Hvað þýðir „framlegð“?

Kjartan Már.
Kjartan Már.

Í umræðum síðustu vikna um fjármál Reykjanesbæjar hefur oft verið minnst á hugtakið “framlegð A-hluta bæjarsjóðs.” Í ágætri grein Konráðs Björgúlfssonar á www.vf.is er kallað eftir útskýringum á hugtakinu.

Framlegð er skilgreind á nokkra mismunandi vegu eftir eðli starfsemi hverju sinni. Hjá Reykjanesbæ er framlegð A-hluta bæjarsjóðs það sem eftir stendur af rekstrartekjum þ.e. útsvari, fasteignagjöldum, framlagi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og ýmsum þjónustutekjum þegar búið er að greiða öll dagleg útgjöld sveitarfélagsins svo sem laun, vöru- og þjónustukaup. Þetta er líka kallað “veltufé frá rekstri”. Það sem eftir er; “framlegðin” þarf þá að duga fyrir öllu öðru s.s. afborgunum lána, vöxtum, fjárfestingum, nýframkvæmdum og afskriftum.

Ef framlegðin er neikvæð á Reykjanesbær hvorki fyrir daglegum útgjöldum að fullu né afborgunum lána, hvað þá fé til nýframkvæmda. Það sem uppá vantar þarf þá að taka að láni, fjármagna með sölu eigna og/eða ganga á eigið fé, ef það væri til. Á síðustu 12 árum hefur framlegð A-hluta bæjarsjóðs verið neikvæð um samtals 3 milljarða. Því hefur þurft að ráðast í lántökur, sölu eigna o.s.frv. til þess að geta staðið við skuldbindingar.

Það er algjört grundvallar atriði að snúa þessu við þannig að framlegð eða veltufé frá rekstri verði jákvætt. Með því að bæta framlegð A-hluta bæjarsjóðs um 900 milljónir ætti veltufé frá rekstri að duga til þess að sveitarfélagið geti farið að greiða niður lán, eigi fyrir afskriftum og geti fjárfest í nýframkvæmdum fyrir allt að 200 milljónir á ári. Það eru ekki litlar fjárhæðir en dugir samt rétt fyrir því allra nauðsynlegasta. Þegar síðan mun koma að því innan fárra ára að byggja nýjan grunnskóla í Innri Njarðvík og fjölga leikskólum þarf framlegðin að vera orðin enn meiri. Því markmiði ætlum við að ná með því að hagræða í rekstri og nýta fjármagn betur.