Nú hallar að vetri og vert að yfirfara garðinn sinn

Fallegt umhverfi í Reykjanesbæ.
Fallegt umhverfi í Reykjanesbæ.

Margir garðar hér í Reykjanesbæ hafa tekið miklum breytingum í veðurblíðu síðustu misseri og blómstra sem aldrei fyrr, en nú hallar að vetri og því vert að huga að þeim gróðri sem nær út fyrir lóðarmörk, inn á göngustíga og önnur svæði utan lóða.
Nauðsynlegt er að allir komist leiða sinna um bæinn okkar og því mikilvægt að íbúar haldi í skefjum gróðri við lóðamörk og gæti þess að gróður vaxi ekki m.a. inn á göngustíga.  Ekki er síður mikilvægt að klippa og snyrta gróður sem snýr að umferðargötum og sjá til þess að hann skyggi ekki á útsýni vegfarenda, valdi ekki skemmdum á ökutækjum sem þar fara um eða töfum á snjómokstri.  Gróður má almennt ekki að skyggja á umferðarmerki, götuheiti eða lýsingu.  Einnig minnum við á að ef ætlun er að gróðursetja tré á lóðarmörkum, setja upp skjólveggi og/eða annað þess háttar, þá er mikilvægt að gera það í samráði við eigendur og umráðamenn aðliggjandi lóða.
Flestir garðeigendur eru til fyrirmyndar og gaman að sjá hvað samfélagið í heild er öflugt og áhugasamt um  umhverfið.  En lengi má gott bæta og hvetur Umhverfis og skipulagssvið lóðarhafa til að huga að þessum málum og lagfæra það sem betur má fara. 
Verum til fyrirmyndar og hjálpumst að við að gera bæinn okkar enn snyrtilegri og betri. Því Reykjanesbær er bærinn okkar og ábyrgðin okkar.
Umhverfis og skipulagssvið vísar í ákvæði byggingarreglugerðar
nr. 112/2012, með síðari breytingum. Grein 7.2.2. fjallar um Tré og runna á lóðum og m.a. um skyldur lóðarhafa sbr. eftirfarandi:
„Ekki má planta hávöxnum trjátegundum nær lóðarmörkum aðliggjandi lóða en 4,0 m. Við staðsetningu
trjáa á lóð sem ætlað er að vaxi frjáls skal taka tillit til skuggavarps á viðkomandi lóð og nágrannalóðum.
Sé trjám eða runnum plantað við lóðarmörk samliggjandi lóða skal hæð þeirra ekki verða meiri en 1,80 m,
nema lóðarhafar beggja lóða séu sammála um annað. Ef lóðarmörk liggja að götu, gangstíg eða opnu svæði
má trjágróður ná meiri hæð, enda komi til samþykki veghaldara eða umráðaaðila viðkomandi svæðis.
Lóðarhafa er skylt að halda vexti trjáa og runna á lóðinni innan lóðarmarka. Sinni hann því ekki og þar
sem vöxtur trjáa eða runna fer út fyrir lóðarmörk við götur, gangstíga eða opin svæði er veghaldara eða
umráðamanni svæðis heimilt að fjarlægja þann hluta er truflun eða óprýði veldur, á kostnað lóðarhafa að undangenginni aðvörun.“

Með ósk um góð viðbrögð
Kveðja garðyrkjustjóri Reykjanesbæjar.