Önnur bylgjan – pistill bæjarstjóra

Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar
Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar

Í Silfrinu þann 29. mars sl. var áhugavert viðtal við Sóleyju Kaldal, sérfræðing í áhættugreiningu. Sóley talaði meðal annars um að heimsfaraldur eins og sá sem nú ríkir myndi, birtast í nokkrum bylgjum. Fyrsta bylgjan væri sjúkdómurinn sjálfur og alvarlegar afleiðingar hans. Önnur bylgjan kæmi strax kjölfarið í formi efnahagslegra erfiðleika, niðursveiflu í atvinnulífinu, aukins atvinnuleysis o.s.frv. Þriðja bylgjan myndi svo birtast, sem félagslegar afleiðingar þessa, með auknum fjárhagserfiðleikum fólks, og margvíslegum erfiðleikum m.a. auknu heimilisofbeldi.

Ef þetta rétt er margt sem bendir til að fyrsta bylgjan, sjúkdómurinn sjálfur, hafi náð hámarki sínu hér á landi og sé í rénum. Á Suðurnesjum hefur sýkingum farið fækkandi eins og víða annars staðar en samt mikilvægt að fólk haldi vöku sinni og fari áfram samviskusamlega eftir öllum þeim leiðbeiningum, tilmælum og reglum sem gefnar hafa verið út og kynntar. Önnur bylgjan er hins vegar að skollin á með grafalvarlegum afleiðingum fyrir þúsundir Suðurnesjamanna en einnig tækifærum sem ég útskýri aðeins síðar. Atvinnuleysi er í sögulegu hámarki og fer vaxandi. Sem betur fer eru flestir enn á uppsagnarfresti eða hlutabótum og staðan ekki orðin eins slæm og hún getur orðið ef ekkert verður að gert. Allir sem vettlingi geta valdið þ.m.t. ríki og sveitarfélög hafa eða hyggjast ætla að bregðast við með ýmsu móti. Margvíslegar aðgerðir eru í undirbúningi. Því fleiri ný störf sem skapast, og því fleiri sem geta nýtt tímann í uppbyggilegum tilgangi eins og að mennta sig, því betra. Hafa ber þó í huga að þetta er tímabundið ástand og við megum aldrei missa vonina.

Fyrir tæpu ári var að frumkvæði Oddnýjar Harðardóttur alþingismanns, með einhuga stuðningi allra þingmanna suðurkjördæmis, samþykkt þingsályktunartillaga um stöðu sveitarfélaganna á Suðurnesjum. Með þingsályktuninni var ríkisstjórninni falið að skipa starfshóp fulltrúa sveitarfélaganna á Suðurnesjum og fimm sérfræðinga úr forsætisráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, atvinnuvega- og nýsköpunaráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og velferðarráðuneyti til að vinna tímasetta aðgerðaráætlun um hvernig efla megi þjónustu ríkisins við íbúa á Suðurnesjum og mæta mikilli fólksfjölgun á svæðinu. Undirritaður tók sæti í starfshópnum auk fulltrúa annarra sveitarfélaga á Suðurnesjum og framkvæmdastjóra SSS.

Þegar þetta er ritað, um miðjan apríl 2020, er starfshópurinn enn að störfum og hefur Covid19 faraldurinn haft áhrif á störf hópsins, að mínu mati til hins betra. Önnur bylgjan sem nú er skollin á dregur fram enn skýrar þá sérstöku og á margan hátt viðkvæmu stöðu sem einkennir atvinnulíf og innviði á Suðurnesjum. Ég bind því miklar vonir við að niðurstaða hópsins muni varpa ljósi á veikleika sem mikilvægt er að ráðast í að styrkja um leið og tækifæri gefst.

Kær kveðja,
Kjartan Már Kjartansson.