Fréttir af Sókninni

Kjartan Már Kjartansson.
Kjartan Már Kjartansson.

Margt verið gert og ýmislegt framundan

Á morgun, 29. nóvember, er réttur mánuður frá því að opinn borgarafundur var haldinn í Stapa um fjármál Reykjanesbæjar. Á fundinum kynntu ráðgjafar KPMG skýrslur sínar og Haraldar Líndal, sem sýndu svo ekki varð um villst mjög alvarlega fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. Staðan var útskýrð en jafnframt voru lagðar fram leiðir til úrbóta og aðgerðaráætlunin Sóknin kynnt fyrir bæjarbúum. Um 400 manns mættu á fundinn og um 2000 manns skráðu sig inn á beina útsendingu á netinu. Þessi mikli áhugi sýnir að bæjarbúum er umhugað um stöðu mála og vilja fylgjast með aðgerðum sem unnið er að til lausnar á vandanum.

Þess vegna höfum við lagt ríka áherslu á að upplýsa bæjarbúa um þær leiðir til aðhalds, sparnaðar og aukinnar tekjuöflunar sem við erum að skoða og framkvæma.

Stóra markmiðið með Sókninni er að kortleggja hvernig takast megi að uppfylla lagaákvæði um skuldaviðmið sveitarstjórnarlaga en þar segir að skuldir sveitarfélaga megi ekki verða meiri árið 2022 en sem nemur 150% af reglulegum tekjum. Góð samstaða ríkir á meðal allra bæjarfulltrúa um nauðsynlegar aðgerðir.

Á þessum eina mánuði sem liðinn er frá fundinum í Stapa hefur eftirfarandi verið gert:

1. Ákveðið að auka framlegð A-hluta bæjarsjóðs um 900 milljónir króna með hækkun fasteignaskatts og útsvars, sem áætlað er að muni skila bæjarsjóði 400 milljónum króna í auknar tekjur, og 500 milljón króna hagræðingu í rekstri. Áætlað er að um 150 milljónir króna munu nást með lækkun launakostnaðar og 350 milljónir króna með lækkun annarra útgjalda.
2. Ráðningarbann sett á. Það þýðir að óheimilt er að ráða í störf sem losna eða búa til ný störf nema með leyfi bæjarráðs.
3. Búið er að grípa til aðgerða til að lækka kostnað vegna yfirvinnu, bílastyrkja, fastlaunasamninga og liða sem heita „Önnur laun“, um samtals 150 milljónir króna. Þær aðgerðir koma til framkvæmda á tímabilinu mars til desember 2015. Á meðal þess sem gert verður er að endurskoða opnunartíma og vaktakerfi íþróttamannvirkja og sundlauga til þess að draga úr þörf á yfirvinnu.
4. Stjórnendur og almennir starfsmenn hafa unnið hörðum höndum að því að leita leiða til þess að hagræða í öðrum þáttum um 350 milljónir króna.
5. Búið að afgreiða gjaldskrá Reykjanesbæjar fyrir árið 2015. Þjónustugjöld ýmist hækka eða lækka en áhersla er lögð á að halda hækkunum á kostnaðarliðum barnafólks í lágmarki.
6. Búið er að ákveða að loka og breyta nokkrum félögum og sjóðum og/eða sameina öðrum með það að markmiði að lækka kostnað og einfalda skipulag. Verkefni verða færð annað ef þarf. Dæmi um þetta er sameining Þróunarsjóðs og T12 en það félag á og rekur byggingu Ráðhússins, Tjarnargötu 12.
7. Allar þessar aðgerðir munu birtast í nýrri fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar fyrir árið 2015, ásamt 8 ára langtímaáætlun til ársins 2022, sem lagðar verða fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn þ. 16. des. og stefnt er að að afgreiða eftir aðra umræðu þ. 30. des. nk.
8. Í janúar 2015 verður gengið frá samningi við Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga en frumkvæðið að þeirri aðgerð kemur frá Innanríkisráðuneytinu. Tilgangur samningsins er að veita Reykjanesbæ stuðning í erfiðum aðstæðum og taka upp stöðugt eftirlit nefndarinnar með fjármálalegum ákvörðunum sveitarfélagsins. Bæjaryfirvöld munu þó áfram hafa fullt vald yfir fjármálum Reykjanesbæjar.
9. Hafin er vinna við endurskoðun á stjórnskipulagi Reykjanesbæjar og mun nýtt skipurit verða kynnt fyrir 1. feb. 2015. Markmið endurskoðunarinnar er að auka skilvirkni og lækka kostnað í skipulagi stjórnsýslunnar.
10. Á fyrsta ársfjórðungi 2015 hefjast viðræður við lánadrottna og kröfuhafa um skuldbreytingar og endurskipulagningu lána með það að markmiði að lækka fjármagnskostnað. Undirbúningur þessara viðræðna og kortlagning lána og annarra skuldbindinga er hafinn.
11. Áfram verður unnið að öflun nýrra atvinnutækifæra. Nánar verður greint frá árangri á því sviði þegar tilefni gefst til og samningar nást.
12. Áfram verður unnið að uppbyggingu og fjárfestingum í innviðum sveitarfélagsins eftir því sem fjárhagur sveitarfélagsins leyfir hverju sinni. Á næsta ári er gert ráð fyrir að verja 200 milljónum í slíka liði.

Eins og sést á þessari upptalningu hefur ýmislegt verið gert á þessum eina mánuði en mörg, stór og krefjandi verkefni bíða okkar ennþá.  Sameiginlegt markmið okkar íbúa er eitt og hið sama; að koma bænum okkar á réttan kjöl sem allra fyrst þannig að það valdi sem minnstri röskun fyrir sem flesta.  Bæjaryfirvöld munu halda áfram að upplýsa um aðgerðir og tillögur enda teljum við að opin og gegnsæ stjórnsýsla, þar sem allir bæjarbúar hafa kost á að kynna sér hvað er í gangi, sé best til þess fallin að fá sem flesta til að leggjast á árarnar og koma okkur úr því brimróti sem nú ríkir.

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri