Eftirlitsaðilar munu ekki bregðast skyldum sínum við eftirlit í Helguvík

Frá íbúafundinum í gær.
Frá íbúafundinum í gær.

Miklar umræður spunnust á íbúafundi vegna ófyrirséðrar mengunar frá kísilveri United Silicon sem haldin var í Stapa í gær. Íbúar hafa áhyggjur af framtíðinni í ljósi þess að nú hefur aðeins einn ofn af átta fyrirhuguðum hjá tveimur verksmiðjum verið ræstur með þó nokkrum byrjunarörðugleikum sem m.a. hafa leitt til athugasemda og þvingunarúrræða af hálfu Umhverfisstofnunar, sem fer með eftirlit með mengandi starfsemi. Fulltrúar hennar segjast ekki munu bregðast eftirlitshlutverki sínu og bæjarfulltrúar, sem jafnframt eru íbúar í bænum, hafa einnig eftirlitshlutverki að gegna.

Til fundarins var boðað til að koma á framfæri upplýsingum frá hagsmunaaðilum og gefa íbúum kost á að ræða málin. Frummælendur komu frá bæjarstjórn Reykjanesbæjar, United Silicon, Orkurannsóknum Keilis og Umhverfisstofnun. Þá voru fulltrúar allra þessara hagsmunaaðila í pallborði til að svara fyrirspurnum úr sal, samtals 13  manns.

Fram kom í máli bæði bæjarfulltrúa og eftirlitsaðila hjá Umhverfisstofnun að hvorugir muni una ef brotalöm verður í mengunarvörnum, loftgæðismælingum eða öryggismálum hjá United Silicon og baðst öryggisfulltrúi fyrirtækisins, Kristleifur Andrésson afsökunar fyrir hönd fyrirtækisins á þeim byrjunarörðugleikum sem United Silicon hefur staðið frammi fyrir. Nú þegar hefur Umhverfisstofnun farið í tvær reglubundnar heimsóknir og þrjár fyrirvaralausar heimsóknir, ásamt því að fara yfir margvísleg gögn sem þeim berist um starfssemina. Stofnunin gerði ýmsar athugasemdir við starfsemina sem m.a. leiddi til þvingunaraðgerða að hennar hálfu og var framleiðsla stöðvuð í síðustu viku þar til úrbætur yrðu gerðar. Allar eftirlitsskýrslur eru aðgengilegar á vef Umhverfisstofnunar.

Þá kom fram í máli Kjartans Más Kjartanssonar bæjarstjóra í Reykjanesbæ að hann eigi fund með forsvarsmönnum Isavia ehf. þar sem ræddar verða mælingar á loft- og hávaðamengun kringum flugvöllinn.

Nokkurs misskilnings hefur gætt hjá þeim íbúum sem eru harðast á móti uppbyggingu mengandi starfsemi í Helguvík og bárust ásakanir bæði á hendur Umhverfisstofnunar og Orkurannsókna Keilis, sem United Silicon greiðir fyrir vöktun, um að fyrirtækið beitti þau þvingunum og mútum. Sigríður Kristjánsdóttir hjá Umhverfisstofnun leiðrétti þann misskilning að United Silicon væri að vakta sig sjálf og Egill Einarsson frá Orkurannsóknum Keilis tók það skýrt fram að þær væru ekki eftirlitsaðili heldur vöktunaraðili loftgæða. Að auki er starfsleyfi mengandi verksmiðja háð því að starfsemi þeirra fari ekki fyrir viðmiðunarmörk. Á vef Umhverfisstofnunar geta íbúar fylgst með loftgæðismælingum á fjórum stöðum í bænum og eru mælingar gerðar á 10 mínútna frestir. Á íbúafundinum kom það sjónarmið fram að fjölga þyrfti mælum og gera ekki upp á milli hverfa í Reykjanesbæ.

Fulltrúar úr bæjarstjórn Reykjanesbæjar bentu á lengi hefur verið stefnt að iðnaðaruppbyggingu í Helguvík og ljóst að þær verksmiðjur sem fyrirhugað væri að reisa þar og eru að rísa hafi verið mengandi. Íbúar hefðu geta látið í sér heyra fyrr þegar deiliskipulag var í auglýsingu og kynningu, en fáir hafi hins vegar sýnt málinu áhuga. Nú kalli íbúar eftir mjög róttækum breytingum, svo sem lokun verksmiðjunnar og stöðvun á frekari framkvæmdum, en slíkt brjóti í bága við gerða samninga.

Þá má benda á að skýrsla sem Keili vann fyrir Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum árið 2013 um áhrif stóriðju á Suðurnesjum sýnir að yfir 60% eru hlynntir byggingu kísilvers í Helguvík og tæplega 70% eru fylgjandi frekari álversuppbyggingu.

Þátttakendur í pallborði ásamt Hjálmari Árnasyni fundarstjóra   Atil Már Gylfason blaðamaður á Stundinni hafði margar spurningar til þátttakenda í pallborði