571. fundur

03.09.2019 17:00

571. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar var haldinn í Merkinesi, Hljómahöll þann 3. september 2019 kl. 17:00

Viðstaddir: Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Baldur Þ. Guðmundsson, Díana Hilmarsdóttir, Friðjón Einarsson, Guðbrandur Einarsson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Gunnar Þórarinsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, Margrét Ólöf A. Sanders, Margrét Þórarinsdóttir, Styrmir Gauti Fjeldsted, Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og Hrefna Höskuldsdóttir ritari. Í forsæti var Jóhann Friðrik Friðriksson.


1. Fundargerðir bæjarráðs 22. og 29. ágúst 2019 (2019050058)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar. Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir sem lagði fram eftirfarandi bókun:

Liður 1 - fundargerð bæjarráðs 22. ágúst 2019

„Miðflokkurinn hafnar sem fyrr uppbyggingu/endurræsingu kísilverksmiðjunnar í Helguvík. Slíkt er þvert gegn vilja íbúa Reykjanesbæjar. Slík er andstaðan við málið að nú þegar hafa andstæðingar verksmiðjunnar skilað inn undirskriftarlistum með lögbundnu lágmarki íbúa til að knýja fram íbúakosningu. Þeirri lýðræðiskröfu var hafnað á tæknilegum forsendum. Fulltrúi Miðflokksins setur sig alfarið upp á móti breyttu deiliskipulagi á þessu svæði. Íbúar Reykjanesbæjar vilja ekki mengandi stóriðju við bæjardyrnar. Það verða stjórnendur bæjarins að viðurkenna. Það er tími til kominn að við förum að vinna saman að heildstæðri stefnu í þágu íbúanna varðandi Helguvík“.

Til máls tók: Friðjón Einarsson.

Fundargerðirnar samþykktar 11 – 0. Baldur Þ. Guðmundsson lýsir sig vanhæfan lið 8 í fundargerð bæjarráðs 22. ágúst.

Fylgigögn:

Fundargerð 1232. fundar bæjarráðs
Fundargerð 1233. fundar bæjarráðs

2. Fundargerð barnaverndarnefndar 26. ágúst 2019 (2019050479)

Fundargerð barnaverndarnefndar lögð fram.

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina, til máls tók Díana Hilmarsdóttir.

Fylgigögn:

Fundargerð 262. fundar barnaverndarnefndar

3. Fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs 27. ágúst 2019 (2019050295)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir sem lagði fram eftirfarandi bókun:

Liður 2 frá fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs 27. ágúst 2019.

„Íþrótta- og tómstundaráð virðist misskilja tillögu bæjarfulltrúa Miðflokksins en í henni er lagt til að sérstakur afrekssjóður fyrir ungmenni sem skara fram úr í íþróttum, verði stofnaður. Í svari íþrótta- og tómstundaráðs er talað um Íþróttasjóð Reykjanesbæjar en þar er um allt annan sjóð að ræða. Eins og fram kemur í svarinu þá hlutu 83 aðilar úthlutun úr sjóðnum á síðasta ári, var um landsliðsfólk að ræða? Ég spyr.
Sá sjóður sem Miðflokkurinn vill stofna, snýr að því íþróttafólki hér í bæ, sem skarar fram úr og er valið til að koma fram fyrir hönd Íslands. Reykjanesbær er framúrskarandi íþróttabær og yfir því eigum við að vera stolt. Fjöldi ungmenna sem myndu hljóta styrk á hverju ári er auðvitað breytilegur en tillagan fjallar um að venjulegu fjölskyldufólki muni verulega um þá upphæð sem hægt er að sækja um þegar börn þeirra eru valin til landsliðsverkefna. Þetta eiga börnin að geta gert óháð stétt eða stöðu foreldra og því þarf svona afrekssjóður að vera til staðar.
Svo dæmi sé tekið þá var einstaklingur hér í bæ valinn til að leika með U-18 landsliðinu í körfuknattleik í sumar, fyrst á EM og svo á Norðurlandamótinu. Kostnaður viðkomandi við fyrri ferðina var 253.700 kr. og við seinni ferðina var kostnaðurinn 285.000 kr. Samtals gerir þetta 538.700 kr. Það sem viðkomandi fékk í styrk úr fyrrnefndum íþróttasjóði var 2 x 20.000 kr. og 10.000 kr. kom frá unglingaráði Körfuknattleiksdeildar Keflavíkur, samtals 50.000 kr. Sjá má á þessu dæmi að talsvert vantar upp á að það gangi upp og er ekki sanngjarnt að leggja þær byrðar á venjulega fjölskyldu. Tekið skal fram að umræddur einstaklingur var að keppa í körfuknattleik á vegum Körfuknattleikssambands Íslands (KKÍ) en sambandið greiðir um 30-35% af ferðakostnaði. Skv. mínum heimildum þá greiðir KKÍ næstmest allra sérsambanda en Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) greiðir allan kostnað og því ætti Afrekssjóðurinn ekki að þurfa koma til móts við knattspyrnufólk.
Tækifæri þessara afreksungmenna til vinnu á sumrin eru af skornum skammti, þar sem þau þurfa að stunda landsliðsæfingar af kappi. Reykjanesbær býður þeim að stunda unglingavinnuna sem að mestu snýr að garðyrkju og geta þau fengið frí frá vinnu á launum til að stunda æfingar. Þar sem álag við æfingar og keppni er mikið þá eru ekki margir atvinnurekendur sem vilja ráða börnin í vinnu og því er búinn að myndast ansi stór vítahringur. Hvernig er best að taka á vandamálinu? Miðflokkurinn telur að það sé orðið tímabært að Reykjanesbær stofni afrekssjóð sem hjálpar börnunum okkar að ná árangri og koma fram fyrir hönd Íslands og vera þannig flottir fulltrúar Reykjanesbæjar. Íþróttir hafa löngum verið besta auglýsingin sem bærinn fær og verðum við að aðstoða fjölskyldur sem eiga börn sem skara fram úr. Að öðrum kosti þurfa mörg ungmenni að gefa landsliðsverkefni frá sér þar sem fjölskyldan einfaldlega ræður ekki við kostnaðinn. Það viljum við ekki láta gerast“.

