08.01.2019 00:00

557. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar haldinn að Tjarnargötu 12 þann 8. janúar 2019 kl. 17:00.

Viðstaddir: Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Baldur Þ. Guðmundsson, Díana Hilmarsdóttir, Friðjón Einarsson, Guðbrandur Einarsson, Guðrún Ösp Theodórsdóttir, Gunnar Þórarinsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, Margrét Ólöf A. Sanders, Margrét Þórarinsdóttir, Styrmir Gauti Fjeldsted, Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri, Hrefna Höskuldsdóttir ritari. Í forsæti var Jóhann Friðrik Friðriksson.

1. Fundargerð bæjarráðs 20. desember 2018 (2018010002)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina.

Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir sem lagði fram eftirfarandi bókun:

„Virðulegi forseti og aðrir viðstaddir. Ég kem hér undir lið 4. Miðflokkurinn harmar lögsókn Gildis lífeyrissjóðs. Þetta mál varðandi höfnina er allt hið undarlegasta. Sú vinnuregla er til staðar að þegar á að fara í hafnarframkvæmdir í sveitarfélagi þá á að semja fyrst við ríkið varðandi fjármögnun. Meirihlutinn á þeim tíma fór með skófluna og byrjaði framkvæmdir og ætlaði svo að fá fjármagn frá ríkinu en það sést á því hverjir eru kröfuhafar. Því var marghafnað af ríkinu og því fór sem fór og íbúar Reykjanesbæjar sitja uppi með allar skuldirnar.
Miðflokkurinn harmar þessi vinnubrögð og íbúar bera ENGA ábyrgð á þessu fjármálasukki.
Ég vil að þetta sé bókað. Margrét Þórarinsdóttir, oddviti Miðflokksins“.

Til máls tóku Margrét Ólöf A. Sanders, Friðjón Einarsson, Guðbrandur Einarsson, Kjartan Már Kjartansson, Gunnar Þórarinsson og Baldur Þ. Guðmundsson.

Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir sem lagði fram eftirfarandi bókun:

„Virðulegi forseti og aðrir viðstaddir. Ég kem hér undir lið 8. Miðflokkurinn fagnar auknu fjármagni upp á 62 milljónir frá jöfnunarsjóðnum. Hér er tækifærið til að nýta þetta fé til að styrkja efnaminni fjölskyldur í Reykjanesbæ og bjóða upp á systkinaafslátt af skólamáltíðum. Alþýðusamband Íslands hefur lagt áherslu á það, að mikilvægt sé að koma til móts við tekjuminni fjölskyldur og draga úr gjaldtöku m.a. vegna skólamáltíða. Rökstuðningurinn fyrir því að afnema gjaldtöku á skólamáltíðum hefur verið að mismuna ekki börnum á grundvelli efnahagslegrar stöðu foreldra þeirra í samræmi við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og létta undir með barnafjölskyldum. Reykjanesbær á ekki að láta sitt eftir liggja í þessum efnum.
Miðflokkurinn leggur því til að þetta fé verði lagt til að taka fyrsta skrefið í því að gera skólamáltíðir í Reykjanesbæ gjaldfrjálsar.
Ég vil að þetta verði bókað. Margrét Þórarinsdóttir, bæjarfulltrúi Miðflokksins“.

Borin var upp tillaga Miðflokksins um að áætlaðar umframtekjur frá Jöfnunarsjóði verði notaðar til að gera skólamáltíðir gjaldfrjálsar.

Tillagan er felld með 10 atkvæðum gegn 1 atkvæði bæjarfulltrúa Miðflokksins. 

Fundargerðin samþykkt 11-0.

2. Fundargerð bæjarráðs 3. janúar 2019 (2019010002)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina.

Til máls tók: Margrét Þórarinsdóttir, sem lagði fram eftirfarandi bókanir:

„Virðulegi forseti og aðrir viðstaddir. Ég kem hér undir lið 1. Miðflokkurinn lagði fram breytingartillögu við fjárhagsáætlun vegna skólamáltíða. Þeirri tillögu var hafnað af meirihluta vegna fjárskorts. Nú hefur bæjarráð ákveðið að gefa út sögu Keflavíkur. Ég spyr, er tímabært að ráðast í þetta verkefni? Hver er kostnaður við útgáfu þessar bókar?
Ég vil að þetta sé bókað. Margrét Þórarinsdóttir, oddviti Miðflokksins“.

