Barnvænt samfélag
Barnvænt samfélag

Reykjanesbær er að taka í notkun mælaborð sem hefur að geyma safn upplýsinga um velferð og stöðu barna og ungmenna innan sveitarfélagsins.

Mælaborðið var þróað af Kópavogsbæ í samstarfi við UNICEF á Íslandi og félagsmálaráðuneytið í tengslum við innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Öðrum sveitarfélögum sem eru á sömu vegferð, Reykjanesbæ þeirra á meðal, hefur verið boðið að nýta sér mælaborðið og taka þátt í áframhaldandi þróun þess.

Gögnin sem byggja upp mælaborðið koma meðal annars frá Rannsóknum og greiningu, Embætti landlæknis, HBSC, Skólavoginni og fleiri gagnaveitum. Með mælaborðinu er hægt að safna saman tölfræðigögnum og greina þau og ná þannig fram betri mynd af almennri stöðu barna í hverju sveitarfélagi fyrir sig, bera saman sveitarfélög og fylgjast með þróun yfir tíma.

Mælaborðið samanstendur af fimm víddum sem eru beintengdar grunnstoðum Barnasáttmálans. Grunnstoðirnar eru 2. gr. sem fjallar um jafnræði og bann við mismunun, 3. gr. sem fjallar um það sem barninu er fyrir bestu, 6. gr. sem fjallar um að öll börn eigi rétt á því að lifa og þroskast og 12. gr. sem fjallar um rétt barna til að láta skoðanir sínar í ljós og til að hafa áhrif. Víddirnar eru menntun, jafnræði, heilsa og vellíðan, öryggi og vernd og samfélagsleg þátttaka.

„Það er mikið gleðiefni fyrir okkur að hafa fengið aðgang að mælaborðinu og vil ég nota tækifærið og þakka Kópavogsbæ og öllum þeim sem komu að mælaborðinu og gerð þess fyrir frábæra vinnu. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að hafa yfirsýn og skilja betur og geta greint stöðu og líðan barna í Reykjanesbæ. Mælaborðið mun hjálpa stjórnendum og öðru starfsfólki við gerð stefnumótunar, aðgerðaráætlana og í ákvarðanatöku með það að markmiði að auka velferð barna og ungmenna,“ segir Hjörtur Magni Sigurðsson, verkefnastjóri barnvæns sveitarfélags hjá Reykjanesbæ.