Hvatningarverðlaun fræðsluráðs afhent

Hvatningarverðlaun fræðsluráðs Reykjanesbæjar voru afhent í Bíósal Duus við hátíðlega athöfn þann 13. júní síðastliðinn. Alls bárust 17 tilnefningar og voru verkefnin fjölbreytt að vanda.

Að þessu sinni hlaut verkefnið Gróðurhús í grænum skóla er áskorun og ævintýri hvatningarverðlaun fræðsluráðs 2023 en að því standa Græna teymið, börn, kennarar og matráðar Tjarnarsels.

Í tilnefningu til hvatningarverðlauna kemur þetta fram um verkefnið:

Undanfarin ár hefur gríðarlega mikil og öflug vinna farið fram í að umbylta flötu og litlausu útisvæði leikskólans Tjarnarsels í náttúrulegan garð. Sú vinna hefur að langmestu leiti farið fram í sjálfboðavinnu. Í byrjun júní ár hvert mæta hress börn og systkini þeirra, galvaskir foreldrar, duglegir afar og ömmur, fyrrverandi nemendur, kennarar og fjölskyldur þeirra fylktu liði til að fegra og snyrta garðinn, smíða leiktæki, útbúa leiksvæði og gróðursetja sumarblóm sem hafa verið forræktuð með börnunum frá febrúar ásamt kryddjurtum og grænmeti. Þegar allir leggjast á eitt er óhætt að segja að kraftaverk gerist. Samtakamátturinn og krafturinn í slíkum mannauði er ómetanlegur. Síðasta vinnudag sem var í júní 2022 mættu í kringum 170-180 manns á öllum aldri með bros á vör. Það var töfrum líkast að fylgjast með þessum dugnaðarforkum mæta með uppbrettar ermar, í vinnugöllunum með gleðina að vopni og til í hvað sem er. Það hefur verið sérstaklega ánægjulegt að sjá fjölskyldur barna af erlendu bergi brotna taka þátt í verkefninu og eykst þátttaka þeirra með hverju ári. Eftir síðasta vinnudag sagði móðir pólskrar stúlku þegar hún gekk út „núna finnst mér ég vera hluti af samfélagi.“ Kraftur fjölbreytileikans svífur því yfir á þessum stærsta degi ársins í elsta leikskóla bæjarins.

Nýjasta viðbótin í garðinum okkar er svokallað Bambahús sem er gróðurhús sem sérstaklega er hannað fyrir börn. Nýsköpunar- og þróunarsjóður menntasviðs Reykjanesbæjar styrkti skólann til að kaupa slíkt hús árið 2022. Ræktunarstarfið þar hófst sama dag og húsið var sett niður og er það grænfánaverkefni skólans að þessu sinni. En Tjarnarsel hefur fengið Grænfánann sjö sinnum m.a. fyrir sjálfbærni í garðinum og forræktun blóma og grænmetis. Skólinn tók þátt í Erasmus+ verkefni með Landvernd á árunum 2019-2021 ásamt leik- og grunnskólum á Íslandi, Slóveníu, Lettlandi og Eistlandi. Afrakstur þess verkefnis var gefin út í rafrænni bók sem kallast Lifandi náttúra – lífbreytileiki á tækniöld. Árið 2017 gaf skólinn út handbók sem kallast Garðurinn okkar – útnám í leikskóla (Inga María Ingvarsdóttir, 2017)

Verkefnið er leitt áfram að Græna teymi skólans og verkefnastjóra garðsins, þeim Fanneyju M. Jósepsdóttur, verkefnisstjóra, Önnu M. Kjærnested deildarstjóra og Þóreyju Óladóttur leikskólakennara. Græna teymið leiðir ræktunarstarfið áfram af metnaði og ástríðu fyrir viðfangsefninu sem skilar sér í blómlegri útikennslu þar sem börn, kennarar og matráðar fá notið sín við leik og störf með framsækni, virðingu og eldmóði.

Þrjú önnur verkefni hlutu sérstaka viðurkenningu en það voru verkefnin Fjármálafræðsla í 10. bekk – unnið af Ingva Þór Geirssyni í Njarðvíkurskóla þar sem markmiðið er að kynna helstu fjármálahugtök fyrir nemendum og gera þá læsa á fjármál. Verkefnið Nýheimar - námsúrræði fyrir börn á flótta – unnið af Helenu Bjarndísi Bjarnadóttur og Friðþjófi Helga Karlssyni í Háaleitisskóla en í umsögn um verkefnið segir meðal annars að menntun flóttabarna sé mikilvægur liður í árangursríkri gagnkvæmri aðlögun barnafjölskyldna og er undirstaða jöfnuðar. Verkefnið Jóga og núvitund í vettvangsferðum – unnið af Sigurbjörgu Eydísi Gunnarsdóttur á Gimli en eitt af markmiðum verkefnisins var að finna leiðir til að virkja nemendur okkar og samfélagið til þátttöku.

Á undan afhendingu hvatningarverðlauna voru undirritaðir samningar vegna verkefna sem hljóta styrk úr Nýsköpunar- og þróunarsjóði fyrir skólaárið 2023-2024. Þetta er í fjórða sinn sem úthlutað er úr sjóðnum en alls bárust umsóknir um styrki til 18 verkefna upp á 19.083.000 kr. Úthlutunin nær til 12 verkefna og nemur heildarfjárhæð styrkloforða 9.715.000 kr sem gerir 51% af þeirri upphæð sem óskað var eftir. 6 verkefni hljóta fullan styrk og 6 yfir 50%.

 

Yfirlit yfir verkefnin sem fengu úthlutun:

Akurskóli Akurinn – Samþætting námsgreina – Project based learning

1.040.000 kr

Akurskóli Leiðsagnarnám - höldum áfram veginn!

1.620.000 kr

Háaleitisskóli Sjálfið mitt - Sjálfsbjargarviðleitni (framhald, bók)

400.000 kr

Heiðarskóli Umhverfið okkar

300.000 kr

Holtaskóli Púslið sem vantar

1.840.000 kr

Myllubakkaskóli Læsi og vellíðan

350.000 kr

Njarðvíkurskóli Samstíga í leiðsagnarnámi

1.840.000 kr

Njarðvíkurskóli Ný leið að sama markmiði- Námefni og námsmat í íslensku á unglingastigi.

300.000 kr

Stapaskóli Læsi fyrir lífið í Stapaskóla

800.000 kr

Stapaskóli Íþróttakennara APP

250.000 kr

Stapaskóli Íþróttakennsla og hljóðstjórnun

250.000 kr

Stapaskóli StapaSpjallið

725.000 k

 

Skólastjórar skrifa undir samninga vegna úthlutunar úr Nýsköpunar- og þróunarsjóði fyrir skólaárið 2023 – 2024.

Hvatningarverðlaun fræðsluráðs 2023 – Gróðurhús í grænum skóla er áskorun og ævintýri - Tjarnarsel.