Reykjanesbær
Reykjanesbær

Vinna bæjarráðs Reykjanesbæjar við gerð fjárhagsáætlunar Reykjanesbæjar fyrir næsta ár, 2021, er hafin af fullum krafti. Eitt af því fyrsta sem bæjarráð gerir er að taka ákvörðun um helstu tekjustofna sveitarfélagsins s.s. álagningarprósentu fasteignaskatts og útsvars.   

Fasteignamatið, sem myndar álagningarstofn fasteignaskatts, er gefið út einu sinni á ári af Þjóðskrá. Það skiptist í 3 flokka; A flokk fyrir íbúðarhúsnæði, B flokk fyrir opinberar byggingar og C flokk fyrir atvinnuhúsnæði ýmiss konar (sjá nánar þjóðskrá Íslands - fasteignamat).

Oftast hækkar heildar fasteignamatsstofninn á milli ára en stundum kemur fyrir að hann lækki. Til að mæta slíkum sveiflum hafa sveitarfélög ýmist lækkað eða hækkað álagningarprósentuna til að stilla af tekjur sínar. Þannig hefur álagningarprósenta A flokks íbúðarhúsnæðis í Reykjanesbæ verið lækkuð úr 0,5% árið 2015 í 0,32 árið 2019 og álagningarprósenta C-flokks atvinnuhúsnæðis, sem var lengi 1,65%, lækkuð í 1,60% í fyrra.  

Í ár LÆKKAR heildar fasteignamat A flokks íbúðarhúsnæðis í Reykjanesbæ að meðaltali um 2,61% en fasteignamat C flokks atvinnuhúsnæðis hækkar aftur á móti um 4,28%. Til að mæta þessum breytingum samþykkti bæjarráð einróma á 1283. fundi sínum sl. fimmtudag að halda álagningarprósentu A flokks íbúðarhúsnæðis óbreyttri á næsta ári, 2021, eða 0,32% af fasteignamati en lækka álagningarprósentu atvinnuhúsnæðis um 0,05% eða úr 1,60% af fasteignamati í 1,55%. Það er gert til að mæta hækkun álagningarstofns atvinnuhúsnæðis og draga þannig úr neikvæðum áhrifum hækkunarinnar á atvinnulífið.  

Samtals þýðir þetta að tekjur Reykjanesbæjar af fasteignaskatti C stofns atvinnuhúsnæðis verða 28,6 milljónum lægri en þær hefðu orðið ef álagningarprósenta atvinnuhúsnæðis hefði verið óbreytt 1,60%.