Framkvæmdir við nýtt hringtorg hefjast 1. júlí

Framkvæmdir við nýtt hringtorg við gatnamót Njarðarbrautar og Fitjabakka hefjast þriðjudaginn 1. júlí og munu standa yfir fram á haustið. Markmiðið með framkvæmdunum er að bæta umferðarflæði og öryggi á svæðinu, en í framkvæmdartímanum má gera ráð fyrir takmörkunum og tímabundnum lokunum.

Áfangaskipting framkvæmda:

  • Fyrsti áfangi felst í efnisskiptum undir fyrirhuguðu hringtorgi og gerð hjáleiðar til austurs. Við þennan áfanga má búast við truflunum á umferð um Fitjabakka. Ökumönnum er bent á að nýta Fitjabraut að Bolafæti eða Sjávargötu sem hjáleið. Þessi áfangi mun standa í um 10 daga.
  • Annar áfangi snýr að vinnu við hringtorgið sjálft og breikkun vega til vesturs. Á meðan honum stendur verður umferð beint um nýju hjáleiðina sem gerð verður í fyrsta áfanga.
  • Þriðji og síðasti áfangi felst í malbikun og yfirborðsfrágangi. Þá verður nauðsynlegt að loka Njarðarbraut tímabundið, en allt kapp verður lagt á að sú lokun verði eins skammvinn og mögulegt er.

Ökumenn hvattir til að sýna aðgát og fylgjast með merkingum

„Það er ljóst að einhverjar truflanir verða á umferð, en við stefnum að því að halda Njarðarbraut sem er umferðarþyngsta gata Reykjanesbæjar opinni eins lengi og kostur er. Við munum kappkosta við að merkja hjáleiðir og lokanir eins vel og mögulegt er og upplýsa ökumenn um stöðuna með reglubundnum hætti,“ segir Guðlaugur H Sigurjónsson, sviðsstjóri Umhverfis- og framkvæmdasviðs.

Íbúar og vegfarendur eru hvattir til að sýna þolinmæði og fylgjast með upplýsingum um hjáleiðir og merkingar á svæðinu meðan á framkvæmdum stendur.