1363. fundur

24.03.2022 08:00

1363. fundur bæjarráðs Reykjanesbæjar, haldinn í Merkinesi, Hljómahöll 24. mars 2022 , kl. 08:00

Viðstaddir: Friðjón Einarsson formaður, Baldur Þ. Guðmundsson, Díana Hilmarsdóttir, Guðbrandur Einarsson og Margrét A. Sanders.

Að auki sátu fundinn Gunnar Felix Rúnarsson áheyrnarfulltrúi, Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og Hrefna Gunnarsdóttir ritari.

Gestir fundarins komu inn í gegnum fjarfundarbúnað.

1. Útboð á endurskoðun Reykjanesbæjar (2022030519)

Kristinn Þór Jakobsson innkaupastjóri og Regína Fanný Guðmundsdóttir fjármálastjóri mættu á fundinn. Lagt fram minnisblað vegna örútboðs innan rammasamnings RK.14.21 Endurskoðun.

Meirihluti bæjarráðs samþykkir þau útboðsgögn sem send voru út 1. mars 2022. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks sitja hjá.

2. Innkaupastefna og innkaupareglur Reykjanesbæjar (2022020159)

Kristinn Þór Jakobsson innkaupastjóri og Regína Fanný Guðmundsdóttir fjármálastjóri mættu á fundinn .Lögð fram drög að innkaupastefnu Reykjanesbæjar og drög að reglum um innkaup hjá Reykjanesbæ.

Bæjarráð vísar drögum að innkaupastefnu Reykjanesbæjar til fyrri umræðu í bæjarstjórn.

3. Dalshverfi III - lóðaumsóknir (2019050472)

Gunnar Kr. Ottósson skipulagsfulltrúi mætti á fundinn. Kynntar tillögur að reitum húsa fyrir óhagnaðardrifin leigufélög.

4. Stapaskóli áfangi II (2021040148)

Lagt fram bréf frá ÍAV hf. um endurskoðun á verkáætlun vegna fyrirsjáanlegra tafa við afhendingu efnis og aukinn kostnað vegna Covid-19 og stríðs í Úkraínu.

5. Erindi til bæjarráðs - Málfundafélagið Faxi (2022030583)

Lagt fram erindi frá Málfundafélaginu Faxa þar sem óskað er eftir að fá stóra salinn í Stapa til að halda framboðsfund allra framboða sem bjóða fram í Reykjanesbæ í sveitastjórnarkosningunum 14. maí 2022.

Bæjarráð felur Kjartani Má Kjartanssyni bæjarstjóra að vinna áfram í málinu.

6. Lóð í Helguvík – erindi frá Almex (2022010439)

Reykjanesbær og bandaríska fyrirtækið Almex USA Inc., í gegnum íslenskt dótturfélag, hafa náð samkomulagi um að skoða möguleika þess að setja upp umhverfisvæna endurvinnslu á áli í Helguvík. Almex USA Inc sérhæfir sig í framleiðslu á búnaði fyrir úrvinnslu og endurvinnslu á hágæða áli ásamt fjárfestingum í skyldum iðnaði, er leiðandi á sviði endurvinnslu léttmálma og með sérstöðu hvað varðar framleiðslu á áli fyrir geimferða- og flugvélaiðnaðinn. Telur fyrirtækið Ísland vera hentuga staðsetningu fyrir þessa starfsemi.

Um er að ræða umhverfisvæna starfsemi sem yrði hluti af sjálfbæru hringrásarhagkerfi og er áætluð ársframleiðsla 45.000 tonn í fyrri áfanga. Reiknað er með að starfsmenn verði um 60 þegar fullum afköstum er náð. Reykjanesbær horfir jafnframt til þess að afleidd tækifæri af slíkri starfsemi geti styrkt atvinnuþróun á svæðinu.

Verkefnið er i samræmi við þá stefnu Reykjanesbæjar að í Helguvík byggist upp iðnaður sem hafi jákvæð áhrif á umhverfið og samfélagið. Markmið Reykjanesbæjar er að efla Helguvík sem iðnaðarsvæði sem styður við þá stefnu og hringrásarhagkerfið.

Bæjarráð heimilar Kjartani Má Kjartanssyni bæjarstjóra að undirrita viljayfirlýsingu þess efnis.

7. Fundargerð stjórnar Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum 16. mars 2022 (2022010469)

Fundargerð lögð fram.

Fylgigögn:

777. fundur stjórnar SSS

8. Umsögn vegna rekstrarleyfis – Jóhann Halldórsson, South-West Guesthouse, Heiðarvegi 8 (2022020244)

Erindi Sýslumannsins á Suðurnesjum vegna umsóknar um leyfi til sölu gistingar í flokki II. Lagðar fram umsagnir byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar, Brunavarna Suðurnesja og Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja. Bæjarráð samþykkir umsóknina fyrir sitt leyti með vísan til fyrirliggjandi umsagna.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 9:30. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 5. apríl 2022.