„Virðulegi forseti og aðrir viðstaddir. Ég kem hér undir lið 5. Í kosningabaráttunni óskaði Miðflokkurinn eftir ákveðnum svörum við söluna á Hitaveitu Suðurnesja. Fátt var um skýr og greinargóð svör. Þarna tel ég að sveitarfélagið hafi verið að bregðast upplýsingaskyldu sinni. Ég neyðist því að leggja fram nýja fyrirspurn á sama grunni þegar uppskiptingu var lokið árið 2009 sbr. mál nr. 2018050150/00.16
1. Hvaða veð og veðréttir lágu að baki skuldabréfinu?
2. Hvert var nafnvirði hvers hlutar?
3. Hvert var verðmat hvers hlutar við greiðslu skuldabréfsins?
4. Hverjir voru útgefendur skuldabréfsins?
5. Hverjir voru skilmálar skuldabréfsins tæmandi taldir?
6. Til hvers langs tíma var bréfið?
7. Mátti greiða aukainnborganir og þá með eða án viðbótarkostnaðar?
8. Hvaða vaxtakjör voru á bréfinu?
9. Frá hvaða degi voru vextir reiknaðir?
10. Voru vextirnir fastir vextir eða breytilegir?
11. Hver var vaxtaprósentan?
12. Var bréfið verðtryggt?
13. Var bréfið gengistryggt og ef svo var, í hvaða mynt?
14. Eru endurgreiðslur af bréfinu með einhverjum hætti afkomutengdar?
15. Árið 2011 var skuldabréfið selt til fjárfestingarsjóðsins ORK. Hvert er markaðsverðmæti þess hinn 1. janúar 2019?
Ég óska eftir því að fá skýr og greinargóð svör við fyrirspurn minni. Ég vil að þetta sé bókað.
Margrét Þórarinsdóttir, oddviti Miðflokksins“.

Til máls tóku Jóhann Friðrik Friðriksson, Friðjón Einarsson og Kjartan Már Kjartansson.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

3. Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 17. desember 2018 (2018010164)

Þriðji liður fundargerðarinnar Hafnargata 57 – Niðurstaða grenndarkynningar (2017090107) var samþykktur sérstaklega með 11 atkvæðum.

Fjórði liður fundargerðarinnar Hafnargata 12 – Deiliskipulag (2016010194) var samþykktur sérstaklega með 11 atkvæðum.

Áttundi liður fundargerðarinnar Sjónarhóll 6 – Breyting á lóð (2018120165) var samþykktur sérstaklega með 11 atkvæðum.

Tíundi liður fundargerðarinnar Kópubraut 30 - Fyrirspurn (2018120167) var samþykktur sérstaklega með 11 atkvæðum.

Ellefti liður fundargerðarinnar Kópubraut 32 - Fyrirspurn (2018120168)) var samþykktur sérstaklega með 11 atkvæðum.

Tólfti liður fundargerðarinnar Urðarás 13 - Niðurstaða grenndarkynningar (2018090341) var samþykktur sérstaklega með 11 atkvæðum.

Tuttugasti og annar liður fundargerðarinnar er sérstaklega tekinn fyrir í 5. dagskrárlið.

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina.

Til máls tóku: Margrét Ólöf A.Sanders og Guðbrandur Einarsson.

Fundargerðin samþykkt að öðru leyti 11-0. Anna Sigríður Jóhannesdóttir greiðir ekki atkvæði í lið 7.

4. Fundargerð barnaverndarnefndar 17. desember 2018 (2018010344)

Fundargerðin lögð fram.

5. Kísilverksmiðja í Helguvík, endurbætur - mat á umhverfisáhrifum - umsögn Reykjanesbæjar (2018100079)

Forseti gaf orðið laust. Til máls tóku Margrét Þórarinsdóttir, Friðjón Einarsson og Guðbrandur Einarsson.
Bæjarstjórn samþykkir tillögu skipulagsfulltrúa að umsögn um matsáætlun með 11 atkvæðum.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18.27.