1070. fundur

08.04.2016 09:25

1070. fundur bæjarráðs Reykjanesbæjar var haldinn 7. apríl 2016 að Tjarnargötu 12, kl. 09:00þ

Mættir: Friðjón Einarsson formaður, Guðbrandur Einarsson aðalmaður, Gunnar Þórarinsson aðalmaður, Árni Sigfússon aðalmaður, Böðvar Jónsson aðalmaður, Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri, Halldóra Hreinsdóttir áheyrnarfulltrúi og Ásbjörn Jónsson ritari.

1. Viðræður við kröfuhafa (2014080481)

Þórey I. Guðmundsdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs, Ágúst H. Ólafsson og Ólafur Arinbjörn Sigurðsson mættu á fundinn. Gerðu þeir grein fyrir viðræðum við kröfuhafa.

A.      Lögð eru fram drög að samkomulagi um fjárhagslega endurskipulagningu Reykjanesbæjar og stofnana hans í bæjarráði Reykjanesbæjar. Samkomulagið byggir á áætlunum sveitarfélagsins og viðræðum við kröfuhafa. Það gerir ráð fyrir að aðilar að samkomulaginu (fjárhagslegir kröfuhafar) færi niður skuldir og/eða skuldbindingar Reykjanesbæjar og stofnana hans með beinni niðurfærslu samtals að fjárhæð kr. 6.350 milljónir.  Í meginatriðum er ákvæði samkomulagsins eftirfarandi:

1. Að fjárhagslegir kröfuhafar Reykjanesbæjar og/eða stofnana hans sem njóti tryggingar í fasteignum og/eða eru með leigusamning við sveitarfélagið samþykki sama hlutfall í formi niðurfærslu skulda, lækkun leigugreiðslna og/eða breytingu skilmála. Miðað er við að tryggðir fjárhagslegir kröfuhafar gefi eftir 24,4% af skuldum og/eða skuldbindingum sínum við Reykjanesbæ og stofnanir hans. Með tryggðum kröfuhöfum í samkomulaginu er átt við kröfuhafa sem njóta veðtryggingar í fasteignum og/eða eru leigusalar Reykjanesbæjar.

2. Samkomulagið gerir ráð fyrir að óveðtryggðir kröfuhafar Reykjanesbæjar og/eða stofnana bæjarins samþykki 50% niðurfærslu af skuldum og/eða skuldbindingum sínum við Reykjanesbæ og stofnanir hans.

3. Samkomulagið gerir ráð fyrir að fjárhagslegir kröfuhafar Reykjaneshafnar  samþykki að gefa eftir 45% af kröfum sínum. Sá hluti skulda sem samsvarar fjárhæð útreiknaðs tryggingaverðmætis sætir 24,4% niðurfærslu en skuldir umfram tryggingaverðmæti eru metnar ótryggðar og sæta 50% niðurfærslu.

4. Allar fjárhæðirnar í samkomulaginu miðast við árslokastöðu ársins 2015.

Bæjarráð Reykjanesbæjar hefur farið  ítarlega yfir fyrirliggjandi tillögu. Bæjarráð samþykkir að samkomulagið beri að skjalfesta og bera undir kröfuhafa til samþykkis eða synjunar með eftirfarandi fyrirvörum:

1. Allir fjárhagslegir kröfuhafar undirriti samkomulagið.

2. Að bæjarstjórn samþykki aðlagaða fjárhagsáætlun sem liggur til grundvallar samkomulaginu.

3. Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga samþykki aðlagaða fjárhagsáætlun samkvæmt tölulið 2.

4. Samningum um endurfjármögnun skulda og skuldbindinga og/eða skilmálabreytingum verði lokið fyrir 30. júní 2016.

B.      Bæjarráð samþykkir að komi til þess að náist ekki samkomulag við fjárhagslega kröfuhafa til samræmis við framangreint fyrir 15. apríl nk. verði óskað eftir því að sveitarfélaginu verði skipuð fjárhaldsstjórn skv. 86. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. 

A liður tillögunnar er samþykktur samhljóða en B liður er samþykkur með þremur atkvæðum meirihlutans gegn tveim atkvæðum minnihlutans.    Halldóra Hreinsdóttir styður ákvörðun meirihlutans.

2. Aðgerðir vegna ársreiknings 2015 (2016030234)

Þórey I Guðmundsdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs og Regína F. Guðmundsdóttir, deildarstjóri reikningshalds mættu á fundinn. 

3. Rekstraruppgjör janúar og febrúar 2016 (2016040047)

Lagt fram.

4. Erindi fjármála- og efnahagsráðuneytisins dags. 11. mars 2016 varðandi málefni Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar (2016030231)

Bæjarráð felur bæjarstjóra að svara erindinu.

5. Samþykkt Öldungaráðs Suðurnesja (2016040048)

Lagt fram.

6. Kauptilboð í Hafnargötu 2 (2016040050)

Bæjarráð telur mikilvægt að unnið sé að framtíðarskipulagi svæðisins áður en tekin er afstaða til einstakra erinda.  Bæjarráð getur því ekki orðið við erindinu.  Bæjarráð felur umhverfis- og skipulagsráði að koma með tillögur að framtíðar skipulagi svæðisins.

7. Ráðning skólastjóra Heiðarskóla (2016040051)

Helgi Arnarson, sviðsstjóri fræðslusvið mætti á fundinn.  Bæjarráð samþykkir að ráða Harald Axel Einarsson í starf skólastjóra Heiðarskóla.

8. Erindi vegna Sólvallagötu 42, bílageymslu (2016040055)

Bæjarráð mælir með kaupunum og vísar því til Fasteigna Reykjanesbæjar ehf.

9. Þyrlupallur á Vatnsnesi - ósk um viðræður (2016020434)

Bæjarráð felur bæjarstjóra og sviðsstjóra umhverfissviðs að ræða við forsvarsmann Hótels Keflavíkur.

10. Fundargerð stjórnar Reykjanesfólkvangs 16. mars 2016 (2016030405)

Lagt fram.

11. Erindi Sýslumannsins á Suðurnesjum vegna umsóknar Sigurðar G. Kristjánssonar um leyfi til að reka gististað í flokki I að Reykjanesvegi 8 (2016040053)

Bæjarráð samþykkir erindið fyrir sitt leyti.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 19. apríl 2016.