Staða Reykjanesbæjar

Kjartan Már Kjartansson
Kjartan Már Kjartansson

Í vikunni mátti heyra fréttir af hallarekstri og slæmri stöðu fjögurra af fimm stærstu sveitarfélaga landsins þ.e. Reykjavík, Kópavogs, Hafnarfjarðar og Akureyri. Einnig var mikið fjallað um þá ákvörðun bæjarfulltrúa Akureyrar að taka upp formlegt samstarf allra kjörinna fulltrúa fram að sveitarstjórnarkosningum í maí 2022 og hætta þar með hefðbundinni skiptingu bæjarstjórnar í meiri- og minnihluta. Margir hafa í framhaldinu spurt um stöðuna í Reykjanesbæ og vil ég í þessum greinarstúf fara nokkrum orðum um hana. 

Fjárhagsleg staða Reykjanesbæjar

Eins og mikið hefur verið fjallað um undanfarin ár var fjárhagsleg staða Reykjanesbæjar grafalvarleg eftir sveitarstjórnarkosningarnar 2014. Skuldir voru miklar og reksturinn erfiður. Með samstilltu átaki ALLRA bæjarfulltrúa kjörtímabilið 2014-2018 tókst að breyta þessari stöðu verulega til hins betra. Þar hjálpaðist margt að. Hagstæð ytri skilyrði, hátt atvinnustig, auknar tekjur, fordæmalaus íbúafjölgun en um leið mikið aðhald í rekstri sem skipti miklu máli. Þá voru skuldir endurskipulagðar með samkomulagi við kröfuhafa. Um langflestar þessara aðgerða ríkti góð samstaða allra bæjarfulltrúa sem hafði gríðarlega mikið að segja þó ekki hefðu verið gerðar breytingar á hefðbundinni skipan mála meirihluta og minnihluta í bæjarstjórn líkt og gert hefur verið fyrir norðan. Mikilvægustu ákvarðanir voru ræddar og samþykktar af öllum bæjarfulltrúum þegar auðvelt hefði verið fyrir minnihlutann að gera þær tortryggilegar og vera á móti. Yfir þessari vinnu vakti svo eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga sem leiddi til farsællar niðurstöðu. Reykjanesbær stendur miklu betur nú en fyrir sex árum þótt vinnunni sé hvergi nærri lokið. 

Fjögur af fimm

En er staða Reykjanesbæjar þá betri en hinna stóru sveitarfélaganna? Nei, aldeilis ekki. Útlit er fyrir verulegan hallarekstur á þessu ári og enn meiri á því næsta. Ástæða þess að Reykjanesbær var ekki nefndur í sömu andrá og hin stóru sveitarfélögin er sú að aðeins voru skoðuð sex mánaða uppgjör sveitarfélaga sem hafa verið könnuð af löggiltum endurskoðendum og birt opinberlega. En af hverju gera hin sveitarfélögin það en ekki Reykjanesbær? Ástæðan er sú að þau eru öll skuldabréfaútgefendur og aðilar að Kauphöll Íslands, sem gerir kröfur um að þau birti kannað milliuppgjör opinberlega, en Reykjanesbær er ekki með slík verðbréf á markaði þessi misserin. Að sjálfsögðu gerum við mánaðarleg uppgjör sem lögð eru fram í bæjarráði en sjáum ekki ástæðu til að kaupa út þjónustu löggiltra endurskoðenda á miðju ári. Á fjármálaskrifstofu Reykjanesbæjar starfa menntaðir löggiltir endurskoðendur sem tryggja að farið sé að lögum, reglum og viðurkenndum reikningsskilavenjum í hvívetna. 

En hvað er til ráða?

Ríki og sveitarfélög, sem saman mynda „hið opinbera“, hafa ákveðið að halda sínu striki í gegnum erfiða tíma en forðast að draga saman seglin, sem myndi gera stöðuna enn verri. Hallarekstur Reykjanesbæjar verður fjármagnaður með lántökum en eins og áður hefur komið fram er staðan betri nú en fyrir sex árum og svigrúm til staðar sem ekki var þá. Að sjálfsögðu er ítrasta aðhalds gætt í öðrum rekstrarkostnaði en ekki verður ráðist í uppsagnir starfsfólks eða lokanir stofnanna. Þvert á móti eru sveitarfélögin á Suðurnesjum, í samstarfi við atvinnurekendur á svæðinu, nú að leita leiða til að fjölga tímabundnum störfum í samvinnu við Vinnumálastofnun til að draga úr atvinnuleysi.

Samstaða allra mikilvæg

Í þeim erfiðleikum sem nú steðja að er eðlilegt að upp komi ólíkar skoðanir. Við sem þjóð höfum borið gæfu til að standa saman á erfiðum tímum og ég vona innilega að svo verði áfram. Einnig er mikilvægt að samstaða ríki á meðal ríkis og sveitarfélaga, sem og innan einstakra skipulagsheilda eins og til dæmis Reykjanesbæjar. Þá er mikilvægt að íbúar geti treyst því að bæjarfulltrúar og starfsmenn sveitarfélagsins, sem allir eru að leggja sig fram við að leysa úr málum, geri sitt besta. Vonandi komumst við sem fyrst út úr þessari stöðu sem í raun má líkja við náttúruhamfarir og enginn sá fyrir eða á sök á. 

Kær kveðja
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar