Hver er skuldavandi Reykjanesbæjar?

Hver er skuldavandi Reykjanesbæjar?

Í byrjun febrúar náðist mikilvægur áfangi í viðræðum Reykjanesbæjar við stærstu kröfuhafa sína og af því tilefni var send út sameiginleg fréttatilkynning til fjölmiðla. Í kjölfarið hef ég orðið var við misskilning hjá mörgum sem skildu fréttatilkynninguna þannig að fullgerðir samningar hefðu tekist um niðurfærslu skulda. Því miður er það ekki svo og ætla ég að reyna að skýra málið betur í nokkrum orðum.

Um hvað náðist samkomulag?

Áfanginn sem náðist fólst í því að langstærstu kröfuhafar sveitarfélagsins annars vegar og Reykjanesbær hins vegar komust að sameiginlegri niðurstöðu um hver skuldavandi/niðurfærsluþörf Reykjanesbæjar er. Kröfuhafarnir eru fjármálastofnanir sem sameiginlega fjármögnuðu kaup Eignarhaldsfélagsins Fasteignar hf. á stórum hluta fasteigna Reykjanesbæjar, og fleiri sveitarfélaga, á árunum eftir 2003 sem síðan voru endurleigðar til sveitarfélaganna. Upphæð skuldavandans var ekki gerð opinber fyrr en í dag þar sem kynna þurfti niðurstöðuna fyrir fjölda annarra kröfuhafa sveitarfélagsins. Þeirri vinnu er nú lokið og skuldvandi uppá 6,35 milljarða gerður opinber.

Af hverju var þetta mikilvægur áfangi?

Samkomulagið var mikilvægur áfangi vegna þess að á meðan aðilar voru ekki sammála um að Reykjanesbær væri í skuldavanda, og þar af leiðandi ekki heldur hversu mikill sá vandi væri, var ekki við því að búast að samkomulag næðist nokkurn tíma um nauðsynlega niðurfærslu skulda. Þetta var því algjör lykilforsenda fyrir framhaldið.

Næstu skref

Nú þegar búið er að ná saman um og kynna hver skuldavandinn/niðurfærsluþörfin er fyrir öllum hlutaðeigandi aðilum hefst vinna við að ná samkomulagi um hlutdeild hvers og eins kröfuhafa í niðurfærslunni. Þær viðræður geta tekið talsverðan tíma þar sem tryggingar kröfuhafa og lánasamningar eru mismunandi og óvíst hvort heildstætt samkomulag næst. Það kemur í ljós á næstu vikum. 

Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar