1522. fundur

03.07.2025 08:15

1522. fundur bæjarráðs Reykjanesbæjar, haldinn á Grænásbraut 910, 3. júlí 2025, kl. 08:15

Viðstaddir: Bjarni Páll Tryggvason, Díana Hilmarsdóttir, Guðný Birna Guðmundsdóttir formaður, Margrét A. Sanders og Margrét Þórarinsdóttir.

Að auki sátu fundinn Valgerður Björk Pálsdóttir áheyrnarfulltrúi og Hrefna Gunnarsdóttir ritari.

Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir boðaði forföll, Díana Hilmarsdóttir sat fyrir hana.

1. Skjólið - húsnæðismál (2025010187)

Guðlaugur H. Sigurjónsson sviðsstjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs mætti á fundinn.

Lagt fram erindi þar sem farið var yfir nauðsynlegar endurbætur vegna tímabundins flutnings Skjólsins frá 88 húsinu yfir í húsnæði sem leikskólinn Drekadalur nýtti á Grænásbraut 910.
Bæjarráð heimilar endurbæturnar en áætlaður kostnaður við þær eru á bilinu 700 þúsund til ein milljón króna, tekið af bókhaldslykli 31-4620 viðhald.

Samþykkt 4-0, Guðný Birna Guðmundsdóttir (S), Bjarni Páll Tryggvason (B), Díana Hilmarsdóttir (B) og Margrét Þórarinsdóttir (U). Margrét A. Sanders (D) situr hjá.

Fylgigögn:

Erindi til bæjarráðs Reykjanesbæjar - Skjólið

2. Ósk um afslátt af gatnagerðargjöldum (2025070005)

Guðlaugur H. Sigurjónsson sviðsstjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs mætti á fundinn.

Lagt fram erindi þar sem óskað er eftir veitingu afsláttar á gatnagerðagjaldi.

Bæjarráð hafnar umsókninni og felur starfandi bæjarstjóra Halldóru Fríðu Þorvaldsdóttur að svara erindinu nánar.

3. Öryggismyndavélar í miðbæ Reykjanesbæjar (2025060102)

Lagt fram erindi vegna uppsetningar á öryggismyndavélum í miðbæ Reykjanesbæjar. Kaupin á búnaði yrðu fjármögnuð af embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum en uppsetning, viðhald og þrif fjármagnað af Reykjanesbæ. Heildarkostnaður sveitarfélagsins er áætlaður kr. 2.500.000.

Bæjarráð samþykkir öryggismyndavélar í miðbæ Reykjanesbæjar og fagnar erindinu sem mun auka öryggi íbúa og gesta. Lagt er til að upplýsingatæknideild Reykjanesbæjar fái verkefnið til sín sem snýr að uppsetningu, viðhaldi og þrifum vélanna. Samþykkt 5-0.

Bæjarráð samþykkir 5-0 að vísa erindinu til viðauka í fjárhagsáætlun 2025.

4. Samband íslenskra sveitarfélaga - boð á vinnustofu (2025070019)

Lagt fram boð um þátttöku í vinnustofu um skráningu lögheimilis í frístundabyggð.

Bæjarráð hvetur áhugasama bæjarfulltrúa til að mæta á vinnustofuna.

5. Í holtinu heima - umsókn um tækifærisleyfi (2025070004)

Erindi Sýslumannsins á Suðurnesjum vegna umsóknar um tækifærisleyfi. Bæjarráð samþykkir erindið fyrir sitt leyti.

6. Fundargerð sjálfbærniráðs 25. júní 2025 (2025010009)

Lögð fram til samþykktar fundargerð sjálfbærniráðs.

Fundargerðin samþykkt 5-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 62. fundar sjálfbærniráðs 25. júní 2025

7. Fundargerð menningar- og þjónusturáðs 27. júní 2025 (2025010007)

Lögð fram til samþykktar fundargerð menningar- og þjónusturáðs.

Fundargerðin samþykkt 5-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 66. fundar menningar- og þjónusturáðs 27. júní 2025

8. Breytingar til hagræðingar innan stjórnsýslu Reykjanesbæjar (2025060342)

Margrét A. Sanders (D) lagði fram eftirfarandi bókun:

Fjárreiður Reykjanesbæjar (2025040024)

„Á síðasta bæjarráðsfundi fór meirihluti Samfylkingar, Framsóknar og Beinnar leiðar mikinn í bókun sinni. Þar kenndi meirihlutinn öllum öðrum um hvað miður hefur farið undanfarin misseri, en neitar að horfast í augu við áhrif þeirra eigin stjórnunar og forgangsröðunar síðustu ellefu ár. Eins er látið að því liggja í bókuninni að ekkert hafi verið athugavert við fjármálastjórnun meirihlutans. Þessum atriðum skal svarað hér.

1. Á ellefu ára valdatíð meirihlutans hafa tekjur sveitarfélagsins hækkað um 18 milljarða, úr 9,7 milljörðum árið 2014 í 27,8 milljarða árið 2024. Hafa tekjur hækkað um 4 milljarða umfram neysluvísitölu. Auk þess þurfti engar fjárfestingar í upphafi þar sem innviðir voru til staðar.

Meirihlutinn segir í bókun sinni að sveitarfélagið hafi verið nær gjaldþrota árið 2014. Í ársreikningi 2014 voru þó innistæður í banka hlutfallslega mun hærri en í dag miðað við rekstrargjöld. Í dag eru mánaðarleg rekstrargjöld Reykjanesbæjar að meðatali um 2,1 milljarður, en um áramót voru bankainnistæður, samkvæmt ársreikningi, 113 milljónir. Augljóst er að ómögulegt er að standa við skuldbindingar sveitarfélagsins, með svo lágar bankainnistæður og alvarlegt að ekki hafi verið brugðist við fyrr en raun bar vitni.

Síðan segir í bókuninni „við höfum náð að safna í sjóði og lifað á eigin fé í allnokkur ár“. Það er væntanlega í fyrsta skipti í sögunni sem nærri gjaldþrota sveitarfélag getur lifað af eigin fé í allnokkurn tíma, enda felst gjaldþrot í því að eigið fé er uppurið. Sá sjóður sem meirihlutinn bendir á að safnað hafi verið í, felst í greiðslu upp á um 5 milljarða króna, sem sveitarfélagið fékk fyrir svokölluð Magmabréf, og kom það sér vissulega vel þegar byggja þurfti nýjan skóla í Innri Njarðvík. Eins var verulega dregið úr viðhaldi bygginga bæjarins, sem hefur svo heldur betur komið í bakið á okkur.

Gagnrýni á framferði meirihlutans gagnvart fyrirtækjum í einkarekstri í sveitarfélaginu og víðar, sem ekki hafa fengið greitt á réttum tíma, og þar af leiðandi ekki getað staðið við skuldbindingar sínar er einnig svarað í bókun meirihlutans. Þar segir: „Reykjanesbær sem sveitarfélag sem gætir að fjármunum skattgreiðenda sinna greiðir ekki dráttarvexti“. Það er óneitanlega sérstakt að tilkynna lögbrot með slíku stolti í formlegri bókun. Það á auðvitað að vera stefna sveitarfélagsins að greiða ekki dráttarvexti, en til að svo geti verið eru tvær leiðir færar; að greiða á réttum tíma eða semja við kröfuhafa. Að taka svona einhliða ákvörðun er óboðlegt og ólöglegt.

2. Í bókun meirihlutans segir „..Við erum að sækja um 2,5 milljarða….“. Það eykur ekki traust okkar á fjármálaskilningi meirihlutans, að hann nefni aðeins 2,5 milljarða í bókuninni. Samtals hefur bæjarstjórn samþykkt lántöku sem nemur 5 milljörðum. Þann 18. nóvember 2024 var óskað eftir 2,5 milljörðum og þeir greiddir út þann 15. janúar 2025. Þann 3. apríl 2025 var óskað eftir heilmild til lántöku að upphæð 2,5 milljarðar sem staðfest var í bæjarstjórn þann 15. apríl 2025. Var asinn þvílíkur að boða þurfti til aukafundar í bæjarstjórn að morgni 4. apríl, degi eftir að óskin um langtímalántöku var samþykkt í bæjarráði. Á þeim fundi kom fram ósk um samþykki fyrir skammtímafjármögnun að upphæð 1 milljarður sem átti að brúa bilið þar til langtímafjármögnunin yrði greidd út. Á þessum tíma hafði bæjarstjórn ekki staðfest heimild til langtímalántöku upp á 2,5 milljarða til viðbótar. Samtals er langtímalántakan því komin í 5 milljarða. Þetta er ekki góð fjármálastjórnun og ljóst að mikill skortur er á yfirsýn meirihlutans.

Sjálfstæðisflokkurinn gerir ekki athugasemdir við þessar langtímalántökur, en þær þurfa að vera skipulagðar mun betur, tímanlegar og í samræmi við fyrirséð fjárútlát sveitarfélagsins.

3. Í fjárfestingaáætlun Reykjanesbæjar voru samþykktar 1.750 milljónir í fjárfestingar í hin ýmsu verkefni. Þar sem verkefnin við Holtaskóla, Myllubakkaskóla og leikskólann Drekadal hafa farið töluvert yfir áætlun, þá hefur þurft að skera niður öll önnur verkefni sem framundan voru. Samþykkt hefur verið að einblína á að ljúka við þau þrjú sem talin eru hér að framan. Í ljósi framúrkeyrslu fjárfestingaverkefna og lausafjársvanda sveitarfélagsins er það skynsamlegt.

4. Í bókun meirihlutans segir: „… höfum við verið að yfirfara laun sveitarfélagsins. Við höfum tekið þá ákvörðun, til hagræðingar, að lækka laun sviðsstjóra og bæjarstjóra um 10%. Í framhaldi af því verður framtíðarfyrirkomulagi þeirra launa breytt sem tengist þá við hækkun kjarasamninga þeirra fagstétta í stað þess að vera vísitölutengd.“ Sjálfstæðisflokkur fagnar þessari ákvörðun sem er löngu tímabær og í samræmi við tillögur okkar í upphafi kjörtímabils, þar sem við bentum á að það væri í hæsta máta óeðlilegt að vísitölutengja laun stjórnenda Reykjanesbæjar þegar hinn almenni launþegi fær krónutöluhækkanir á sín laun. Við vísum til bókana okkar í bæjarstjórn í júní 2022.

Það eru ýmsar áskoranir í rekstri sveitarfélaga og á þessu kjörtímabili samþykktum við svokallað innviðagjald sem átti að standa undir innviðauppbyggingu og er þegar farið að skila sér í töluverðum tekjum til Reykjanesbæjar.

Undanfarin ár hafa tekjur Reykjanesbæjar hækkað mikið og íbúum fjölgað. Mikil tækifæri eru til staðar, enda býr Reykjanesbær einstaklega vel að umgjörð varðandi atvinnuuppbyggingu, með frábærar hafnir, alþjóðaflugvöll, nægt landsvæði og vinnuafl. Þessi tækifæri þarf að nýta. Skýr framtíðarsýn og góð stýring á sveitarfélaginu gerir okkur kleift að verða öflugasta sveitarfélag landsins. Það þarf að takast á við tímabundinn lausafjárvanda og efla stjórnun. Það er ekki vænlegt til árangurs að kenna þeim um vandann, sem benda á það sem betur má fara, heldur ganga í málin og stýra skútunni í rétta átt með faglegum hætti. Þannig sköpum við Reykjanesbæ bjarta framtíð.“

Margrét Sanders, Sjálfstæðisflokki.

Margrét Þórarinsdóttir (U) lagði fram eftirfarandi bókanir:

Breytingar til hagræðingar innan stjórnsýslu Reykjanesbæjar (2025060342)

„Umbót leggur til að laun bæjarstjóra og sviðsstjóra í Reykjanesbæ verði lækkuð um samtals 15–20%, í stað þeirrar 10% lækkunar sem þegar hefur verið samþykkt. Slík lækkun myndi endurspegla raunverulegan vilja til sparnaðar og ábyrgðar í ljósi erfiðrar fjárhagsstöðu sveitarfélagsins.

Laun bæjarstjóra Reykjanesbæjar eru meðal hæstu bæjarstjóra á landinu en bæjarstjóri Reykjanesbæjar er með þriðju hæstu launin þrátt fyrir að bæjarfélagið sé láglaunasvæði með fjárhagslega erfiða stöðu. Sviðsstjórar skulu bera sama hlutfallslega lækkun. Kjörnir fulltrúar hafa ekki hækkað laun sín frá 2023 og hafa ekki fengið lögbundna hækkun þingfararkaups fyrir 2024 og 2025, en hafa þannig lagt sitt af mörkum til að bæta reksturinn.

Nýlegar bókanir og fjármálagögn sýna að Reykjanesbær stendur frammi fyrir verulegum rekstraráskorunum og hefur þurft að auka lántöku, auk þess sem rekstrarfé er takmarkað. Því er nauðsynlegt að stjórna fjármunum með varfærni og sýna það með raunverulegum aðgerðum á launakostnaði.“

Fjárreiður Reykjanesbæjar (2025040024):

„Umbót telur bókun meirihlutans, Samfylkingarinnar, Framsóknar og Beinnar leiðar um fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar bæði villandi og fegrandi, þar sem hún gefur rangar forsendur um raunverulega stöðu bæjarins. Þó að fjárhagsstaðan virðist við fyrstu sýn stöðug, sýna nýjustu gögn að sveitarfélagið glímir við verulegan lausafjárskort, óljósar rekstrarforsendur og vaxandi skuldabyrði. Meirihlutinn hefur síðustu misseri ítrekað kynnt langtímalán upp á allt að 5 milljarða króna.

Í bókun sinni vísar meirihlutinn til heimildar bæjarstjórnar frá 15. apríl 2025 (fundargerð nr. 696) um langtímalán upp á 2,5 milljarða króna. Það sem ekki kemur fram er að þann 26. júní 2025 þurfti fjármálastjóri að óska eftir sérstakri heimild bæjarráðs til að nýta ónotaðan hluta lánalínunnar sem skammtímalán.

Þetta staðfestir að sveitarfélagið hafði ekki nægt rekstrarfé og var neyðst til að ganga á lánalínu til að halda daglegum rekstri gangandi. Að láta þetta ósagt í bókun meirihlutans er viljandi þöggun staðreynda.

Umbót hefur ítrekað varað við þessari þróun og mótmælt lántökunni harðlega í bókun frá 15. apríl 2025:
„Umbót getur ekki samþykkt að auka lánabyrði bæjarfélagsins með lántöku að upphæð 2,5 milljarðar króna án þess að liggi fyrir skýr fjárhagsleg framtíðarsýn, niðurstöður greininga og úttekt á rekstri sviða bæjarins.“

Í bókun Umbótar þann 30. apríl 2025 var jafnframt ítrekað nauðsynlegt að gera endurskoðun á fjármálastjórn sveitarfélagsins og varað við lausafjárvanda, en um áramót var handbært fé einungis 133 milljónir króna.

Það er alvarlegt að rekstur sveitarfélagsins sé háður lánsfjármögnun og að enn vanti raunhæfa aðgerðaáætlun til að tryggja stöðugleika.

Það er fráleitt þegar meirihlutinn talar um sjálfbærni í rekstri, en sveitarfélagið getur ekki staðið undir eigin rekstri án ítrekaðra lána og formlegra samþykkta til að nýta lánalínur.

Umbót hefur jafnframt gagnrýnt há laun stjórnenda sveitarfélagsins. Þrátt fyrir ítrekaða gagnrýni voru laun sviðsstjóra hækkuð og bæjarstjóri hefur verið með þriðju hæstu bæjarstjóralaun landsins. Umbót hafnaði þessum breytingum og bókanir þess efnis má finna í fundargerðum bæjarstjórnar.

Við fögnum því þó að meirihlutinn hafi nú loks ákveðið að lækka laun æðstu stjórnenda, enda löngu tímabær ákvörðun í samræmi við tillögur Umbótar allt frá upphafi kjörtímabilsins.

Það stenst ekki að kenna öðrum um þegar rekstrarvandi hefur verið fyrirsjáanlegur og bent var á hann ítrekað. Meirihlutinn kýs að horfa fram hjá eigin ábyrgð og notar bókanir til að fegra fjármál sveitarfélagsins þrátt fyrir að staðreyndir liggi fyrir í eigin fundargerðum.

Umbót hafnar slíkum málflutningi og ítrekar mikilvægi ábyrgðar, gagnsæis og heiðarleika í stjórn sveitarfélagsins. Ábyrg fjármálastjórn snýst ekki um að slá ryki í augu almennings heldur að bregðast við vandanum áður en hann verður að kreppu.

Við í Umbót krefjumst skýrra greininga og aðgerðaáætlana sem tryggja fjárhagslegan stöðugleika og rekstraröryggi í Reykjanesbæ.“

Margrét Þórarinsdóttir, Umbót.

Formaður bæjarráðs gerði fundarhlé kl. 9:16.
Fundur aftur settur kl. 9:48.

Tekin fyrir tillaga Umbótar varðandi lækkun launa bæjarstjóra og sviðsstjóra.

Meirihluti bæjarráðs hafnar tillögu Umbótar um 15-20% launalækkun bæjarstjóra og sviðsstjóra. Viðkomandi hafa nú þegar samþykkt 10% launalækkun auk aftengingar á fyrirkomulagi launahækkana. Hafa þarf í huga samningsbundna launaþróun undirmanna þeirra. Valgerður Björk Pálsdóttir áheyrnarfulltrúi tekur undir ákvörðun meirihluta bæjarráðs.

Meirihluti bæjarráðs lagði fram eftirfarandi bókun Samfylkingar og Framsóknar:

„Varðandi bókanir minnihlutans, Sjálfstæðisflokks og Umbótar, vill meirihluti bæjarráðs árétta fyrri bókun sína varðandi hagræðingartillögu Reykjanesbæjar frá fyrri fundi bæjarráðs nr. 1521 frá 26. júní 2025.

Auk þess er gott að nefna það aftur að meirihlutinn setti fram tillögu um fjárreiðunefnd Reykjanesbæjar sem minnihlutinn mótmælti harðlega. Tilgangur þeirrar nefndar var einmitt að rýna reksturinn nánar fyrir kjörna fulltrúa.

Það verður að teljast athyglisvert að Umbót véfengir réttmæti lántöku til framkvæmda og gerir það tortryggilegt. Það er eðlilegt að sveitarfélög fjármagni uppbyggingu með lántöku. Einnig þykir okkur umhugsunarvert að Sjálfstæðisflokkurinn sakar meirihlutann um að kenna öðrum um á sama tíma og þessi flokkur upphefur sín fyrri störf í sveitarfélaginu þegar rekstur sveitarfélagsins var í járnum svo árum skiptir.“

Guðný Birna Guðmundsdóttir (S), Bjarni Páll Tryggvason (B) og Díana Hilmarsdóttir (B). Valgerður Björk Pálsdóttir (Y) áheyrnarfulltrúi tekur undir bókun meirihlutans.

Formaður bæjarráðs gerði fundarhlé kl. 9.57.
Fundur aftur settur kl. 10:05.

Margrét Þórarinsdóttir (U) lagði fram eftirfarandi bókun:

„Umbót hefur aldrei gert athugasemdir við að sveitarfélög fjármagni framkvæmdir með langtímaláni slíkt er bæði algengt og nauðsynlegt í mörgum tilvikum. Það sem við höfum hins vegar bent á, og höldum áfram að gagnrýna, er að lánalínur hafi ítrekað verið nýttar sem skammtímalán til að mæta lausafjárskorti í daglegum rekstri sveitarfélagsins.

Það er eðlilegt að beina athygli að þeirri staðreynd þegar sveitarfélag þarf sérstakt samþykki til að nýta lán í rekstur það er ekki tortryggni heldur ábyrg fjármálavarsla og gagnsæi sem íbúar eiga rétt á.“

Margrét Þórarinsdóttir, Umbót.

Margrét A. Sanders (D) lagði fram eftirfarandi bókun Sjálfstæðisflokks og Umbótar:

„Sjálfstæðisflokkur og Umbót höfnuðu að sett yrði á stofn fjárreiðunefnd þar sem sömu aðilar og eru í bæjarráði áttu að vera í fjárreiðunefnd. Auk þess átti hlutverk nefndarinnar að vera hið sama og er meginhlutverk bæjarráðs. Í erindisbréfi bæjarráðs sem samþykkt var 23. júní 2023 segir í 4. gr. „Meginverkefni bæjarráðs er fjármálastjórn Reykjanesbæjar“. Einnig stendur í sömu grein „Þá skal bæjarráð hafa eftirlit með stjórnsýslu sveitarfélagsins“.

Eins og sjá má á framangreindu vildi meirihlutinn setja á stofn sérstaka fjárreiðunefnd sem átti að gegna sama hlutverki og bæjarráð ber samkvæmt erindisbréfi og því hafnaði minnihlutinn stofnun fjárreiðunefndar.“

Margrét A. Sanders Sjálfstæðisflokki og Margrét Þórarinsdóttir Umbót.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:15.