1071. fundur

14.04.2016 13:19

1071. fundur bæjarráðs Reykjanesbæjar var haldinn 14. apríl 2016 að Tjarnargötu 12, kl. 09:00.

Mættir: Friðjón Einarsson formaður, Guðbrandur Einarsson aðalmaður, Árni Sigfússon aðalmaður, Böðvar Jónssonaðalmaður, Davíð Páll Viðarsson varamaður, Kristinn Þór Jakobsson áheyrnarfulltrúi, Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og Ásbjörn Jónsson, ritari.

 

1. Viðræður við kröfuhafa (2014080481)

Þórey I. Guðmundsdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs, mætti á fundinn.

Meirihluti bæjarráðs lagði fram eftirfarandi bókun:

Fjárhagsstaða Reykjanesbæjar hefur verið mjög erfið um langt skeið. Af þeim sökum hefur sveitarfélagið verið í nánu samstarfi við Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga og með sérstöku samkomulagi við innanríkisráðherra, fyrst árið 2014 og aftur 2015, hefur markvisst verið unnið að úrbótum og ýmsum hagræðingaraðgerðum í rekstri. Ferli endurskipulagningar hófst í október árið 2014 með samþykkt bæjarstjórnar Reykjanesbæjar á hagræðingu í rekstrarkostnaði og auknum álögum á íbúa sveitarfélagsins.

Eftir yfirferð á samþykktum áætlunum og forsendum þeirra varð ljóst að sveitarfélagið væri ekki einungis að glíma við greiðsluvanda heldur einnig verulegan skuldavanda þar sem skilyrði sveitarstjórnarlaga gera ráð fyrir að sveitarfélagið sé komið undir 150% lögbundið skuldaviðmið fyrir árslok 2022.

Ljóst þótti að til þess að komast undir lögboðið skuldaviðmið fyrir árslok 2022 þyrftu kröfuhafar að gefa eftir eitthvað af skuldum sínum. Hófust því viðræður við kröfuhafa haustið 2014 um aðkomu þeirra að endurskipulagningu sveitarfélagsins.

Samkomulag náðist þann 5. febrúar 2016 við stærstu kröfuhafa um að niðurfærsluþörf sveitarfélagsins næmi um kr. 6.350 milljónum að því gefnu að samningar næðust í frjálsum samningum og sveitarfélagið væri í stakk búið að grípa þau tækifæri sem því standa til boða. Niðurfærsluþörfin og tillaga að endurskipulagningu var svo kynnt öðrum kröfuhöfum á tímabilinu 22.-29. febrúar.

Bréf var sent til allra kröfuhafa 18. og 22. mars þar sem ferli málsins var nánar rakið ásamt öðrum atriðum. Í bréfinu var tillaga að vinnuferli kynnt sem og að það væri skýr vilji Reykjanesbæjar að leita allra leiða til að ljúka viðræðum um heildarendurskipulagningu á fjárhag sveitarfélagsins fyrir 15. apríl 2016. Jafnframt var óskað eftir því að kröfuhafar kæmu á framfæri beiðnum um frekari gögn teldu þeir sig þurfa.

Drög að samkomulagi um heildarendurskipulagningu var samþykkt í bæjarráði Reykjanesbæjar þann 7. apríl og kröfuhöfum tilkynnt að óskað væri eftir að þeir samþykktu samkomulagið fyrir kl. 17:00  miðvikudaginn 13. apríl 2016. Bæjarráð samþykkti einnig á sama fundi að óskað yrði eftir því að sveitarfélaginu verði skipuð fjárhaldsstjórn, eins og lög gera ráð fyrir, ef samkomulag við kröfuhafa næðist ekki.

Þó að meirihluti kröfuhafa, sem tillagan tók til, hafi samþykkt tillögu að samkomulagi um heildarendurskipulagningu er það ekki nægjanlegt. Viðunandi niðurstaða í viðræðunum hefur því ekki náðst. Meirihluti bæjarráð stendur því við fyrri ákvörðun sína og leggur til við bæjarstjórn Reykjanesbæjar að hún samþykki á fundi sínum þ. 19. apríl nk. að óskað verði eftir því við innanríkisráðuneytið að sveitarfélaginu verði skipuð fjárhaldsstjórn.

