1381. fundur

18.08.2022 08:00

1381. fundur bæjarráðs Reykjanesbæjar haldinn í Merkinesi Hljómahöll 18. ágúst 2022 kl. 08:00

Viðstaddir: Friðjón Einarsson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir Margrét A. Sanders og Valgerður Björk Pálsdóttir.

Að auki sátu fundinn Gunnar F. Rúnarsson áheyrnarfulltrúi, Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og Íris Andrea Guðmundsdóttir ritari.

1. Vatnsnesvegur 8a (2020030181)

Steinþór Jónsson hótelstjóri Hótel Keflavíkur og Unnar Steinn Bjarndal bæjarlögmaður mættu á fundinn og kynntu uppbyggingu að Vatnsnesvegi 8a.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að ganga frá samkomulagi við Hótel Keflavík um framtíðaruppbyggingu Vatnsnesvegs 8a, sem lagt verður síðan fyrir bæjarstjórn.

2. Fjárhagsáætlun 2023-2026 - tekjuáætlun (2022080148)

Regína F. Guðmundsdóttir fjármálastjóri og Þorgeir Sæmundsson deildarstjóri reikningshalds mættu á fundinn.

Bæjarráð lagði fram eftirfarandi bókun:

,,Eins og öllum er kunnugt að þá hefur fasteignamat á fasteignum í Reykjanesbæ hækkað verulega á síðustu árum sem hefur haft bein áhrif á fasteignaskatt sveitarfélagsins. Reykjanesbær hefur á undanförnum árum mildað áhrif þessara hækkana verulega og lækkað reiknistuðla um tugi prósenta.
Nú er ljóst að fasteignamat A-stofns íbúðarhúsnæðis í Reykjanesbæ mun hækka um 26,5% og fasteignamat C-stofns atvinnuhúsnæðis 13,4% um næstu áramót. Þessar hækkanir koma til vegna verðhækkana við sölu fasteigna í Reykjanesbæ á síðasta ári og fjölgun eigna.
Bæjarráð leggur því til að áfram verði reiknistuðlar lækkaðir, bæði á fyrirtæki og einstaklinga og áhrif hækkunar fasteignamats milduð. Lagt er til að hækkun fasteignaskatts verði í takt við verðbólguþróun ársins.
Hlutfallið í A stofni fer úr 0,3 í 0,25 og í C stofni úr 1,50 í 1,45. Brúttóálagning á árinu 2023 verða því 2.135 milljónir króna.‘‘

3. Árshlutauppgjör – 6 mánaða uppgjör og mælaborð (2022060110)

Regína F. Guðmundsdóttir og Þorgeir Sæmundsson deildarstjóri reikningshalds mættu á fundinn og kynntu drög að árshlutareikningi Reykjanesbæjar fyrir tímabilið janúar til júní 2022.

4. Máltíðir í grunn- og leikskólum Reykjanesbæjar – útboð á skólamáltíðum (2022070281)

Helgi Arnarson sviðsstjóri fræðslusviðs mætti á fundinn.

Bæjarráð lagði fram eftirfarandi bókun:

,,Reykjanesbær hefur til margra ára verið með eitt lægsta matarverð á landinu til barna á grunnskólaaldri. Lengi vel hefur kostnaðarskiptingin verið 70/30, þ.e. foreldrar hafa greitt 70% af kostnaði við skólamat barna sinna.
Nú er svo komið að verð og laun hafa hækkað og því hefur framleiðslukostnaður aukist verulega frá því sem áður var. Hækkun á skólamat án inngrips væri um 27% eftir útboð.
Bæjarráð Reykjanesbæjar leggur því til að auka kostnaðarhlut bæjaryfirvalda til að verja hag foreldra og barna. Frá og með 1. september verður kostnaðarskiptingin því 61/39 og verð á skólamat því 499 kr. á dag í stað 575 kr. án niðurgreiðslu sveitarfélagsins.
Heildarkostnaður Reykjanesbæjar vegna þessa er áætlaður um 50 milljónir króna á ársgrundvelli.‘‘

5. Samþætting skólastarfs og íþrótta- og tómstundastarfs (2020010077)

Hafþór B. Birgisson íþrótta- og tómstundafulltrúi, Unnar Steinn Bjarndal bæjarlögmaður og Helgi Arnason sviðsstjóri fræðslusviðs mættu á fundinn.

Kostnaður hefur aukist verulega vegna aukinnar aðsóknar í frístundaakstur og ljóst að þörf er á að auka fjárframlagið svo hægt sé að halda úti áætluðum frístundaakstri. Bæjarráð samþykkir því að auka fjárframlag til akstursins um samtals 13.607.200 kr. og um leið felur bæjarstjóra að bjóða út frístundarakstur til framtíðar sem hefjist formlega 1. janúar nk.

6. Erindi til sveitarstjórnar vegna stefnumótunar í þremur málaflokkum (2022060506)

Lagt fram.

7. Jarðhræringar og eldgos á Reykjanesi (2022080008)

Lagt fram.

8. Fundargerð Almannavarna Suðurnesja utan Grindavíkur 5. ágúst 2022 (2022020425)

Fundargerð lögð fram.

Fylgigögn:

Fundargerð Almannavarna Suðurnesja utan Grindavíkur 5. ágúst 2022

9. Fagriblakur frá Keflavík ehf. – umsókn um tímabundið áfengisleyfi (2022080203)

Erindi Sýslumannsins á Suðurnesjum vegna umsóknar um tækifærisleyfi. Bæjarráð samþykkir erindið fyrir sitt leyti.

10. Ráðning bæjarstjóra (2022060066)

Kjartan Már Kjartansson víkur af fundi undir þessum dagskrárlið.

Margrét A. Sanders lagði fram eftirfarandi bókun:

,,21. júní 2018 var samþykkt að laun bæjarstjóra yrðu kr. 1.850.000,- . Þá var einnig samþykkt að laun tækju breytingum skv. meðalhækkun opinberra starfsmanna. Auk þessa launaliðar fékk bæjarstjóri greitt fyrir akstur, laun í stjórnum sem hann situr og greiddan síma, tölvu og tölvutengingu heima.
Nú er verið að leggja til endurnýjun á samningi bæjarstjóra og lagt til að launin verði 2.330.000.- og að ofangreindir liðir haldi sér ásamt því að greiddar verði slysa- og líftryggingar sem ekki var getið í samningi síðast en skv. upplýsingum hafa verið greiddar síðasta kjörtímabil. Laun þau sem lagt er til núna þýðir 26% hækkun launa frá júní 2018.
Laun bæjarstjóra núna eru 2.431.546.- og hafa laun hans því hækkað um 31% á síðasta kjörtímabili.
Í síðustu kjarasamningum var ákveðið að lægstu laun skuli hækka meira en þeirra sem hærri hafa laun. Samkvæmt kjarasamningum á almennum markaði hafa laun almennt hækkað um 10%. Í svari við fyrirspurn Sjálfstæðisflokksins um hækkun launa almennra starfsmanna Reykjanesbæjar sem fá greitt skv. STFS (Starfsmannafélagi Suðurnesja) frá 21. júní 2018 eru hækkanir eftirfarandi:

Í janúar 2020 kr. 17.000
Í apríl 2020 kr. 24.000
Í janúar 2021 kr. 24.000
Í janúar 2022 kr. 25.000

Á þessum tíma hafa laun bæjarstjóra hækkað um 581.546 kr. á mánuði á meðan laun starfsmanna í Starfsmannafélagi Suðurnesja hafa hækkað um 90 þúsund. Þetta samræmist ekki markmiði kjarasamninga um að hækkun launa eigi að vera mest á lægstu laun.
Í máli meirihlutans í Reykjanesbæ (Framsóknar, Samfylkingar og Beinnar leiðar) benda þeir á að launavísitala hafi hækkað um 31% og það sé sama hækkun og bæjarstjóri hafi fengið ásamt sviðsstjórum bæjarins. Augljóslega hefur launavísitala hækkað meira en almenn laun þar sem prósentuhækkun á lægstu laun er ansi há.
Samkvæmt ársreikningum Reykjanesbæjar fyrir árið 2018 og 2021 hafa laun og launatengd gjöld hjá Reykjanesbæ hækkað um 51,6% á þessu tímabili. Hluti þessarar hækkunar er vegna fjölgunar starfsmanna og hluti vegna þeirra óhóflegra hækkana launa sem er í engu samræmi við almennar launahækkanir.
Vegna þessa teljum við bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokkins við ekki geta annað en setið hjá við afgreiðslu samnings við bæjarstjóra og teljum mikilvægt í aðdraganda kjarasamninga að gæta hófs í samningum við æðstu stjórnendur.
Sjálfstæðisflokkurinn leggur til að laun bæjarstjóra hækki um 10% frá upphafi kjörtímabils 2018 og að hann haldi að öðru leyti sömu hlunnindum og áður. Hækkanir verði síðan samhliða því sem almennt gerist í kjarasamningum. Sjálfstæðisflokkurinn leggst alfarið á móti hækkun bæjarstjórans taki hækkunum samkvæmt launavísitölu enda hefur þá hækkun lægstu launa mikil áhrif á laun bæjarstjóra til hækkunar.‘‘

Margrét Sanders (D), Guðbergur Reynisson (D) og Helga Jóhanna Oddsdóttir (D).

Meirihluti bæjarráðs lagði fram eftirfarandi bókun:

,,Meirihluti bæjaraðs Reykjanesbæjar harmar málflutning oddvita Sjálfstæðisflokksins sem einkennist af rangfærslum og tilhæfulausum staðhæfingum. Laun bæjarstjóra verða að vera raunhæf og í samræmi við laun bæjarstjóra í öðrum sveitarfélögum. Laun bæjarstjóra lækka um 5% frá því sem áður var en auk þess er fallið fra biðlaunum bæjarstjóra ef viðkomandi tekur við nýju starfi. Launahækkanir bæjarstjóra eru í samræmi við kjarasamninga sem taka mið af hækkunum vísitölu sem er sambærilegt og hjá bæjarfulltrúum, sviðsstjórum og öðrum stjórnendum í sveitarfélaginu.‘‘

Friðjón Einarsson (S), Guðný Birna Guðmundsdóttir (S), Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir (B) og Valgerður B. Pálsdóttir (Y).

Samningur samþykktur með 4 greiddum atkvæðum. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins sat hjá.

11. Stjórnarfundur Tjarnargötu 12 ehf. (2022010328)

Erindi frestað.

12. Myllubakkaskóli – skoðunarferð (2021050174)

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:40. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 23. ágúst 2022.