Nýtt stöðumat fyrir nemendur af erlendum uppruna

Skólastúlka
Skólastúlka

Mikil þörf hefur verið fyrir öflugt stöðumatstæki til að meta námslega stöðu nemenda af erlendum uppruna hér á landi. 

Frá haustdögum 2016 hafa sveitarfélögin Árborg, Hafnarfjörður og Reykjanesbær verið í faglegu samstarfi um þýðingu og staðfæringu á stöðumatstæki sem nýtist skólum til að leggja mat á námshæfni, þekkingu og reynslu nemenda af erlendum uppruna á þeirra tungumáli. Í lok ársins 2018 bættist Fellaskóli í Reykjavík inn í samstarfið.

Stöðumatið, sem er öllum opið, er hýst á vef Menntamálastofnunar. Þar má finna öll gögn sem þarf til að leggja Stöðumatið fyrir, svo sem kennsluleiðbeiningar, verkefni, skráningargrunna og samantektarskjöl. Þar eru einnig kynningarmyndbönd þar sem saga Stöðumatsins er kynnt, fyrirlögn hvers hluta fyrir sig, hagnýt atriði og niðurstöður.

Stýrihópur hefur leitt þessa mikilvægu þróunarvinnu en eftirtaldir skipa hópinn: Frá Árborg: Aneta Figlarska ráðgjafi í kennslu barna af erlendum uppruna, Hrund Harðardóttir kennsluráðgjafi og Þorsteinn Hjartarson sviðsstjóri. Frá Hafnarfirði: Fanney Dóróthe Halldórsdóttir sviðsstjóri, Kristrún Sigurjónsdóttir kennsluráðgjafi fjölmenningar og Þórdís Helga Ólafsdóttir, fyrrv. sérkennslufulltrúi grunnskóla, nú kennari í Borgarholtsskóla. Frá Reykjanesbæ: Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir verkefnastjóri í íslensku sem öðru máli, Helgi Arnarson sviðsstjóri og Kolfinna Njálsdóttir deildarstjóri skólaþjónustu .

Stöðumatsverkefnið hefur fengið styrki úr Sprotasjóði og í kjölfar námskeiða, sem stýrihópurinn hefur staðið fyrir, hefur Stöðumatið verið tekið í notkun í mörgum skólum hér á landi, svo sem í Árborg, Hafnarfirði, Reykjanesbæ og Reykjavík. Fleiri sveitarfélög hafa fengið námskeið sem eru að stíga fyrstu skrefin í innleiðingu. Tveir framhaldsskólar, Borgarholtsskóli og Fjölbrautaskóli Suðurlands, eru farnir að nýta Stöðumatið, og fleiri eru að huga að innleiðingu þess enda eru sóknarfæri á því skólastigi.

Verkefnið miðar að því að byggja á styrkleikum og efla námshæfni nemenda og að bregðast sem fyrst við námsþörfum hvers og eins með snemmtæku mati og markvissri íhlutun á fyrstu stigum skólagöngunnar í nýju landi. Lögð er áhersla á að líta á Stöðumatið sem matstæki en alls ekki próf og skiptist matið í þrjú stig:

1. stig - fyrri þekking og reynsla:

Styðja skólana í að staðsetja nemendur hvað varðar fyrri þekkingu og reynslu. Niðurstöður matsins auðvelda skólunum að skipuleggja nám nemandans út frá styrkleikum hans og þörfum. Kanna fyrri þekkingu og reynslu nemandans, t.d. varðandi tungumálakunnáttu, skólagöngu, styrkleika o.fl.

2. stig - læsi og talnaskilningur:

Að kanna hvar nemandinn er staddur á sínu tungumáli í læsi.

3. stig - námsgreinar:

Að kanna kunnáttu nemandans í námsgreinum skólans s.s. ensku, sögu, líffræði, stærðfræði o.fl. Gefur vísbendingar um fyrri kunnáttu nemandans og grundvöll til að skipuleggja nám og kennslu við hæfi. Þessi hluti er í vinnslu.