Að lokum vill bæjarráð þakka öllum sem lagt hafa hönd á plóg í þessari mikilvægu vinnu sem og þeim kröfuhöfum sem töldu sér fært að fara þá leið sem lagt var til að yrði farin. 

Friðjón Einarsson, Davíð Páll Viðarsson og Kolbrún Jóna Pétursdóttir.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun: Við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítrekum skoðun okkar að hagsmunum íbúa Reykjanesbæjar sé betur borgið í höndum kjörinna fulltrúa bæjarstjórnar og bæjarstjóra en í höndum Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga. Algjör óvissa er um hvaða áhrif sú ákvörðun mun hafa á þjónustu og rekstur sveitarfélagsins til næstu ára.

Ef ríkið sér ekki ástæðu til að standa með sveitarfélaginu gagnvart föllnu bönkunum sem það sjálft hefur notið góðs af sem og uppbyggingu í Helguvík þá teljum við réttast að það geri sjálft kröfu um yfirtöku á fjármálum sveitarfélagsins fremur en að frumkvæðið sé frá kjörnum bæjarfulltrúum í bæjarstjórn Reykjanesbæjar.

Árni Sigfússon og Böðvar Jónsson

 

Guðbrandur Einarsson fór af fundi kl. 09:50 og Kolbrún Jóna Pétursdóttir varamaður tók sæti hans.

 

2. Ársreikningur 2015 (2016030234)  Drög af ársreikningi 2015 lagður fram á fundinum.  

Þórey I Guðmundsdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs og Regína F. Guðmundsdóttir, deildarstjóri reikningshalds mættu á fundinn. 

Bæjarráð samþykkir að vísa ársreikningnum til endurskoðunar og til fyrri umræðu í bæjarstjórn 19. apríl nk.

 

3. Nefndarálit vegna bæjarmálasamþykktar (2014110066)

Lagt fram.

 

4. Yfirlagnir 2016 ( 2016040114)

Bæjarráð samþykkir að gerður verði viðauki við fjárhagsáætlun í þeim tilgangi að hækka framlög við yfirlagnir gatna um 20 milljónir í fjárhagsáætlun fyrir árið 2016.

 

5. Almenningssamgöngur (2015120010)

Bæjarráð samþykkir að fela sviðsstjóra umhverfissviðs að semja við núverandi rekstraraðila til 1. júní 2017 um akstur almenningssamgangna.

 

6. Inniæfingaaðstaða Golfklúbbs Suðurnesja og Púttklúbbs Suðurnesja (2014100199)

Bæjarráð samþykkir að veita kr. 6.578.000,-  í framkvæmdirnar og verði kostnaðurinn tekin af bókhaldslykli 21-011.

 

7. Aðstaða við æfingasvæði Knattspyrnudeildar Keflavíkur (2016040042)

Bæjarráð vísar erindinu til fjárhagsáætlunar 2017.

 

8. Ásbrú norður (2016040116)

Lagt fram drög af greinargerð um þróun og skipulagsmál svæðisins.

 

9. Erindi Sýslumannsins á Suðurnesjum vegna umsóknar Bústaðaleigunnar ehf. um leyfi til að reka gististað í flokki V að Grænásvegi 10 (2016040118)

Bæjarráð samþykkir erindið fyrir sitt leyti.

 

10. Erindi Sýslumannsins á Suðurnesjum vegna umsóknar Magnúsínu Guðmundsdóttur um leyfi til að reka gististað í flokki I að Faxabraut 49 (2016040119)

Bæjarráð samþykkir erindið fyrir sitt leyti.

 

11. Erindi Sýslumannsins á Suðurnesjum vegna umsóknar Malgorzata Mordon Szacon um breytingu á leyfi til að reka gististað í flokki I að Hraunsvegi 8 (2016040121)

Bæjarráð samþykkir erindið fyrir sitt leyti.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið.

Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 19. apríl 2016.