Frá veitingu viðurkenningarinnar.
Frá veitingu viðurkenningarinnar.

Föstudaginn 5. október 2012 urðu ánægjuleg tímamót hjá leikskólanum  Garðaseli.  Leikskólinn hlaut viðurkenningu sem Heilsuleikskóli og er þar með orðinn partur af samfélagi Samtaka Heilsuleikskóla um allt land.

Leikskólinn Garðasel tók til starfa um mánaðarmótin maí/júní 1974 en var vígður 3. ágúst sama ár. Í dag er Garðasel 4ra deilda, aldursskiptur leikskóli með 95 börn á skrá.

Leikskólinn er með það að markmiði að:
• Efla alhliða þroska barnsins í samræmi við eðli, þarfir og þroska hvers og eins í gegnum leikinn. Þar sem lögð er áhersla á næringu, hreyfingu, skapandi starf, læsi í víðasta skilningi og stærðfræði.
Leiðir okkar til að ná þessum markmiðum eru þær:
• Að við leggjum áherslu á að börnin fái hollan, fjölbreyttan og næringarríkan mat þar sem allt er unnið frá grunni og hörð fita, sykur og salt eru í lágmarki.
• Við leggjum áherslu á fjölbreyttar skipulagðar hreyfistundir inni sem úti, þar sem andleg og líkamleg vellíðan er í fyrirrúmi, gleði, snerpa og þor.
• Áhersla er lögð á opinn og einfaldan efnivið fyrir sköpunina.
•  Einnig leggjum við áherslu á læsi í víðasta skilningi. Að börnin séu læs á umhverfi sitt, að ritmálið sé sýnilegt, við eflum lesskilning, orðaforða og hljóðkerfisvitund.
• Ásamt því að leggja áherslu á stærðfræði. Að börnin þekki tölutáknin, stærðfræðihugtökin, formin, stærð, fjölda og að tölutáknin séu sýnileg.

Það má segja að þessi dagur verði okkur í leikskólanum mjög minnistæður vegna þess að á föstudaginn var alþjóðlegur dagur kennara og lokadagur heilsu og forvarnarviku Reykjanesbæjar.
Einkunnarorð leikskólans eru: Hreyfing, virðing, næring, skapandi starf.