Þurfum hugarfarsbreytingu Pistill frá bæjarstjóra

Þurfum hugarfarsbreytingu
-Allt of margir greiða allt of lítið

Nú þegar álagningu opinberra gjalda er lokið er ljóst að hér í Reykjanesbæ, og eflaust víðar, þarf að verða hugarfarsbreyting. Allt of margir einstaklingar nota allar mögulegar leiðir til þess að komast hjá greiðslu útsvars á meðan sveitarfélagið berst í bökkum. Langflestir þeirra, sem lítið eða ekkert greiða, eru í eigin rekstri. Svo eru það auðvitað hinir sem vinna bara svart. Það er efni í aðra grein. Auðvitað geta verið góðar og gildar ástæður fyrir lágum uppgefnum launum í einhverjum tilfellum svosem erfitt árferði og tap. Þegar maður hins vegar veit um fólk í eigin rekstri sem hefur það gott, ferðast oft á ári til útlanda, á sumarhús og fleiri eignir, en gefur upp á sig lágmarkslaun, verður maður vonsvikinn. Á sama tíma gerir þetta sama fólk kröfur um fyrsta flokks þjónustu af hálfu Reykjanesbæjar, börnin ganga í skóla, fara í sund, eru á leikskólum, foreldrarnir á elliheimilum, fá aðstoð félagsþjónustunnar o.s.frv. á kostnað launþega sem greiða útsvar.

Útsvar v.s. fjármagnstekjuskattur

Helsti tekjustofn sveitarfélaga er útsvarið. Það er ákveðið hlutfall af uppgefnum launum. Árið 2014 var það 14,52%. Þekkt er sú aðferð að aðilar í eigin rekstri gefi upp á sig lögbundin lágmarkslaun og borga eins lítið útsvar og hægt er. Síðan nýta þeir sér heimild í lögum til að greiða sér út arð, sem ber hins vegar fjármagnstekjuskatt, sem rennur allur í ríkissjóð. Þess vegna verða sveitarfélög af miklu útsvarstekjum vegna þessara leiða sem allt of margir fara.

Þöggun

Áður fyrr spannst talsverð umræða um þessi mál þegar álagningaskráin var lögð fram. Margir kynntu sér hana og létu vita að þeim líkaði illa hve margir virtust vera að svíkja undan skatti því það þýðir auðvitað bara að hinir, sem borguðu sín gjöld, héldu kerfinu og þjónustunni uppi fyrir allan hópinn. Undanfarin ár hefur þessi umræða farið heldur lágt og fáir sem sýna málinu áhuga. Nú má jafnvel finna alþingismenn sem vilja banna opinbera birtingu álagningarskrárinnar. Það finnst mér ekki góð hugmynd.

Álagningarskráin liggur frammi á bæjarskrifstofunum, Tjarnargötu 12, til og með fimmtudagsins 6. ágúst. Til að finna uppgefin laun er t.d. hægt að deila í heildarupphæð álagðs útsvars með 14,52% og aftur með 12 til að finna mánaðarlaunin.

Dæmi: Maður sem er með kr. 500.000.- í mánaðarlaun greiðir kr. 72.600.- í útsvar pr. mánuð eða kr. 871.200.- á ári (72.600*12).  Heildar útsvarsálagning hans í álagningarskránni væri því kr. 871.200.- Til að reikna þetta afturábak þarf að deila með 12 í kr. 871.200.-, sem gera 72.600.- og aftur með 14,52% í 72.600.- sem gera þá kr. 500.000.- Það ætti að gefa góða nálgun á uppgefin mánaðarlaun. 

Þurfum við „druslugöngu?“

Um nýliðna helgi fór hin svokallaða „drusluganga“ fram í Reykjavík. Tilgangur hennar var að gefa landsmönnum, og þá sérstaklega þeim sem höfðu orðið fyrir kynferðislegri misnotkun, tækifæri á að skila skömminni þangað sem hún á heima; hjá gerendunum sjálfum. Því velti ég fyrir mér hvort þörf sé á sams konar hugarfarsbreytingu, ekki bara í Reykjanesbæ heldur um allt land, hvað varðar þátttöku bæjarbúa í greiðslu sameiginlegs kostnaðar. Markmiðið væri að ná samstöðu um að helst öllum þætti sjálfsagt að bera sinn hluta af kostnaði vegna sameiginlegrar þjónustu í stað þess að keppast um að greiða sem minnst.

Mikill munur á lágmarkslaunum og sanngjörnum launum

Nú má vel vera að einhverjum líki þessi skrif mín illa. Það verður þá bara að hafa það. Þeir hinir sömu eru þá væntanlega í hópi þeirra sem hér er verið að deila á. Ef þeir tækju sig nú til og gæfu upp á sig rétt, eða a.m.k. réttari, laun væri staðan önnur og betri.

Kær kveðja,

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri