303. fundur

11.12.2025 16:00

Fundargerð 303. fundar atvinnu- og hafnarráðs Reykjanesbæjar haldinn á skrifstofu Reykjaneshafnar að Víkurbraut 11 11. desember 2025 kl. 16:00

Viðstaddir: Hjörtur Magnús Guðbjartsson formaður, Alexander Ragnarsson, Kristján Jóhannsson, Sigurður Guðjónsson og Jón Már Sverrisson.

Að auki sat fundinn Halldór Karl Hermannsson, sviðsstjóri atvinnu- og hafnarsviðs.

1. Staða atvinnulífs á Suðurnesjum (2025120109)

Guðjón Skúlason, Guðbergur Reynisson, Heiðar H. Eiríksson og Ingvar Eyfjörð frá Samtökum atvinnurekenda á Reykjanesi og Agnar Áskelsson frá Meistarafélagi byggingarmanna á Suðurnesjum mættu á fundinn.

Farið var yfir stöðu atvinnulífsins, jafnt á Suðurnesjum sem og á landsvísu, út frá nýjustu tölum um atvinnuleysi og rekstrarumhverfi fyrirtækja.

Atvinnu- og hafnarráð þakkar gestum fundarins fyrir komuna og þá innsýn sem þeir hafa gefið í stöðu atvinnulífsins á Suðurnesjum. Víða um land hafa orðið áföll í atvinnulífinu með tilheyrandi atvinnuleysi á viðkomandi stöðum og hefur Reykjanesbær ekki farið varhluta af því. Þessi staða veldur áhyggjum og við henni verður að bregðast. Skylda opinberra aðila er að skapa það umhverfi sem til þarf svo atvinnulífið megi dafna til hagsbóta fyrir íbúana og samfélagið. Sveitarfélögin þurfa að huga vel að skipulagsmálum, innviðum sveitarfélagsins og hagrænum hvötum í nærumhverfinu meðan ríkisvaldið þarf að sjá um almenna innviðauppbyggingu á landinu í heild, skapa réttlátt laga- og reglugerðarumhverfi, auk þess að gæta þess að efnahagsumhverfið sé hagstætt.

Í ágúst sl. samþykkti bæjarstjórn Reykjanesbæjar atvinnustefnu fyrir sveitarfélagið sem er leiðarvísir um þá atvinnuuppbyggingu sem horfa skal til í framtíðinni. Atvinnu- og hafnarráð leggur áherslu á að bæjarfélagið tryggi áfram góð skilyrði til atvinnuuppbyggingar og hvetur jafnframt ríkisvaldið til þess að huga að sínum þáttum og tryggja efnahagslegan stöðuleika í framtíðinni svo snúa megi núverandi þróun í rétta átt.

Samþykkt er að atvinnu- og hafnarráð fundi reglulega með fulltrúum atvinnulífsins í framtíðinni.

Fylgigögn:

Skýrsla Vinnumálastofnunar - Vinnumarkaðurinn á Íslandi

Reykjanesbær - tölur um atvinnuleysi

2. Gjaldskrá Reykjaneshafnar 2026 (2025120110)

Farið var yfir drög að gjaldskrá Reykjaneshafnar vegna ársins 2026. Breytingar frá núverandi gjaldskrá byggjast á þróun á einstökum vísitölum og kostnaðarhækkunum.

Atvinnu- og hafnarráð samþykkir fyrirliggjandi drög að gjaldskrá Reykjaneshafnar vegna ársins 2026 og að gjaldskráin taki gildi 1. janúar 2026.

3. Fjármál Reykjaneshafnar (2025120111)

Reykjaneshöfn er með yfirdráttarheimild hjá viðskiptabanka hafnarinnar upp á 20 milljónir króna sem rennur út þann 31. desember nk.

Atvinnu- og hafnarráð samþykkir að óska eftir því við viðskiptabanka hafnarinnar að núverandi yfirdráttarheimild verði framlengd til 31. desember 2026.

4. Starfsáætlun atvinnu- og hafnarsviðs 2026 (2025120113)

Farið var yfir drög að starfsáætlun atvinnu- og hafnarsviðs fyrir árið 2026.

Fylgigögn:

Starfsáætlun atvinnu- og hafnarsviðs 2025

5. Njarðvíkurhöfn - brimvarnargarður (2023080391)

Á 301. fundi atvinnu- og hafnarráðs þann 22. október sl. var samþykkt að bjóða út byggingu 470 metra brimvarnargarðs sunnan við Njarðvíkurhöfn og var tilboðsfrestur til 2. desember sl. Níu tilboð bárust, þar af fjögur undir kostnaðaráætlun. Vegagerðin er ráðgjafi Reykjaneshafnar við þessa framkvæmd og hefur lagt til að gengið verði til samninga við Íslenska aðalverktaka hf., sem lægstbjóðanda á grundvelli tilboðs þeirra.

Atvinnu- og hafnarráð samþykkir fyrirliggjandi tillögu Vegagerðarinnar og felur Halldóri K. Hermannssyni sviðsstjóra atvinnu- og hafnarsviðs að fylgja eftir framkvæmd málsins.

6. Njarðvíkurhöfn - skipulag (2025110300)

Með hliðsjón af þeirri uppbyggingu sem fyrirhuguð er i Njarðvíkurhöfn á komandi árum hefur atvinnu- og hafnarráð fengið Stefán Gunnar Thors, sviðsstjóra umhverfis og skipulags hjá VSÓ-ráðgjöf, til að undirbúa og leiða þá skipulagsvinnu sem þarf að vinna svo að af framkvæmdinni geti orðið.

Atvinnu- og hafnarráð felur Halldóri K. Hermannssyni sviðsstjóra atvinnu- og hafnarsviðs að óska eftir heimild umhverfis- og skipulagsráðs að Reykjaneshöfn hefji vinnu við breytingar á aðalskipulagi og deiliskipulagi vegna fyrirhugaðrar stækkunar hafnarsvæðis Njarðvíkurhafnar (svokallaðrar A-afmörkunar).

Jafnframt er óskað eftir að samgöngutengingar við hafnarsvæðið verði teknar til skoðunar og tryggt að skipulagsvinnan verði í samræmi við heildarskoðun Reykjanesbæjar á samgöngumálum á svæðinu.

Gert er ráð fyrir að kynning á skipulagslýsingu og vinnslutillögu ofangreindra breytinga verði sameinuð í einni málsmeðferð.

Að lokum er óskað eftir því að atvinnu- og hafnarráð fái að leiða skipulagsvinnuna í nánu og góðu samráði við umhverfis- og skipulagsráð.

Fylgigögn:

Njarðvíkurhöfn - skipulagsbreytingar

7. Helguvíkurhöfn - Suðurbakki (2024040273)

Lagt fram undirritað samstarfssamkomulag milli utanríkisráðuneytisins, Reykjanesbæjar og Reykjaneshafnar, dags. 27. nóvember 2025, en atvinnu- og hafnarráð samþykkti viðkomandi samkomulag á 301. fundi sínum þann 22. október sl. Í tengslum við þá uppbyggingu sem felst í samkomulaginu þarf að fara í ákveðna skipulagsvinnu á svæðinu.

Atvinnu- og hafnarráð felur Halldóri K. Hermannssyni sviðsstjóra atvinnu- og hafnarsviðs að óska eftir heimild umhverfis- og skipulagsráðs að Reykjaneshöfn hefji vinnu við breytingar á aðalskipulagi og deiliskipulagi vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á Suðurbakka Helguvíkurhafnar.

Í breytingum felast breytingar á aðal- og deiliskipulagi þar sem lóðin Stakksbraut 4 er ætluð fyrir olíubirgðastöð, hún stækkuð og legu hennar breytt, auk þess sem gert er ráð fyrir nýjum viðlegukanti á Suðurbakka og kvöðum um lagnaleið. Lóðin verður alfarið innan hafnarsvæðis H1 í aðalskipulagi og að reitur I10 verður felldur niður auk þess sem reitur I8 verði færður til eða felldur niður þannig að hafnarsvæðið rúmi lóðina.

Að lokum er óskað eftir því að atvinnu- og hafnarráð fái að leiða skipulagsvinnuna í nánu og góðu samráði við umhverfis- og skipulagsráð.

8. Framtíðarsýn Reykjaneshafnar 2035 (2025080301)

Farið yfir drög að framtíðarsýn Reykjaneshafnar til 2035.

9. Samgönguáætlun 2026-2040 (2025120114)

Lögð hefur verið fram á alþingi tillaga til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2026–2040 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2026–2030. Í samgönguáætlun koma fram þær áherslur sem ríkissjóður hefur varðandi uppbyggingu á innviðum landsins.

Atvinnu- og hafnarráð lýsir yfir miklum vonbrigðum með þær vegaframkvæmdir sem Vegagerðin ber ábyrgð á hér í Reykjanesbæ og nauðsynlegar eru fyrir uppbyggingu atvinnulífs á svæðinu.

Almennt byggir atvinnulífið á greiðum og öruggum samgöngum og tryggja þarf að atvinnulífið í Reykjanesbæ búi við slíka grunninnviði. Ein af stærri fjárfestingum í nýjum atvinnutækifærum er nú í gangi úti á Reykjanesi þar sem nú er unnið að stórauknum framleiðsluiðnaði sem krefst mikilla þungaflutninga. Innan sveitarfélagsmarka er Nesvegurinn sem tengir fjölþætta og vaxandi atvinnustarfsemi á Reykjanesi við Hafnarveg og þaðan inn í bæjarfélagið. Fyrirsjáanlegt er að vegurinn mun ekki bera verulega aukinn umferðarþunga og nauðsynlegt að huga strax að framkvæmdum við veginn svo hann teljist öruggur innviður. Vegurinn er jafnframt mikilvæg tenging við Grindavík og þaðan yfir á Suðurstrandarveg. Þar er um að ræða öxulás atvinnuuppbyggingar og tækifæra í ferðaþjónustu á Reykjanesi en ekki síst almannavarnainnvið fyrir íbúa Reykjaness. Vetrarþjónusta á þessari mikilvægu innviðatengingu er óásættanleg en vegurinn er takmarkað þjónustaður í 3 daga í viku, þrátt fyrir að á athafnasvæðinu sé starfsemi alla daga ársins, allan sólarhringinn.

Í ljósi þessa skorar atvinnu- og hafnarráð Reykjanesbæjar á Vegagerðina að koma Nesvegi strax í fulla vetrarþjónustu og að Vegagerðin tryggi að þessi mikilvæga samgöngutenging geti borið þá miklu umferð sem iðnaður, ferðaþjónusta og almannavarnarhlutverk krefst. Fyrirséð er að umferð um veginn mun halda áfram að stóraukast og þar af leiðandi mikilvægi hans á komandi misserum og er Vegagerðin hvött til að huga strax að frekari uppbyggingu þessa mikilvæga innviðar.

Atvinnu- og hafnarráð lýsir einnig vonbrigðum sínum með að óskum Reykjaneshafnar varðandi stuðning við hafnarframkvæmdir í framlagðri samgönguáætlun séu ekki í samræmi við fyrirhugaðan uppbyggingartíma. Þó ber að fagna að gert er ráð fyrir stuðningi í áætluninni við uppbyggingu í Helguvíkurhöfn og Njarðvíkurhöfn þó svo sá stuðningur sé áætlaður seinna en fyrirhuguð uppbygging. Mikil atvinnuuppbygging á sér nú stað á iðnaðarsvæðinu í Helguvík sem mun kalla á stóraukna starfsemi í Helguvíkurhöfn á næstu þremur árum. Til þess að geta þjónað þessari uppbyggingu þarf Reykjaneshöfn að lengja viðlegukant Norðurbakka Helguvíkurhafnar um 100 metra á þessu tímabili, að öðrum kosti takmarkast þjónustugeta hafnarinnar verulega sem hamlar fyrirhugaðri atvinnuuppbyggingu. Leggja þarf áherslu á að stuðningur við uppbyggingu Helguvíkurhafnar færist framar í framlagðri samgönguáætlun til að fyrirbyggja slíkt og skorar atvinnu- og hafnarráð Reykjanesbæjar á umhverfis- og samgöngunefnd alþingis að tryggja þá breytingu.

Fylgigögn:

Samgönguáætlun 2026-2040 - tillaga til þingályktunar

10. Cruise Iceland (2025040125)

Tölvupóstur Cruise Iceland, dags. 02. desember 2025, lagður fram þar sem kynnt er nefndarálit efnahags- og viðskiptanefndar alþingis um breytingar á gjaldtöku af skemmtiferðaskipum til lækkunnar frá því sem er í dag. Álitið er lagt fram á alþingi til umfjöllunar.

Atvinnu- og hafnarráð lýsir ánægju sinni yfir þeim árangri sem náðst hefur í leiðréttingu þeirrar gjaldtöku sem sett var á útgerðir skemmtiferðaskipa við Íslandsstrendur án aðlögunar. Reykjaneshöfn hefur verið að sækja í að þjónusta þennan markað og áðursett álagning hafði neikvæð áhrif á þá vinnu. Er það von atvinnu- og hafnarráðs Reykjanesbæjar að þessi árangur verði staðfestur til framtíðar.

Fylgigögn:

Nefndarálit efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis 2. desember 2025

11. Upplýsingagjöf sviðsstjóra (2025010262)

Halldór K. Hermannsson, sviðsstjóri atvinnu- og hafnarsviðs, fór yfir stöðu ýmissa mála er varða starfsemi sviðsins.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18:40.