Kynbundin og kynferðisleg áreitni eða ofbeldi er ekki liðið hjá Reykjanesbæ

#metoo byltingin hefur hrundið af stað mikilli vitundarvakningu í heiminum um kynferðislega áreitni…
#metoo byltingin hefur hrundið af stað mikilli vitundarvakningu í heiminum um kynferðislega áreitni og kynbundið ofbeldi.

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar sendi í gær frá sér bókun um aðgerðir gegn einelti, kynbundinni og kynferðislegri áreitni. Bókunin er undirrituð af öllum bæjarfulltrúum Reykjanesbæjar og er svohljóðandi:

„Í ljósi þeirrar mikilvægu umræðu sem átt hefur sér stað í samfélaginu undanfarin misseri þar sem fjöldi kvenna hefur stigið fram og lýst reynslu sinni undir myllumerkinu #metoo vilja bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ árétta og renna styrkari stoðum undir þá afdráttarlausu stefnu að kynbundin og kynferðisleg áreitni eða ofbeldi af nokkru tagi er ekki liðin á vinnustöðum sveitarfélagsins.

Í starfsmannastefnu Reykjanesbæjar segir:

„Traust og virðing er undirstaða samskipta milli starfsmanna, starfsmanna og kjörinna fulltrúa sem og milli starfsmanna og íbúa. Samskipti sem með orðum, látbragði eða atferli, ógna, trufla eða ögra öðrum á vinnustaðnum eru óásættanleg. Leggi starfsmaður annan samstarfsmann í einelti eða sýnir honum kynferðislega áreitni, telst sá hinn sami vera að brjóta grundvallarreglur samskipta á vinnustað. Slíkt getur leitt til áminningar og brottreksturs úr starfi.“

Einelti, ofbeldi, kynbundin eða kynferðisleg áreitni er ekki undir neinum kringumstæðum liðin á vinnustöðum Reykjanesbæjar.

Við skilgreiningu á hvað einelti, kynbundin og kynferðisleg áreitni er, er stuðst við reglugerð nr. 1000/2004 en þar segir í 3. og 4. gr.:

Kynbundin áreitni: Hvers kyns ósanngjörn og/eða móðgandi hegðun, sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk og hefur áhrif á sjálfsvirðingu þess sem fyrir henni verður og er haldið áfram þrátt fyrir að gefið sé skýrt í skyn að hegðunin sé óvelkomin. Áreitnin getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn. Eitt tilvik getur talist kynbundin áreitni ef það er alvarlegt.

Kynferðisleg áreitni: Hvers kyns ósanngjörn og/eða móðgandi kynferðisleg hegðun sem er í óþökk og hefur áhrif á sjálfsvirðingu þess sem fyrir henni verður og er haldið áfram þrátt fyrir að gefið sé skýrt í skyn að hegðunin sé óvelkomin. Áreitnin getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn. Eitt tilvik getur talist kynferðisleg áreitni ef það er alvarlegt.

Ábyrgð Reykjanesbæjar sem vinnuveitanda nálægt eitt þúsund einstaklinga er afar rík. Leggja bæjaryfirvöld því ríka áherslu á að stjórnendur í sveitarfélaginu fái þjálfun og aðstoð við að greina og koma með kerfisbundnum hætti í veg fyrir kynferðislega og kynbundna áreitni í sínu nærumhverfi. Hverskyns þöggun eða afneitun gagnvart þessu málefni verður ekki liðin og bera stjórnendur, bæjaryfirvöld og aðrir þeir sem kunna að verða varir við framkomu af þessu tagi sameiginlega ábyrgð á að uppræta hana.“

Undir þetta rita allir bæjarfulltrúar Reykjanesbæjar: Árni Sigfússon, Baldur Þ. Guðmundsson, Böðvar Jónsson, Alexander Ragnarsson, Friðjón Einarsson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Guðbrandur Einarsson, Davíð Páll Viðarsson, Kolbrún Jóna Pétursdóttir, Kristinn Þór Jakobsson og Ingigerður Sæmundsdóttir.
Til máls tóku Friðjón Einarsson, Kristinn Þ. Jakobsson og Böðvar Jónsson.