Horft yfir bæinn á fallegum degi.
Horft yfir bæinn á fallegum degi.

Íbúar á kynningafundi um fjármál og framkvæmdir í Reykjanesbæ, sem haldinn var í Hljómahöll í gærkvöld lýstu yfir ánægju sinni með þann árangur sem náðst hefur í fjármálastjórn bæjarins. Framlegð samstæðu hefur aukist jafnt og þétt á síðastliðnum árum, sem m.a. má þakka aðhaldsaðgerðum. Þá hefur íbúafjöldi aukist og fjöldi úthlutaðra lóða hefur ekki verið meiri í áraraðir.

Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri hélt kynningarfund í Hljómahöll í gær þar sem farið var yfir fjármál Reykjanesbæjar, m.a. út frá nýsamþykktri fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar 2017 – 2020, helstu framkvæmdir sem gerðar voru á nýliðnu ári og áætlaðar framkvæmdir þessa árs. Í máli Kjartans kom fram að framlegð samstæðu hafi aukist úr 2.591.231 árið 2014 í 3.429.629 árið 2015 og útkomuspá geri ráð fyrir að framlegðin árið 2016 verði 3.740.932 krónur. Framlegð í rekstri eða EBITDA er mismunurinn á heildarrekstrartekjum og heilarrekstrargjöldum. Séu tekjur hærri en gjöld er framlegðin jákvæð.

Undanfarin ár hafa einkennst af hagræðingu í rekstri Reykjanesbæjar með gerð Sóknarinnar árið 2014. Þar er m.a. kveðið á um aðhaldaðgerðir til að auka framlegð, stöðvun á streymi fjármagns úr A-hluta (bæjarsjóður) yfir í B-hluta (tengdar stofnanir), sölu fasteigna og endurskipulagningu skulda og frestun fjárfestinga. Þann 22. desember sl. var undirritað samkomulag við innanríkisráðherra þar sem markmiðið er að stuðla að því að sjálfbærni náist í rekstri Reykjanesbæjar á árinu 2017 í samræmi við 1. mgr. 64. gr. sveitarstjórnarlaga. Þá gerir samkomulagið ráð fyrir áframhaldandi markvissri vinnu við fjárhagslega endurskipulagningu og hagræðingu í rekstri bæjarins svo að fjárhagslegum viðmiðum sveitarstjórnarlaga verði náð. Þær eru að heildarskuldir og skuldbindingar A- og B-hluta séu ekki hærri en nemur 150% af reglulegum tekjum.  Kjartan fór yfir þann árangur sem hefur náðst og sagði allt útlit fyrir að það tækist að koma skuldum neðan viðmiðs árið 2022, líkt og samkomulagið kveður á um, ef samningar nást við stærstu kröfuhafa.

Af helstu framkvæmdum ársins 2016 má nefna endurbætur á Gömlu búð og Fischershúsi, uppbyggingu tjaldsvæðis, umhverfisverkefni í Ásahverfi, hringtorg við Stekk, ýmis verkefni tengd skólum og leikskólum, Led ljósa væðingu í byggingum og götuljósum og fegrun miðbæjar svo nokkuð sé nefnt. Áfram verður unnið að uppbyggingu Gömlu búðar og Fischershús og fjölgun Led ljósa árið 2017. Frekari uppbygging verður á framtíðarútivistarsvæðinu ofan byggðar í Ytri-Njarðvík, sk. Njarðvíkurskógum, unnið við lokafrágang á þegar byggðum hverfum þar sem Dalshverfi II verður í forgangi í tengslum við nýjan grunn- og leikskóla. Áfram verður einnig unnið að aðgengismálum og eflingu miðbæjar, ásamt búsetuúrræði fyrir fatlaða og félagslegt húsnæði, svo nokkrar fyrirhugaðar framkvæmdir ársins 2017 séu nefndar.

Þess má geta að 49 lóðum var úthlutað árið 2016. Flestar þeirra voru undir atvinnuhúsnæði við Flugvelli eða 19, en 17 einbýlishúsalóðum var úthlutað, 8 raðhúsalóðum og 5 parhúsalóðum. Viðlíkum fjölda lóða hefur ekki verið úthlutað síðan fyrir hrun, svo nokkur uppgangur er í bænum. Það sýnir ekki síður mikil fjölgun íbúa á árinu, en íbúafjöldi jókst um rúmlega 1100 á árinu 2016. Ýmsar tölulega upplýsingar má nálgast á Gagnatorgi Reykjanesbæjar. Hér er tengill í Gangatorgið á vef Reykjanesbæjar.

Hér er glærukynning bæjarstjóra frá fundinum.