Á fyrstu árum barna í grunnskóla er megináherslan á lestrarkennslu.  Eitt það mikilvægasta við að ná góðum tökum á lestri er stöðug æfing sem bæði fer fram í skólanum og heima. 

Börn eru misfljót að ná tökum á lestri og þurfa því mismikla æfingu.  Aðstæður heima fyrir eru misjafnar, svo sem að foreldrar  tala ekki íslensku eða aðstæður eru erfiðar vegna veikinda eða af félagslegum toga.    Í slíkum tilvikum er nauðsynlegt að bregðast við svo lestrarnámið dragist ekki á langinn því árangur í lestri hefur áhrif á allt annað nám.  Þar kemur aðstoð lestrarþjálfara inn í myndina.  Það er einmitt hlutverk „lestrarömmu“ og „lestrarafa“ að bæta úr skorti á lestrarþjálfun heima.

Í Holtaskóla var ákveðið að prófa nýja leið, að veita þá aðstoð sem börnin gátu ekki fengið heima hjá sér, í skólanum eftir hefðbundinn skóladag.  Fjórar konur „ömmur“ tóku þátt í verkefninu til að byrja með.   Lestrarkunnátta barnanna var metin í upphafi og jafnt og þétt og við fyrstu mælingu eftir að þjálfunin hófst sáust jákvæðar framfarir í lestrinum hjá þeim börnum sem tóku þátt í verkefninu.
Skólastjóri Holtaskóla lýsti verkefninu þannig um leið og hann þakkaði „lestrarömmunum“ fyrir  óeigingjarnt en árangursríkt starf, á skólaslitum síðastliðið vor:  „Fjórar konur hafa aðstoðað okkur við lestrarþjálfun í vetur og þannig hjálpað börnum að stíga sín fyrstu skref í lestrinum.  Þessi stuðningur hefur skipt miklu máli.  Það er ómetanlegt að vita til þess að til sé fólk sem er tilbúið að leggja á sig að koma í skólann, til að aðstoða börn sem á því þurfa að halda, einungis ánægjunnar vegna.“