Til máls tóku: Friðjón Einarsson, Margrét Ólöf A. Sanders, Gunnar Þórarinsson, Baldur Þ. Guðmundsson og Guðbrandur Einarsson.

Fundargerðin samþykkt 11 – 0.

Fylgigögn:

Fundargerð 132. fundar Íþrótta- og tómstundaráðs

4. Fundargerð stjórnar Reykjaneshafnar 29. ágúst 2019 (2019051155)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku: Friðjón Einarsson, Baldur Þ. Guðmundsson og Jóhann Friðrik Friðriksson.

Fundargerðin samþykkt 11 – 0.

Fylgigögn:

Fundargerð 232. fundar Stjórnar Reykjaneshafnar

5. Fundargerð fræðsluráðs 30. ágúst 2019 (2019050417)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina.

Fundargerðin samþykkt 11 – 0 án umræðu.

Fylgigögn:

Fundargerð 325. fundar fræðsluráðs

6. Kosning aðalfulltrúa í íþrótta- og tómstundaráð (2019080793)

Brynjar Garðarsson (D) aðalmaður í íþrótta- og tómstundaráði hefur sagt sig úr nefndinni. Í hans stað er lagt til að Jóhann Birnir Guðmundsson taki sæti í nefndinni. Samþykkt samhljóða. 

7. Áhersluatriði D - listans 2019 - 2020 (2019080385)

Margrét Ólöf A. Sanders lagði fram áhersluatriði D – listans 2019 – 2020:

„Fjármál, stjórnun og atvinnuuppbygging
a. Forgangsmál er að halda sveitarfélaginu undir lögbundnu skuldaviðmiði.
b. Aukið svigrúm í fjármálum skal varið í að minnka álögur á íbúa Reykjanesbæjar. Huga skal að innviðauppbygginu en alls ekki auka bákn sveitarfélagsins.
c. Lækka skal fasteignaskatta strax til að vega upp á móti hækkun fasteignamats á síðustu 4 árum og þá miklu hækkun sem taka á gildi þann 1. janúar 2020.
d. Forgangsverkefni er að skapa aðstæður fyrir fjölbreytt og öflugt atvinnulíf sem er forsenda velferðar og lífsgæða. Þannig styrkjum við tekjustofna sveitarfélagsins og getum betur mætt þörfum íbúanna.“
Undirritað af: Margréti Ólöfu A. Sanders, Önnu Sigríði Jóhannesdóttur og Baldri Þ. Guðmundssyni.

Forseti gaf orðið laust. Til máls tók Friðjón Einarsson, Baldur Þ. Guðmundsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, Guðbrandur Einarsson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Gunnar Þórarinsson og Margrét Ólöf A. Sanders.

8. Jafnréttisáætlun Reykjanesbæjar - síðari umræða (2019050790)

Guðný Birna Guðmundsdóttir tók til máls og fylgdi jafnréttisáætlun Reykjanesbæjar úr hlaði.

Forseti gaf orðið laust. Til máls tók: Margrét Ólöf A. Sanders.

Jafnréttisáætlun Reykjanesbæjar samþykkt 11 – 0 með fyrirvara um breytingu á starfsheiti ábyrgðaraðila.

Fylgigögn:

Jafnréttisáætlun Reykjanesbæjar 2019 - drög

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar óskar íbúum til hamingju með 20 ára afmæli Ljósanætur og býður gesti velkomna á hátíðina.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18.40.