1546. fundur

08.01.2026 08:15

1546. fundur bæjarráðs Reykjanesbæjar, haldinn að Grænásbraut 910 - Seltjörn, 8. janúar 2026, kl. 08:15

Viðstaddir: Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir formaður, Bjarni Páll Tryggvason, Margrét A. Sanders og Margrét Þórarinsdóttir og Sverrir Bergmann Magnússon.

Að auki sátu fundinn Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri, Helga María Finnbjörnsdóttir áheyrnarfulltrúi og Hrefna Gunnarsdóttir ritari.

Guðný Birna Guðmundsdóttir boðaði forföll, Sverrir Bergmann Magnússon sat fyrir hana.

1. Njarðvík I – landskipti (2026010075)

Unnar Steinn Bjarndal bæjarlögmaður og Erla Bjarný Gunnarsdóttir lögfræðingur umhverfis- og framkvæmdasviðs mættu á fundinn.

Lagt fram erindi frá Lausnir lögmannsstofa.

Erindinu hafnað.

2. Samstarf um hringrásariðngarð - erindisbréf (2023100396)

Lögð fram drög að erindisbréfi faghóps sem hefði það hlutverk að vera ráðgefandi um lóðaúthlutanir í takt við markmið hringrásariðngarðs.

Bæjarráð samþykkir erindisbréfið og felur Kjartani Má Kjartanssyni bæjarstjóra að undirrita samstarfssamning þar að lútandi.

3. Rökstuðningur vegna ráðningar sviðsstjóra menningar- og þjónustusviðs (2025120383)

Lagður fram rökstuðningur vegna ráðningar sviðsstjóra menningar- og þjónustusviðs.

Margrét Þórarinsdóttir lagði fram eftirfarandi bókun:

„Undirrituð telja að rökstuðningur sem var lagður fram vegna ráðningar sviðsstjóra menningar- og þjónustusviðs svari ekki með fullnægjandi hætti þeim efnisatriðum sem óskað var skýringa á samkvæmt 21. gr. stjórnsýslulaga.

Í rökstuðningnum er að mestu gerð grein fyrir hæfni þess umsækjanda sem ráðinn var, án þess að skýrt sé hvernig mat á öðrum umsækjendum fór fram eða á hvaða forsendum umsóknir þeirra voru metnar lakari. Slíkur rökstuðningur varpar ekki ljósi á samanburð umsækjenda sem er grundvallaratriði við mat á jafnræði í ráðningarferlum.

Þá er ekki tekin afstaða til álitamála sem lúta að setningu í starf, þar á meðal hvort og hvar formleg ákvörðun um setningu í starf hafi verið tekin, né er fjallað um þau sjónarmið sem lúta að jafnræði og samræmi í viðtals- og matsferli.

Jafnframt er í rökstuðningnum ekki vikið að þeim ábendingum sem lúta að mögulegu vanhæfi eða þörf á sérstakri varúð við málsmeðferð, þrátt fyrir að slík sjónarmið séu grundvallarþættir í vandaðri stjórnsýslu .Undirrituð telja að þessi atriði hefðu þurft að vera tekin til efnislegrar og skýrrar afstöðu til að tryggja traust, gagnsæi og jafnræði í ráðningarferlinu. Mikilvægt er að gera nýtt svarbréf vegna hæfis og koma með rökstuðning og svar við þeim spurningum sem lagðar voru fram.

Undirrituð leggja áherslu á mikilvægi þess að við ráðningar í lykilstöður sé ávallt gætt fyllsta gagnsæis, jafnræðis og vandaðrar málsmeðferðar, enda er slíkt grundvallaratriði fyrir traust á stjórnsýslu sveitarfélagsins.“

Margrét Þórarinsdóttir, Umbót og fyrir hönd Alexanders Ragnarssonar, Sjálfstæðisflokki.

Kjartani Má Kjartanssyni bæjarstjóra falið að senda rökstuðninginn til viðkomandi aðila.

4. Þórustígur 3 – framlenging á afnotasamningi (2025100409)

Lagt fram erindi frá Ungmennafélaginu Njarðvík þar sem óskað er eftir framlenging á afnotasamning Þórustígs 3.

Bæjarráð getur ekki orðið við beiðninni um að framlengja afnotasamninginn til ársins 2030. Bæjarráð samþykkir að Ungmennafélagið fái framlengingu út maí 2027. Jafnframt er stjórn Eignasjóðs falið að móta framtíðarsýn fyrir húsið .

5. Purple Fire ehf. - ökutækjaleiga/geymslustaður ökutækja Klettatröð 11A - beiðni um umsögn (2025120284)

Erindi Samgöngustofu vegna umsóknar um leyfi fyrir geymslustað ökutækja vegna ökutækjaleigu. Lögð fram umsögn byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar. Bæjarráð samþykkir umsóknina fyrir sitt leyti með vísan til fyrirliggjandi umsagnar.

6. Fundargerð stjórnar Brunavarna Suðurnesja 18. desember 2025 (2025020453)

Lögð fram til kynningar fundargerð stjórnar Brunavarnar Suðurnesja.

Fylgigögn:

Fundargerð 97. Fundur Stjórn BS

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 9:29. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 20. janúar 2026.