Innleiðing Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna

Börn að leik
Börn að leik

Reykjanesbær hefst handa við innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna 

Reykjanesbær hefur lagt upp í þá vegferð að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Verkefnið nefnist barnvænt sveitarfélag og er á frumstigi. Stofnaður hefur verið stýrihópur utan um verkefnið og að innleiðingu lokinni getur Reykjanesbær sótt um viðurkenningu frá UNICEF á Íslandi. Það er mikið ánægjuefni fyrir Reykjanesbæ að ferlið sé farið af stað þar sem innleiðingin er mikilvægur áfangi í því ferli að gera Reykjanesbæ að skilgreindu barnvænu sveitarfélagi samkvæmt viðmiðum UNICEF.  

Verkefnið barnvænt sveitarfélag er ferli sem tekur tvö ár og að innleiðingu lokinni hefst nýtt tveggja ára ferli með nýjum markmiðum og nýrri aðgerðaáætlun. Vinnan leiðir til þess að til verður heildstætt gagnasafn um stöðu barna í sveitarfélaginu og mun aðgerðaáætlun ávallt byggja á þeim. Þannig verður sífellt rýnt í niðurstöður nýrra rannsókna, breytingar í samfélaginu og tryggt að það verði haft að leiðarljósi sem er börnum fyrir bestu.  

Barnasáttmálinn var lögfestur hér á landi árið 2013 og leggur hann ríka skyldu á opinbera aðila um að fræða fullorðna og börn um þau réttindi sem í sáttmálanum eru. Sáttmálinn gerir þá kröfu að sveitarfélög sem vinna að því að innleiða sáttmálann, vinni markvisst að því að efla þekkingu á réttindum barna innan sveitarfélagsins og gæti þess að réttindin séu virt.  

Aðgerðir Reykjanesbæjar snúa einkum að bæjarkerfinu sjálfu, að gera það aðgengilegra fyrir börn og tryggja að raddir barna séu teknar með í umræðu um málefni sem snerta þau. Aðgerðirnar munu leiða til þess að þátttaka barna og ungmenna í Reykjanesbæ verður efld og verður reynsla þeirra og viðhorf nýtt til þess að bæta þá þjónustu sem ætluð er þeim. Ákvörðun um að innleiða Barnasáttmálann felur í sér viðurkenningu á að þekking og reynsla barna sé verðmæt fyrir sveitarfélög.