Togvíraklippur

Togvíraklippur

Togvíraklippur

Togvíraklippur, fallbyssa úr varðskipi og skel af tundurdufli

Á Keflavíkurtúni gegnt Duus Safnahúsum.

Á túninu eru hlutir frá Landhelgisgæslu Íslands, togvíraklippur, fallbyssa úr varðskipi, líklega Þór og skel af tundurdufli. Þegar í upphafi 15. aldar leituðu breskir fiskimenn á Íslandsmið og aðrar þjóðir fylgdu í kjölfarið. Margvíslegar deilur spruttu af þessum fiskveiðum og einnig verslun við landsmenn. Danska stjórnin reyndi að stjórna þessari umferð með misjöfnum árangri.

Árið 1952 var landhelgin færð í 4 sjómílur og jafnframt út fyrir grunnlínur til að loka fjörðum og flóum. Landhelgin var síðan færð út í nokkrum áföngum. Árið 1958 í 12 sjómílur, 1972 í 50 sjómílur og loks 1975 í 200 sjómílur eins og hún er í dag. Allar þessar aðgerðir ollu miklum deilum við nágrannaþjóðir, einkum Breta.

Ýmsum brögðum var beitt. Bretar settu hafnbann á fiskútflutning Íslendinga til Bretlands og sendu herskip á miðin til varnar fiskiskipum sínum. Íslensku varðskipin reyndu að stöðva og trufla veiðarnar. Þann 5. september 1972 var leynivopni, hönnuðu af Íslendingum, fyrst beitt en það voru togvíraklippur. Klippt var á togvíra um 100 breskra togara áður en yfir lauk. Bresku herskipin reyndu að trufla varðskipin með því að sigla á þau og einu sinni lá við að varðskipinu Tý yrði hvolft. Þann 11. september 1975, kærðu Íslendingar Breta til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og slitu stjórnmálasambandi við þá í nokkra mánuði árið 1976. Þessum deilum lauk með samningum. Þann 1. desember 1976 hurfu bresk fiskveiðiskip úr íslenskri lögsögu og allir útlendingar utan Færeyingar voru farnir ári seinna.

 

Ábyrgðaraðili: Byggðasafn Reykjanesbæjar