Árni Sigfússon bæjarstjóri
Árni Sigfússon bæjarstjóri

Aðkoma einkafyrirtækja að orkugeiranum á Íslandi er alls ekki nýtilkomin og hefur verið gríðarlega mikilvæg til að gera hann að því sem hann er í dag. Þeir sem láta eins og þetta sé nýtilkomið þekkja engan veginn orkugeirann. Einkareknar íslenskar verkfræðistofur og ráðgjafafyrirtæki með upp undir þúsund verkfræðinga og tæknimenntað fólk hafa veitt ráðgjöf um stórar sem smáar virkjanir, vatnsknúnar og gufuknúnar, gert mælingar og lagt á ráðin um virkjanasvæði, veitt ráð um lausnir og búnað. Túrbínur og tæknibúnaður hefur verið þróaður af íslenskum og erlendum sérfræðingur og smíðaður af erlendum einkafyrirtækjum sem framleiða nánast allan tæknibúnað til virkjana.

Á að útrýma einkaframtakinu?

Þessi reynsla einkafyrirtækja er auðlind sem þarf að nýta og hægt er að nýta í auknum mæli. Þá þurfa þau að hafa tækifæri til að vaxa, ná sterkara samstarfi við erlenda aðila og selja þjónustu sína erlendis. Væru aðstæður Bjarkar tónlistarmanns aðrar ef henni hefði ekki tekist að selja tónlist sína erlendis? Við höfum fagnað með henni öllum sigrum á þeim vettvangi, jafnvel þótt hún velji að greiða skatta sína til annars lands.

Ég er mjög fylgjandi því að einkafyrirtæki fái tækifæri til að beita þekkingu sinni á orkusviðinu. Það er alvarlegt ef við höldum að útrýming einkaframtaks á orkusviði sé lausn á þeim vanda sem við eigum við að etja. Það er enginn að arðræna okkur. Einkafjármagn getur skapað grundvöll fyrir því að við njótum arðs af auðlindunum, fáum tekjur af auðlindagjaldi, sköpum ný störf og fáum góðar tekjur af þeim.

Einkafyrirtæki eiga að geta átt og rekið virkjanir til að skapa og selja vistvæna orku, rétt eins og þau selja ráðgjöf og búnað sem er forsenda orkusölunnar. Þannig leggja þau sjálf fram hið mikla fjármagn sem kostar að virkja og fá vonandi eðlilegan arð af því fjármagni. En til þess þurfa þau samning um að fá að nýta auðlindina sem við íbúarnir eigum. Það er ekki einfalt. Sterkar skorður eru á heimild til nýtingar auðlindarinnar. Skilyrði til virkjana eru sett af ríkisstofnuninni Orkustofnun sem ákveður hvað mikið má virkja (Svartsengi 550 GWst á ári ) og hvort eða hvað má virkja (stækkun Reykjaness eða nýjar virkjanir ) alveg án tillits til eignarhalds . Orkufyrirtæki sem leigir aðgang að auðlindum getur því ekki með nokkru móti nýtt hana eins og því sýnist. Um nýtinguna gilda strangar reglur og leyfi opinberra aðila.

Árni Sigfússon bæjarstjóri