Samfélagsleg skylda bæjarfélaga að styðja vel við íþróttastarf

Einn af öflugu sundmönnum ÍRB.
Einn af öflugu sundmönnum ÍRB.

Aðstaða til íþróttaiðkunar í Reykjanesbæ er að mestu leyti mjög góð og undanfarin ár hefur bæjarfélagið staðið vel að þeirri uppbyggingu. Mikil ánægja er með samskipti íþróttahreyfingarinnar við starfsmenn íþróttamannvirkja og embættismenn bæjarins.
Það er samfélagsleg skylda bæjarfélaga að styðja vel við íþróttastarf þrátt fyrir að það séu misjafnar áherslur hjá bæjarfélögum. Það sparar bæjarfélaginu peninga til lengri tíma litið þar sem um er að ræða forvarnarstarf. Íþróttastarfið er félagslegt og þar er verið að kenna börnum að þau þurfi að leggja eitthvað á sig í lífinu til að ná árangri. Góðar fyrirmyndir t.d. iðkendur í meistaraflokkum félaga eru nauðsynlegar.
Þetta kom m.a. fram á fundi sem Íþrótta-og tómstundasvið og ÍT ráð átti með formönnum félaga og deilda innan Íþróttabandalags Reykjanesbæjar fyrir stuttu.  Aðilar voru sammála um að slíkir fundir væru nauðsynlegir og þyrfti að halda tvisvar á ári þar sem aðilar gætu skipst á skoðunum og íþróttahreyfingin komið sínum málum á framfæri. Nauðsynlegt er að vinna saman að því að móta framtíðarstefnu um uppbyggingu mannvirkja sem samþykkt er af báðum aðilum.
Þegar spurt var hvaða þrjú atriði mæddu mest á íþróttastarfinu í dag var nefnt, peningar, fólk til starfa og aðstaða til æfinga. Undanfarin ár hefur sífellt verið erfiðara fyrir íþróttahreyfinguna að afla fjár til starfsins. Hér eru því miður fá stórfyrirtæki og  mörg þeirra sem eru hér starfandi eru svokölluð útibú. Það kom fram að flest öll fyrirtækin sem starfa við ferðaþjónustuna á Keflavíkurflugvelli eru með höfuðstöðvar sínar á Reykjavíkursvæðinu. Það má þó ekki gera lítið úr þeim styrkjum sem félögin fá frá fjölmörgum fyrirtækjum.
Í því ástandi sem hér hefur varað undanfarið, mikið atvinnuleysi og erfið staða fjölmargra fjölskyldna þá hefur það bitnað á sjálfboðaliðastarfi hjá íþróttahreyfingunni. Erfiðara að fá fólk til starfa fyrir félögin, en líka er það deginum ljósara að íþróttastarfið gengur ekki nema með öflugum sjálfboðaliðum. Þriðja sem nefnt var er aðstaðan og þá aðallega horft til bardagaíþróttanna, en sem betur fer eru þau mál í góðum farvegi og munu leysast á næstu vikum. Þá var rætt um aðstöðu innanhúss fyrir skotdeild og framkvæmdir sem þarf að fara í við golfvöllinn í Leiru
Hér eru aðeins nokkur atriði nefnd sem rædd voru á  fundinum en áfram verður unnið með þær upplýsingar sem fram komu og vilji allra aðila til að halda þessum fundum áfram með reglulegu millibili.

    Ragnar Örn Pétursson  Íþróttafulltrúi Reykjanesbæjar