Farsæld barna fagnað í Hljómahöll

Innleiðingarteymi í verkefninu Farsæld barna hjá Reykjanesbæ blés til veislu miðvikudaginn 18. október, í Stapa í Hljómahöll. Tilefnið var að fagna þeim áföngum sem hafa náðst hingað til í verkefninu og auka sýnileika á þess. Viðburðurinn markaði kaflaskil í vegferðinni, þar sem framkvæmd verkefnisins fer nú á fulla ferð og innleiðingin hefst með krafti eftir góðan og mikilvægan tíma í undirbúning og þróun.

Viðburðurinn var vel sóttur þar sem um 100 manns mættu frá ólíkum áttum. Fulltrúum frá öllum leik-, grunn- og framhaldsskólum í sveitarfélaginu, starfsfólki á skrifstofu velferðar- og menntasviðs, fulltrúum frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Lögreglu og íþróttahreyfingunni, ásamt kjörnum fulltrúum var boðið á viðburðinn.

Farsæld barna eða samþætting þjónustu í þágu farsældar barna er verkefni sem öll sveitarfélög, stofnanir og þjónustuveitendur sem vinna með börnum og ungmennum á landinu taka þátt í. Verkefnið kemur frá lögum sem eru gjarnan kölluð farsældarlögin eða lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Markmiðið með lögum um samþætta þjónustu er að bæta enn frekar þjónustu við börn og fjölskyldur með því að stuðla að samvinnu og samstarfi þjónustuveitenda barna og fjölskyldna. 

Með því að tengja þjónustuna saman og vinna í sameiningu að farsæld barna verður auðveldara fyrir börn og foreldra að fá aðstoð við hæfi.

Á viðburðinum var upplýsingasíða um farsæld barna opnuð formlega á vefsíðu Reykjanesbæjar þar sem allir íbúar, foreldrar, starfsfólk skóla, stofnana og aðrir geta nálgast upplýsingar um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna hjá Reykjanesbæ.

Einnig voru verkferlar um samþættingu þjónustu formlega teknir í notkun, ferlarnir munu auðvelda starfsfólki sveitarfélagsins til þess að vinna með þessa nýju nálgun í þjónustu. 

Á viðburðinum voru einnig veittar viðurkenningar til útskriftarnema sem útskrifuðust með viðbótardiplómu farsældar barna frá Háskóla Íslands síðastliðið vor. Tíu starfsmenn Reykjanesbæjar útskrifuðust úr náminu og er það mikill styrkur fyrir sveitarfélagið að starfsfólk sæki sér aukna þekkingu til þess að leggja sitt að mörkum í innleiðingu laganna í sveitarfélaginu.

Í stóru þróunarverkefni sem þessu er samvinna allra aðila það mikilvægasta. Öll verða að leggja sitt að mörkum til þess að vinna að farsæld barna. Það á við meðal annars börn, foreldra, starfsfólk skóla, heilsugæslu, lögreglu og starfsfólk og þjálfara íþrótta- og tómstunda.

Það er þó mikilvægt að hafa í huga að lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna koma ekki í staðinn fyrir þjónustu sem þegar ber að veita, heldur eru þau ætluð sem viðbót til að greiða aðgengi barna og foreldra, tryggja heildarsýn lykilaðila og til þess að þeir sem veita þjónustu vinni saman að hagsmunum barnsins.