1084. fundur

28.07.2016 00:00

1084. fundur bæjarráðs Reykjanesbæjar var haldinn 28. júlí 2016 að Tjarnargötu 12 kl. 09:00.

Viðstaddir: Árni Sigfússon, Böðvar Jónsson, Friðjón Einarsson, formaður, Guðbrandur Einarsson, Gunnar Þórarinsson, Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri, Kristinn Þór Jakobsson áheyrnarfulltrúi og Ásbjörn Jónsson ritari.

1. Suðurnesjalína 2 (2011060083)
Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets og Guðjón Axel Guðjónsson lögfræðingur mættu á fundinn og gerðu grein fyrir málinu.  

2. Fundargerðir stýrihóps vegna atvinnu- og þróunarsvæðis á Miðnesheiði 3,4,5 og 6 fundir (2016050195)
Fundargerðirnar lagðar fram.  Bæjarstjóri gerði gein fyrir málinu. 

3. Erindi forsvarsmanna Hótel Keilis (2016050283)
Lagt fram.

4. Niðurstöður útboðs í ræstingu á grunnskólum Reykjanesbæjar (2016050029)
Lagt fram til kynningar.

5. Fundargerð stjórnar Reykjaneshafnar (2016010108)
5. mál í fundargerðinni er tekið sérstaklega fyrir til samþykktar. Bæjarráð Reykjanesbæjar samþykkir hér með að veita  einfalda ábyrgð vegna lántöku Reykjaneshafnar hjá Lánasjóði sveitarfélaga að fjárhæð 20.000.000 kr. til 8 ára, í samræmi við samþykkta skilmála lánveitingarinnar sem liggja fyrir fundinum. Ábyrgð þessi er veitt sbr. heimild í 1. mgr. 69. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, og veitir sveitarstjórnin lánasjóðnum veð í tekjum sínum til tryggingar þeirri ábyrgð, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sömu laga. Ábyrgðin tekur til greiðslu höfuðstóls láns þessa, ásamt vöxtum og verðbótum auk  hvers kyns innheimtukostnaðar.  Lánið er tekið til endurfjármögnunar afborgana af lánum Reykjaneshafnar, sem fellur undir lánshæf verkefni,  sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.

Bæjarráð Reykjanesbæjar skuldbindur hér með sveitarfélagið sem eiganda Reykjaneshafnar til að selja ekki eignarhlut sinn í Reykjaneshöfn til einkaaðila, í heild eða að hluta, fram til þess tíma að lán þetta er að fullu greitt.
Fari svo að Reykjanesbær selji eignarhlut í Reykjaneshöfn til annarra opinberra aðila, skuldbindur Reykjanesbær sig til þess að tryggja að samhliða yfirtaki nýr eigandi ábyrgð á láninu í hlutfalli við eignarhlut sinn í félaginu.
Jafnframt er Kjartani Má Kjartanssyni, kennitala ekki birt, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess að samþykkja f.h. Reykjanesbæjar veitingu ofangreindrar ábyrgðar og veðsetningar og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast veitingu ábyrgðar þessarar.
Heimildin samþykkt 5-0

Fundargerðin samþykkt að öðru leyti 5-0.

6. Erindi Sýslumannsins á Suðurnesjum vegna umsóknar Fagrablaks frá Keflavík ehf. um endurnýjun rekstrarleyfis vegna veitingastaðar í flokki III að Hafnargötu 38 (2016070206)
Málinu frestað. Bæjarstjóra falið að fá frekari gögn. 

 7. Erindi Sýslumannsins á Suðurnesjum vegna umsóknar Barveldisins ehf. um leyfi til að reka gististað í flokki III að Hafnargötu 21 (2016070208)
Málinu frestað.

8. Erindi Sýslumannsins á Suðurnesjum vegna umsóknar Katarzynu Elizu Porzezinska um leyfi til að reka gististað í flokki II að Heiðarvegi 14 (2016070207)
Bæjarráð samþykkir erindið fyrir sitt leyti.

9. Erindi Sýslumannsins á Suðurnesjum vegna umsóknar Siguringa Sigurjónssonar um leyfi til að reka gististað í flokki I að Hólagötu 43 (2016070205)
Bæjarráð samþykkir erindið fyrir sitt leyti.

10. Erindi Sýslumannsins á Suðurnesjum vegna umsóknar TF HOT ehf. um leyfi til að reka gististað í flokki V að Valhallarbraut 756 og 757 (2016070216)
Bæjarráð samþykkir erindið fyrir sitt leyti.

11. Flugumferð um Keflavíkurflugvöll ( 2016070236)Bæjarráð samþykkir eftirfarandi bókun:

Bæjarráð Reykjanesbæjar beinir þeim tilmælum til flugvallaryfirvalda á Keflavíkurflugvelli, og flugfélaga sem nota flugvöllinn, að reynt verði eftir fremsta megni að draga úr og takmarka óþarfa ónæði sem íbúar Reykjanesbæjar verða fyrir vegna flugumferðar um Keflavíkurflugvöll.

Til viðbótar við gríðarlega aukningu flugumferðar allan sólarhringinn hefur svokölluð norður-suður braut verið lokuð vegna viðhaldsframkvæmda í sumar og verður allt til loka september 2016. Því fer öll flugumferð um brautina sem liggur í austur-vestur. Aðflug úr austri og flugtak í austurátt af þeirri braut liggur beint yfir þéttri íbúðabyggð í Njarðvík en aðflug úr vestri og flugtak í vesturátt fer hins vegar yfir lítið eða óbyggt svæði á vesturhluta Reykjanesskagans, u.þ.b. 8 km suður af Sandgerði.

Því er þess krafist að flugumferð á tímabilinu 23:00-07:00 verði sem mest beint um vestari enda flugbrautarinnar og að flugtaksferlar, sem hannaðir eru til að valda sem minnstum hávaða og ónæði, verði á sama tíma í forgangi ef nota á austari hluta flugbrautarinnar.

Einnig eru flugvallaryfirvöld hvött til þess að innleiða strax Reglugerð 666/2015 um rekstrartakmarkanir vegna hljóðmengunar á flugvöllum sem staðsettir eru á Evrópska efnahagssvæðinu. Reglugerð þessi gildir um flugvelli þar sem flughreyfingar (komur og brottfarir) loftfara í almenningsflugi eru fleiri en 50.000 á almanaksári, að teknu tilliti til meðaltals síðustu þriggja almanaksára. Hreyfingar á Keflavíkurflugvelli voru yfir 40 þús. á árinu 2015 og fjölgar hratt.

Greinargerð

Íbúar Reykjanesbæjar hafa í rúm 60 ár búið í sátt og samlyndi við Keflavíkurflugvöll og vilja að gera það áfram. Alþjóðaflugvöllurinn er stærsti vinnustaður Suðurnesja og skiptir gríðarlega miklu máli fyrir mannlíf svæðisins. Bæjaryfirvöldum er fullkomlega ljóst að taka þarf tillit til öryggis, veðurs og vinda, flugtíma, eldsneytisnotkunar o.fl. Með þessari bókun er þó verið að biðja um að lífsgæði íbúa og gesta Reykjanesbæjar verði jafnframt höfð ofarlega í huga þegar ákvarðanir eru teknar um hvaðan og hvernig skuli tekið á loft og lent.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið