1383. fundur

01.09.2022 08:00

1383. fundur bæjarráðs Reykjanesbæjar, haldinn í Merkinesi, Hljómahöll 1. september 2022

Viðstaddir: Friðjón Einarsson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Margrét A. Sanders og Valgerður Björk Pálsdóttir.

Að auki sátu fundinn Margrét Þórarinsdóttir áheyrnarfulltrúi, Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og Hrefna Gunnarsdóttir ritari.

1. Stjórnarfundur Tjarnargötu 12 ehf. (2022010328)

Jón S. Einarsson arkitekt, Halldóra G. Jónsdóttir aðstoðarmaður bæjarstjóra, Unnar Steinn Bjarndal bæjarlögmaður, Guðlaugur H. Sigurjónsson sviðsstjóri umhverfissviðs og Regína F. Guðmundsdóttir fjármálastjóri mættu á fundinn. Kynntar voru tillögur að endurbótum á húsnæði ráðhúss Reykjanesbæjar, Tjarnargötu 12.

Stjórn Tjarnargötu 12 ehf. felur Kjartani Má Kjartanssyni framkvæmdastjóra Tjarnargötu 12 ehf. að vinna áfram í málinu og leggja fram uppfærðar teikningar, kostnaðaráætlun og tímaplan vegna fyrirhugaðra framkvæmda við Tjarnargötu 12. Auk þess er óskað eftir tillögu frá Regínu F. Guðmundsdóttur fjármálastjóra um fjármögnun verkefnisins. Að auki er óskað eftir tilhögun hönnunar og framkvæmd verkefnisins.

2. Fjárhagsáætlun 2023-2026 (2022080148)

Regína F. Guðmundsdóttir fjármálastjóri mætti á fundinn og lagði fram minnisblað með tillögu að ramma fjárheimilda 2023.

Bæjarráð samþykkir framlagða fjárhagsramma árið 2023 samhljóða, Margrét A. Sanders Sjálfstæðisflokki setur fyrirvara um forsendur.

3. Húsnæði Myllubakkaskóla (2021050174)

Skipaðir í byggingarnefnd tveir fulltrúar meirihlutans, einn frá minnihluta auk Kjartans Már Kjartanssonar bæjarstjóra og Gissurar Hans Þórðarsonar verkefnastjóra.

1. Bæjarráð skipar í byggingarnefnd Myllubakkaskóla Friðjón Einarsson, Guðmund Björnsson og Grétar I. Guðlaugsson. Auk þeirra er Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri skipaður í byggingarnefnd. Gissur Hans Þórðarson verkefnastjóri verður tengiliður við byggingarnefnd.

2. Byggingarnefnd skal reglulega leggja fram stöðuskýrslu um framgang verkefnisins mánaðarlega í samvinnu við bæjarstjóra.

3. Bæjarráð samþykkir einnig skipun stýrihóps verkefnisins, Gissur Hans Þórðarson verkefnastjóri, Hlynur Jónsson skólastjóri og Guðlaugur Sigurjónsson sviðsstjóri umhverfissviðs. Stýrihópur er framkvæmdaaðili verkefnisins í samráði við byggingarnefnd.

4. Bæjarráð samþykkir enn fremur framlagt frumkostnaðarmat, sem unnið var af OMR og ARKÍS vegna endur- og nýbyggingar Myllubakkaskóla (bæjarráð 4. ágúst 2022). Bæjarráð gerir einnig kröfu um 15% hagræðingu á frumkostnaðarmati verkefnisins og felur Regínu F. Guðmundsdóttur fjármálastjóra að vera eftirlitsaðili með fjárhagslegri framvindu verkefnisins.

5. Bæjarráð samþykkir einnig framlögð frumdrög að teikningum skólans (bæjarráð 4. ágúst 2022).

6. Bæjarráð óskar eftir tillögum að fjármögnun verkefnisins sem og áætluðu tímaplani frá bæjarstjóra og vísar til fjárhagsáætlunargerðar 2023-2026.

Bæjarráð samþykkir ofangreint, Margrét A. Sanders Sjálfstæðisflokki situr hjá við lið 4 og 5.

4. Sérstakur húsnæðisstuðningur (2022080318)

Í reglum Reykjanesbæjar um sérstakan húsnæðisstuðning skal endurskoða fjárhæðir sérstaks húsnæðisstuðnings þegar breyting er gerð á grunnfjárhæðum húsnæðisbóta skv. lögum nr. 75/2016 um húsnæðisbætur. Þann 1. júní síðastliðinn hækkuðu almennar húsnæðisbætur um 10% og í ljósi þess þarf að endurskoða fjárhæðir sérstaks húsnæðisstuðnings hjá sveitarfélaginu.

Lagt fram minnisblað þar sem fram kemur tillaga um hækkun sérstaks húsnæðisstuðnings sveitarfélagsins vegna mótvægisaðgerða ríkisstjórnarinnar.

Til að mótvægisaðgerðir stjórnvalda skili sér til tekjulægsta hóps leigjanda er lagt til að hækka hlutfall af húsnæðisbótum og samanlagt hámark um 10% í samræmi við hækkun stjórnvalda. Það þýðir að fyrir hverjar 1000 kr. sem leigjandi fær í almennar húsnæðisbætur fær leigjandi greiddar 660 kr. í sérstakan húsnæðisstuðning og að samanlagt hámark verði hækkað í 66.000 kr. og að breytingin gildi sama tímabil og breyting stjórnvalda, þ.e. frá 1. júní – 31. desember 2022.

Bæjarráð samþykkir ofangreinda tillögu.

5. Félagslegt húsnæði (2022080308)

Lagt fram minnisblað um tillögu að breytingu og innlausn á búseturétti/hlutdeildaríbúðum í félagslegu leiguhúsnæði aldraðra.

Bæjarráð samþykkir framlagt minnisblað og leggur auk þess til að framkvæmdin verði á þann veg að íbúðir verði keyptar um leið og þær losna.

6. Jafnréttismál (2022080621)

Lagt fram minnisblað um úttekt á skipan í nefndir, ráð og stjórnir.

Bæjarráð mun á næstu vikum endurskoða skipan í nefndir, ráð og stjórnir.
Bæjarráð felur Kristni Óskarssyni mannauðsstjóra að leggja fram tillögu að verklagi um hvernig haga skuli gerð nýrrar jafnréttisáætlunar 2023-2027.

7. Jarðhræringar og eldgos á Reykjanesi (2022080008)

Lögð fram stöðuskýrsla Samhæfingarstöðvar Almannavarna (SST).

Fylgigögn:

Stöðuskýrsla Samhæfingarstöðin 25.8.2022

8. Umsögn vegna starfsleyfis ökutækjaleigu – N66 ehf. Grænásbraut 1217 (2022080426)

Erindi Samgöngustofu vegna umsóknar um leyfi til að reka ökutækjaleigu. Lögð fram umsögn byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar.
Bæjarráð hafnar umsókninni með vísan til fyrirliggjandi umsagnar.

9. Umsögn um tækifærisleyfi – Nemendafélag Fjölbrautaskóla Suðurnesja (2022080620)

Erindi Sýslumannsins á Suðurnesjum vegna umsóknar um tækifærisleyfi. Bæjarráð samþykkir erindið fyrir sitt leyti.

10. Ljósanótt 2022 (2022030346)

Umræða um Ljósanótt.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:15. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 6. september 2022.