Fréttatilkynning frá velferðarsviði

Horft yfir Keflavík utan af sjó.
Horft yfir Keflavík utan af sjó.

Undanfarið hefur verið töluverð umræða á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum  um húsnæðisvanda fólks og aðkomu barnaverndar í þeim málum. Af því tilefni telur velferðarsvið Reykjanesbæjar mikilvægt að koma þeim upplýsingum á framfæri að húsnæðisskortur einn og sér leiðir ekki til aðkomu barnaverndar eða þess að mál verði barnaverndarmál.

Það eru svo margar  og misjafnar ástæður fyrir því að fólk er í húsnæðisvanda og verða þær ekki raktar hér, en óhætt er að fullyrða að þær eru í fæstum tilvikum til komnar vegna vanrækslu foreldra á að sjá börnum sínum fyrir því skjóli og því öryggi sem börnum er nauðsynlegt. Það er alla vega okkar  reynsla að foreldrar leiti og finni leiðir til að gæta hagsmuna barna sinna og veita þeim það skjól og öryggi sem þau þurfa. Sú leið er oft fundin í gegnum tengslanet fjölskyldunnar, fjölskyldu, vini og aðra aðstandendur. Sú leið getur líka falist í því að foreldrar kaupi gistingu á gistiheimili, AirB&B, leigi herbergi með aðgang að eldhúsi og búi tímabundið við þröngar aðstæður.

Aðkoma barnaverndar í málum barna byggir á barnaverndarlögum. Berist tilkynning um að aðbúnaði og umönnun barns sé ábótavant, ber barnavernd að hefja könnun máls og ræðir þá við hlutaðeigandi foreldra/foreldri.  Hugtakið vanræksla foreldra felur það í sér að foreldri/foreldrar  hegði sér á einhvern þann hátt, að með aðgerðum eða aðgerðaleysi, séu athafnir þess líklegar til að valda barni  skaða eða skaða þroska þess. Sé niðurstaða könnunar sú að þörf sé á stuðningi við viðkomandi barn og fjölskyldu þess er meginreglan sú að veittur sé sá stuðningur sem er barninu er fyrir bestu og ávallt sé gripið til minnst íþyngjandi aðgerða við úrlausn máls. Um þennan stuðning er þá gerð áætlun um meðferð máls, hvaða markmiðum skuli náð og hvernig og hvert sé hlutverk hvers,  forsjármanna og barnaverndar í þeirri vegferð.  Megináhersla er ávallt lögð á að gera það sem barni er fyrir bestu. Vistun barns utan heimilis kann að koma til álita við úrlausn mála en er ekki fyrsti kostur í þeirri vegferð.  Sé niðurstaðan könnunar sú að ekki sé ástæða til aðgerða á grundvelli Barnaverndarlaga að lokinni könnun, þá er málinu lokað hjá barnavernd.

Barnafólk sem leitar að eigin frumkvæði til barnaverndar vegna húsnæðisvanda síns er bent á að snúa sér til félagsþjónustu sveitarfélaga. Úthlutun félagslegs húsnæðis er verkefni  velferðarsviðs Reykjanesbæjar og félagslegt húsnæði í Reykjanesbæ er rekið af Fasteignum Reykjanesbæjar ehf. Skv. lögum er það hlutverk sveitarfélaga að aðstoða íbúa sem eru tekjulágir eða með þunga framfærslubyrði í gegnum félagslega húsnæðiskerfið og þar er sveitarfélagið nokkuð vel sett með íbúðafjölda í félagslega kerfinu í samanburði við önnur sveitarfélög þótt biðlistinn sé langur. Íbúar sem leita til félagsþjónustu sveitarfélaga vegna húsnæðismála sinna fá þar ráðgjöf við húsnæðisleit, upplýsingar um ýmis stuðningsúrræði fyrir tekjulægstu hópana, m.a. sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins og lán til fyrirframgreiðslu húsnæðis. Félagsþjónusta sveitarfélagsins reynir eftir bestu getu að koma til móts  við fólk í þessari erfiðu stöðu m.a. með því að auðvelda þeim þannig aðgengi að almenna leigumarkaðinum. 

Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjanesbæjar