Svíar vilja læra af Reykjanesbæ í læsismálum

Sá góði árangur sem Reykjanesbær hefur náð í læsi að undanförnu var kynntur á læsisráðstefnu í Stokkhólmi fyrir skömmu. Svíar vilja læra af þeim aðferðum sem starfsfólk fræðslusviðs hefur notað til að bæta árangur í lestri. Árangur 4. bekkinga í íslensku er sterkasta vísbendingin um hversu vel hefur tekist.

Í Framtíðarsýn Reykjanesbæjar í menntamálum, sem var sett fram fyrir ári síðan, er farið yfir þá vinnu sem staðið hefur yfir frá árinu 2010 í því skyni að bæta árangur leik- og grunnskólabarna í lestri og stærðfræði. Þá var staðan slæm og þótti brýnt að spyrna við fótum og grípa til viðeigandi aðgerða.

Guðnýju Reynisdóttur skólaráðgjafa og Gyðu Margréti Arnmundsdóttur deildarstjóra sérfræðiþjónustu var nýverið boðið á læsisráðstefnu hjá háskólaráðinu í Stokkhólmi til að kynna þann góða árangur sem nást hefur í læsi í Reykjanesbæ. Það var Rannís, Rannsóknarmiðstöð Íslands, sem benti háskólaráðinu á verkefni Reykjanesbæjar.

Að sögn Guðnýjar og Gyðu Margrétar eru bæði þær aðferðir sem starfsfólk fræðslusviðs hefur notað í eflingu læsis að gefa góða raun, en ekki síður samtakamáttur þeirra sem starfa að menntamálum í Reykjanesbæ. „Hér höfum við öll verið í sama liði að vinna að sömu markmiðum við að bæta læsi. Bæjaryfirvöld, skólastjórnendur, kennara og foreldrar hafa allir lagst á eitt við að vinna saman, m.a. með því að veita stuðning, deila þekkingu og grípa í taumana um leið og greiningartæki gefa vísbendingu um slakan árangur í lestri. Slakur lestur leiðir yfirleitt af sér aðra námserfiðleika og því er mikilvægt að stoppa í götin strax.“

Eitt af þeim verkfærum sem notuð hafa verið er greiningartækið LOGOS sem er norskt lestrargreiningartæki sem er sérsniðið til að greina lesblindu hjá börnum frá 3. bekk grunnskóla og upp úr. Gyða er ein af þeim sem þýddi og staðfærði greiningartækið yfir á íslensku í samvinnu við háskólasamfélagið. Staðlað skimunarpróf frá Námsmatsstofnun, Leið til læsis, er notuð hjá yngri nemendum og niðurstöður þessa nýttar í leik- og grunnskólum til að gera starfið markvissara. Gyða segir lestrarhraða barna vera  það sem hefur mest forspárgildi þegar kemur að árangri barna í lestri.

Sá árangur sem Reykjanesbær hefur náð í lestri hefur vakið athygli víða um land og margir kollegar úr leik- og grunnskólum landsins komið og kynnt sér aðferðirnar bæði með heimsóknum og óskum um erindi frá starfsfólki fræðslusviðs. Nú hefur hróður vinnunnar borist út fyrir landssteinana og Svíar vilja læra af góðri reynslu Reykjanesbæjar. „Svíar hafa komið illa út úr PISA könnunum og vilja spyrna við fótum. Þeir fengu fréttir af verkefni okkar í gegnum Rannís en auk okkar var starfsfólki af fræðslusviði Hafnarfjarðar boði að halda erindi á læsisráðstefnunni en Hafnfirðingar eru að fara af stað með læsisverkefni sem byggir á framtíðarsýn okkar í Reykjanesbæ,“ segja Guðný og Gyða.