir skráningu til og með 7. september.

  Skráning fyrir börn í Reykjanesbæ, Garði og Sandgerði er rafræn á Mitt Reykjanes (www.mittreykjanes.is). Nánari upplýsingar veitir Einar Trausti - einar.t.einarsson@reykjanesbaer.is

  Skráning og nánari upplýsingar fyrir börn í Grindavík er hjá ingamaria@grindavik.is

 • Uppeldi sem virkar - færni til framtíðar

  Námskeiðið er fyrir foreldra barna fram til sex ára aldurs. Á námskeiðinu er lögð áhersla á að kenna foreldrum leiðir til að vera samtaka í uppeldinu og skapa æskileg uppeldisskilyrði sem ýta undir færni sem líkleg er til að nýtast barninu til frambúðar. Kenndar verða aðferðir til að styrkja hæfni foreldra í að laða fram æskilega hegðun og fyrirbyggja erfiðleika.

  Námskeiðin verða fjögur alls, í október, nóvember, febrúar og mars. Hvert námskeið er fjögur skipti í tvo tíma í senn. Það fyrsta hefst 8. október. Námskeiðin verða haldin í Fjölskyldusetrinu í Reykjanesbæ, Skólavegi 1. 

  Meðal þess sem leitast er við að kenna foreldrum er að:

     - ákveða hvaða hegðun og færni foreldrum finnst eftirsóknarverð í fari barnsins.
     - hafa raunhæfar væntingar til barnsins og gefa skýr skilaboð um til hvers er ætlast af því.
     - vera vakandi yfir æskilegri hegðun barnsins og bregðast við með athygli, hrósi eða annarri
        umbun.

  Námskeiðin verða sem hér segir:

  1.     8., 11., 15. og 18. október 2018 kl.17:00-19:00
  2.    29. október, 1., 5. og 8. nóvember 2018 kl.17:00-19:00
  3.    18., 21., 25. og 28 febrúar 2019 kl. 17:00-19:00
  4.    11., 14., 18. og 21. mars 2019 kl. 17:00-19:00

  Ósk um nánari upplýsingar um námskeiðin og skráning sendist til kristin.helgadottir@leikskolinnholt.is. 

 • Uppeldi barna með ADHD

  Tilgangur námskeiðsins er að fræða foreldra um áhrif ADHD á tilveru barna og styðja þá í að tileinka sér uppeldisaðferðir sem henta börnum með ADHD. Foreldrar skoða núverandi stöðu, gera áætlanir og framfylgja þeim til að taka á eða fyrirbyggja ýmsan vanda sem algengt er að upp komi. Markmiðið er að foreldrar læri hagnýtar og sannreyndar aðferðir sem nýtast þeim til lengri tíma. 

  Foreldrar barna sem hafa hamlandi einkenni ofvirkni og/eða athyglisbrest (ADHD) samkvæmt formlegri skimun eða fullnaðargreiningu geta sótt námskeiðið. Efni námskeiðsins hentar best fyrir foreldra barna á aldrinum 5 - 12 ára, sem ekki hafa margar eða flóknar fylgiraskanir. 

  Námskeiðið er alls sex skipti, tvær klukkustundir í senn. Kennt verður á þriðjudögum og miðvikudögum kl. 17:00 - 19:00:

  Kennsludagar:

  10. október
  16. október
  24. október
  30. október
  7. nóvember
  21. nóvember

  Námskeiðið er haldið í Fjölskyldusetrinu Skólavegi 1 og eru leiðbeinendur Hulda María Einarsdóttir og Kristín Guðrún Reynisdóttir sálfræðingar.

  Skráningin er rafræn á Mitt Reykjanes (www.mittreykjanes.is). Frekari upplýsingar um námskeiðið veitir Kristín í síma 421-6700 og í netfangið  kristin.reynisdottir@reykjanesbaer.is

  Námskeiðið er niðurgreitt að stærstum hluta af skólaþjónustu. Námskeiðskostnaður fyrir par er 10.000 krónur en 8.000 krónur fyrir einstakling. 
  Greiðsla fyrir námskeið þarf að berast fyrir 3. október. Hægt er að greiða í þjónustuveri Reykjanesbæjar eða með því að millifæra á reikning nr. 121-26-1 kt. 470794-2169, með skýringunni: Uppeldi barna með ADHD. Kvittun greiðslu skal senda á netfangið einar.t.einarsson@reykjanesbaer.is

 • Klókir litlir krakkar

  Forvarnarnámskeiðið Klókir litlir krakkar er námskeið fyrir foreldra barna í leikskólum og yngstu bekkjum grunnskólans, sem eru í áhættuhópi fyrir að þróa með sér kvíðaraskanir. Námskeiðið miðar að því að fræða foreldra um eðli kvíða og kenna þeim leiðir til þess að takast á við kvíðahegðun barna sinna og auka sjálfstraust þeirra. Vonast er til að með slíku forvarnarnámskeiði verði hægt að minnka kvíðahegðun barna og í sumum tilfellum koma í veg fyrir að börn þrói með sér kvíðaröskun seinna meir.

  Foreldrar barna á aldrinum 3 - 8 ára sem farin eru að sýna fyrstu merki óöryggis og kvíða geta sótt námskeiðið. Við skráningu eru foreldrar beðnir um að svara stuttum spurningalista um stöðu barnsins. 

  Námskeiðið verður kennt á vorönn, en nánari tímasetningar verða birtar síðar. Kennt verður í Fjölskyldusetrinu í Reykjanesbæ, Skólavegi 1.

  Leiðbeinendur eru Einar Trausti Einarsson og Kristín Guðrún Reynisdóttir sálfræðingar hjá skólaþjónustu.

  Skráningin er rafræn á Mitt Reykjanes (www.mittreykjanes.is). Frekari upplýsingar um námskeiðið veitir Einar Trausti í síma 421-6700 og í netfangið  einar.t.einarsson@reykjanesbaer.is

  Námskeiðið er niðurgreitt að stærstum hluta af skólaþjónustu. Námskeiðskostnaður fyrir par er 10.000 krónur en 8.000 krónur fyrir einstakling.
  Námskeiðið er niðurgreitt að stærstum hluta af skólaþjónustu. Námskeiðskostnaður fyrir par er 10.000 krónur en 8.000 krónur fyrir einstakling. Greiðsla fyrir námskeið þarf að berast viku fyrir upphaf námskeiðsins. Hægt er að greiða í þjónustuveri Reykjanesbæjar eða með því að millifæra á reikning nr. 121-26-1 kt. 470794-2169, með skýringunni: Klókir litlir krakkar. Kvittun greiðslu skal senda á netfangið einar.t.einarsson@reykjanesbaer.is