Suðurnesjamenn hafa þegar greitt fyrir Reykjanesbraut

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar mótmælir alfarið öllum hugmyndum um vegagjald á Reykjanesbraut. Í aðdraganda framkvæmda við tvöföldun Reykjanesbrautar var margoft rætt um mögulega vegatolla en slíkum hugmyndum var ávallt mótmælt af íbúum Suðurnesja. Þær hugmyndir höfðu svo verið lagðar til hliðar þegar framkvæmdir við tvöföldun hófust og yfirlýsingar þáverandi ráðamanna voru á þá leið að ekki yrðu innheimt vegagjöld vegna tvöföldunar Reykjanesbrautar. Nýframkomnar hugmyndir um vegagjald á Reykjanesbraut væru því hrein og klár svik við íbúa Suðurnesja og um leið afar ósanngjarn skattur á íbúa og atvinnulíf á Suðurnesjum.

Nauðsynleg uppbygging menntastofnana á Suðurnesjum verða skorður settar og minnkar aðsókn af höfuðborgarsvæðinu vegna skattlagningar á ferðakostnað nemenda auk þess sem dregið er úr möguleikum nemenda frá Suðurnesjum að sækja nám til höfuðborgarsvæðis vegna aukins kostnaðar.

Niðurskurður í heilbrigðisstarfsemi er ávísun á fleiri ferðir sjúklinga og aðstandenda þeirra til höfuðborgarsvæðisins og eru vegagjöld skattlagning á þann aukakostnað einstaklinga og fjölskyldna á Suðurnesjum.

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar minnir á að á sínum tíma var gjaldtaka á Reykjanesbraut og íbúar á Suðurnesjum hafa lagt sitt af mörkum vegna kostnaðar við uppbyggingu þessara mestu umferðaræðar utan höfuðborgarinnar.

Bílaeigendur greiða bensín- og olíugjald til að kosta þjóðvegakerfi landsins. Bæjarstjórn Reykjanesbæjar tekur undir með sjónarmiðum sem fram hafa komið, m.a. frá FÍB, að ekki sé eðlilegt að íbúar á SV-horni landsins séu aðgreindir frá almennu kostunarkerfi þjóðvegakerfisins og á þá séu settir sérstakir vegatollar.
Með hagsmuni íbúa og atvinnulífs á Suðurnesjum í huga mótmælir Bæjarstjórn Reykjanesbæjar öllum hugmyndum um aukna skattheimtu í formi vegagjalda á Reykjanesbraut.


Böðvar Jónsson, Gunnar Þórarinsson, Magnea Guðmundsdóttir, Einar Þ. Magnússon, Baldur Þ. Magnússon, Kristinn Þ. Jakobsson, Eysteinn Eyjólfsson, Guðný Kristjánsdóttir, Jenný Magnúsdóttir, Björk Þorsteinsdóttir, Ingigerður Sæmundsdóttir.