Úr Víkingaheimum. Hluti Íslendings og gestir safnsins.
Úr Víkingaheimum. Hluti Íslendings og gestir safnsins.

Gróska í menningarlífi

Um áramót er gjarnan litið yfir sviðið, heildarmyndin metin og viðburðir ársins rifjaðir upp.  Í framhaldinu eru ný markmið sett, bæði fyrir heild og einstaka þætti og stefnan sett áfram, að sjálfsögðu. Þetta á við hvort sem er í leik eða starfi.

Flestir geta vonandi tekið undir það að gróska ríki í menningarlífi og menningarstofnunum Reykjanesbæjar. Þar er starfrækt metnaðarfullt og lifandi bókasafn, byggðasafn og listasafn og menningar- og listamiðstöðin Duushús tekur á móti hátt í 40 þúsund gestum ár hvert. Í seinni tíð bættust Víkingaheimar við flóruna og nú síðast Rokksafn Íslands í Hljómahöll, þar sem hver frábæri viðburðurinn rekur annan.

Víkingaheimar undir mælistikuna

Þegar mat er lagt á hvernig til hefur tekist er gott að geta gripið til mælitækja af einhverju tagi. Í Víkingaheimum hefur áhersla verið lögð á að afla upplýsinga með þeim hætti. Frá árinu 2012 hefur vettvangskönnun verið lögð fyrir gesti Víkingaheima með það að markmiði m.a. að veita upplýsingar um upplifun gesta á staðnum og þjónustunni og einnig til að átta sig betur á mynstri ferðamannanna með því t.d. að kanna hvar þeir öfluðu sér upplýsinga um staðinn. Auk þessa hafa gestatölur verið nákvæmlega skráðar frá 2011.

Niðurstaðan er sú að gestum Víkingaheima fjölgar jafnt og þétt. Árið 2011 voru þeir um 8.500, árið 2013 voru þeir orðnir tæp 21.000 og árið 2014 voru þeir um 23.000 og af þeim voru 16.000 gestir erlendir eða tæp 70%.

Af þeim erlendu gestum sem þátt tóku í könnuninni, kom í ljós, að um 70% höfðu fengið upplýsingar um staðinn fyrir heimsóknina og flestir úr ferðahandbókum eða 34%, heldur færri af vefmiðlum eins og Google og  Tripadvisor. Íslendingar höfðu flestir fengið upplýsingar um Víkingaheima hjá vinum eða fjölskyldu.

Flestir erlendu gestanna komu í Víkingaheima vegna áhuga á víkingum og sögu þeirra, vegna almenns söguáhuga og áhuga á að skoða víkingaskipið Íslending. Íslendingar komu flestir af forvitni, til að sýna öðrum staðinn og fyrir börnin.

Þá voru þátttakendur einnig beðnir um að gefa ýmsum þáttum er varða Víkingaheima einkunn á bilinu 1-10. Ekki þarf að koma á óvart að bæði á meðal erlendra og innlendra ferðamanna fékk víkingaskipið Íslendingur hæstu einkunnina eða 9,6 -9,7 og fast á hæla þess kom þjónusta starfsfólks með einkunnina 9,5 sem er afar ánægjulegt.

Blásið til sóknar með samstarfsaðilum

Af þessum niðurstöðum má vel draga þá ályktun að uppgangur sé í starfsemi Víkingaheima, gestum fjölgar jafnt og þétt og þeir gefa bæði sýningum og starfsfólki góða einkunn. Rúmlega 20% þeirra sem svöruðu könnuninni ætlaði einnig að heimsækja önnur söfn í bænum. Einhverjir myndu segja að þar væri góður grunnur til að byggja á og mörg tækifæri til frekari uppbyggingar.

Sú ákvörðun hefur nú verið tekin af bæjaryfirvöldum að freista þess að styrkja stöðu Víkingaheima enn frekar með því að leita eftir áhugasömum og fjársterkum samstarfsaðilum um rekstur Víkingaheima og hefur auglýsing þess efnis verið birt í fjölmiðlum, þar sem því er haldið til haga að helsta aðdráttarafl hússins sé víkingaskipið Íslendingur sem Gunnar Marel Eggertsson og áhöfn hans sigldi yfir hafið árið 2000 til að minnast landafundanna.

Áhugasömum er bent á að hafa samband við framkvæmdastjóra Menningarsviðs Reykjanesbæjar; Valgerði Guðmundsdóttur, netfang valgerdur.gudmundsdottir@reykjanesbaer.is fyrir 1. feb. 2015