Uppsafnaður halli á félagslega húsnæðiskerfinu 1,6 milljarður frá 2002

Friðjón Einarsson á bæjarstjórnarfundi í gær. Skjáskot frá YouTube þar sem fundum bæjarstjórnar er …
Friðjón Einarsson á bæjarstjórnarfundi í gær. Skjáskot frá YouTube þar sem fundum bæjarstjórnar er streymt.

Friðjón Einarsson, bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar, gerði margra ára hallarekstur Fasteigna Reykjanesbæjar að umtalsefni á bæjarstjórnarfundi í gær.

Fasteignir Reykjanesbæjar ehf. eru alfarið í eigu Reykjanesbæjar og telst til b-hluta stofnana sveitarfélagsins. Félagið á og rekur um 240 íbúðir til afnota fyrir fjölskyldur og einstaklinga, sem geta ekki séð sér fyrir húsnæði vegna félagslegra aðstæðna, sem og fyrir aldraða.

Félagið hefur verið rekið með miklu tapi frá stofnun árið 2002 og nemur uppsafnað tap nú rúmlega 1,6 milljörðum króna. Ef tekið er meðaltal síðustu þriggja rekstrarára er tapið ríflega 45 milljónir króna á ári og útlit fyrir 45 til 50 milljóna króna tap á rekstri félagsins árið 2017.

Leiguverð félagins er í mörgum tilfellum afar lágt, allt frá 800 krónum á fermetra. Jafnframt er mikill munur á leiguverði á milli íbúða innan félagsins og nemur sá munur rúmlega 40% þar sem bilið er mest.

Löggiltir endurskoðendur félagsins hafa ítrekað bent á rekstrarvanda þess og þá óvissu er ríkir um rekstrarhæfi en það er ljóst að við óbreyttar forsendur mun rekstur félagsins hvorki geta staðið undir afborgunum lána né eðlilegu viðhaldi húsnæðis. Eitt af meginverkefnum félagsins er því að finna leiðir til þess að bregðast við þessum vanda og er unnið að úrbótum á tekjustofnum félagsins sem og hagræðingu í rekstri.

Í samræmi við aðlögunaráætlun sveitarfélagsins er gert ráð fyrir að eignir og skuldir Fasteigna Reykjanesbæjar ehf., sem nú er hluti af samstæðu Reykjanesbæjar, verði færðar til sjálfseignarstofnunarinnar Almennar íbúðir hses á grundvelli nýrra laga um almennar íbúðir sem sett voru í maí 2016.