Þingmenn Suðurkjördæmis leiðrétti mismunun - hafni ella fjárlögum

Bæjarhlið Reykjanesbæjar.
Bæjarhlið Reykjanesbæjar.

Eftirfarandi ályktun  vegna málefna Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja var samþykkt samhljóða í Bæjarstjórn Reykjanesbæjar í kvöld, 12. nóvember 2013

Þingmenn Suðurkjördæmis leiðrétti mismunun – hafni ella fjárlögum

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja er alfarið rekin á kostnað og ábyrgð ríkisins, lögum samkvæmt. Áætluð framlög ríkisins til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja á næsta ári eru a.m.k. helmingi lægri á hvern íbúa en til  annarra heilbrigðisstofnana að undanskilinni Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Þessi grófa mismunun á milli landsmanna hefur viðgengist í fjölda mörg ár og er alls ekki líðandi í íslensku samfélagi.

HSS er eina stofnunin á Suðurnesjum sem sinnir grunn heilsugæslu fyrir íbúa og hefur m.a. verið þekkt fyrir vandaða þjónustu fæðingardeildar. Með lokun skurðstofa fyrir þremur árum síðan var í raun skellt í lás fyrir fullkominn rekstur fæðingardeildar og fjölmarga þætti í rekstri HSS.  Sú þjónusta sem starfsmenn HSS berjast enn við að veita er þó til mikillar fyrirmyndar.

Reykjanesbær hefur átt gott samstarf við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja m.a. með samstarfi um félagslega heimaþjónustu sem bæjarfélagið veitir og heimahjúkrun sem HSS veitir. Einnig hefur verið gríðarlega þýðingarmikið fyrir samfélagið að sérfræðideild Fræðsluskrifstofu RNB hefur átt gott samstarf við HSS um skólaheilsugæslu og um aðstoð við börn m.a. með félagslega erfiðleika sem þannig hafa fengið mikilvæga læknisþjónustu í heimabyggð.

Stefna um tilgang og hlutverk HSS í þjónustu við íbúa á Suðurnesjum hefur um of sveiflast eftir áherslum hvers ráðherra, án þess að sveitarfélögin hafi fengið að koma þar að máli. Þar sem óvenju margir hafa vermt ráðherrastól heilbrigðismála undanfarin ár hefur nánast engin stefna verið við líði lengur en 1 til 3 ár í senn. Þessi hringlandaháttur hefur veikt alla starfsemi HSS.

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar beinir þeim eindregnu tilmælum til heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra að leiðrétta mismunun í heilbrigðiskerfinu. Bæjarstjórn hvetur alla þingmenn og sérstaklega þingmenn Suðurkjördæmis til að hafna samþykkt fjárlaga ef ekki verði leiðrétt sú mismunun sem á sér stað í fjárveitingum til grunn heilbrigðisþjónustu, sem skal gilda jafnt fyrir alla landsmenn.  Á grundvelli samnings sem byggir á jafnræði í framlögum til grunnþjónustunnar, býðst Reykjanesbær til að taka yfir rekstur á HSS með rekstrarsamningi þar sem kveðið er á um skýr markmið og hlutverk, líkt og gert hefur verið við nokkur önnur sveitarfélög. Með því móti væri a.m.k. tryggt að stefnu yrði viðhaldið lengur en 1-3 ár.

Samþykkt samhljóða í Bæjarstjórn Reykjanesbæjar 12. nóvember 2013