Reykjanesbær undir lögboðið skuldaviðmið fyrr en áætlað var

Reykjanesbær baðaður sól á fallegum vetrardegi. Ljósmynd Garðar Ólafsson
Reykjanesbær baðaður sól á fallegum vetrardegi. Ljósmynd Garðar Ólafsson

Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar 2019 og þriggja ára áætlun fyrir árin 2020-2022 voru samþykktar 10-0 á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar undir kvöld. Fjármál sveitarfélagsins hafa tekið miklum stakkaskiptum á síðustu misserum.

Í máli Kjartans Más Kjartanssonar, bæjarstjóra kom ma. fram að sveitarfélagið myndi, að öllu óbreyttu, ná undir lögboðið 150% skuldaviðmið fyrr en upphafleg aðlögunaráætlun gerði ráð fyrir. Kemur þar margt til m.a. skilvirk fjárhagsstjórn, aðhald í rekstri, hagstæð ytri skilyrði, auknar tekjur og breyttar reglur um útreikning skuldaviðmiðs.

Gert er ráð fyrir að heildartekjur bæjarsjóðs nemi 15,6 milljörðum króna árið 2019 en samstæðunnar 23,5 milljörðum króna. Rekstrarniðurstaða bæjarjóðs er áætluð 134 milljónir króna og samstæðunnar 1124 milljónir króna.

Helstu áherslur nokkurra málaflokka 2019:

  • Stærsta verkefnið á Fræðslusviði er bygging fyrsta áfanga nýs skóla í Innri Njarðvík. Framkvæmdir hefjast nú í desember og kennsla haustið 2020. Auk þess verður talsvert um framkvæmdir við stækkun grunn- og leikskóla á tímabilinu vegna fjölgunar íbúa.
  • Áfram verður aukið við stuðning við stækkandi hóp barna sem hafa íslensku sem annað tungumál.
  • Áhersla verður lögð á að bæta aðstöðu og fjölga úrræðum til að mæta margbreytilegum þörfum barna og verður Öspin, sérhæft námsúrræði fyrir börn, stækkuð.
  • Áfram verður unnið að því að efla gæði í frístundaheimilum og skoða mögulega samþættingu frístunda- og íþróttastarfs ásamt aukinni þjónustu utan starfstíma skóla.

Áfram verður unnið að því að hvetja til aukinnar þátttöku barna og ungmenna í íþrótta- og tómstundastarfi með sérstaka áherslu á börn af erlendum uppruna í samstarfi við Velferðarsvið. Unnið verður að heildarstefnumörkun í íþróttum og tómstundum í Reykjanesbæ. Þá verður unnið að undirbúningi við nýjan gervigrasvöll í sveitarfélaginu.

Innan Velferðarsviðs er gert ráð fyrir að hafin verði vinna við hönnun og undirbúning nýs hjúkrunarheimilis í samvinnu við heilbrigðisráðuneytið. Auk þess verður lögð áhersla innleiðingu nýrra laga og lagabreytinga í velferðarþjónustu með áherslu á snemmtæka íhlutun og eflingu fagmenntunar og starfsþróunar á sviðinu. Einnig verður lögð áhersla á að efla og styðja við fjölmenningarsamfélagið Reykjanesbæ og stefnt að því að taka í notkun nýtt sértækt búsetuúrræði fyrir fatlaða og húsnæðislausnir fyrir jaðarhópa.

Umhverfissvið mun leggja áherslu á viðhald gatna og fasteigna auk þess sem gert er ráð fyrir verulegum fjármunum til viðhalds og uppbyggingu fráveitukerfis sveitarfélagsins. Umhverfissvið verður áfram opið fyrir áhugaverðum verkefnum í samtarfi við íbúa.

Í menningarmálum verður Ljósanótt haldin í 20. sinn á árinu og verður tímamótanna minnst með margvíslegum hætti. Aðrar hátíðir og sýningahald verða á sínum stað auk þess sem menningarstefna Reykjanesbæjar verður endurskoðuð.

Rafræn stjórnsýsla, með áherslu á bætt upplýsingastreymi og innri vef starfsmanna, verður ofarlega á lista auk þess sem lokið verður við jafnlaunavottun eins og lög og reglur gera ráð fyrir.

Fjárhagsáætlun 2019 - 2022, samþykkt í bæjarstjórn 4. desember 2018

Forsendur og markmið fjárhagsáætlunar 2019-2022