19.01.2021 17:00

603. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, haldinn í Merkinesi, Hljómahöll 19. janúar 2021, kl. 17:00

Viðstaddir: Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Baldur Þ. Guðmundsson, Díana Hilmarsdóttir, Friðjón Einarsson, Guðbrandur Einarsson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Gunnar Þórarinsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, Margrét A. Sanders, Margrét Þórarinsdóttir, Styrmir Gauti Fjeldsted, Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og Hrefna Gunnarsdóttir ritari. Í forsæti var Guðbrandur Einarsson.

1. Fundargerðir bæjarráðs 7. og 14. janúar 2021 (2021010002)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar.

Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir (M). Gerði hún grein fyrir að hún myndi sitja hjá vegna fyrsta liðs úr fundargerð bæjarráðs frá 14. janúar en samþykkja fundargerðina að öðru leyti.

Til máls tók Margrét A. Sanders (D) og lagði fram eftirfarandi bókun:

Liður 1 í fundargerð bæjarráðs frá 14. janúar 2021:
„Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins geta ekki samþykkt greiðslu til húsfélagsins Pósthússtræti 3 vegna samkomulags um mótvægisaðgerðir og útlagðan kostnað, þar sem ekki voru lögð fram gögn til stuðnings fjárkröfunum.“

Baldur Guðmundsson, Anna Sigríður Jóhannesdóttir og Margrét Sanders bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks.

Til máls tóku Jóhann Friðrik Friðriksson, Friðjón Einarsson og Guðbrandur Einarsson.

Margrét Þórarinsdóttir (M), Margrét A. Sanders, (D), Baldur Þ. Guðmundsson, (D) og Anna Sigríður Jóhannesdóttir (D) og Gunnar Þórarinsson (Á) sitja hjá vegna fyrsta liðs fundargerðar bæjarráðs frá 14. janúar 2021.

Fundargerðirnar samþykktar að öðru leyti 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 1301. fundar bæjarráðs 7. janúar 2021
Fundargerð 1302. fundar bæjarráðs 14. janúar 2021

2. Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 15. janúar 2021 (2021010010)

Forseti gaf orðið laust um eftirfarandi liði fundargerðarinnar frá 15. janúar til sérstakrar samþykktar:

Fyrsti liður fundargerðarinnar Hlíðarhverfi - breyting á deiliskipulagi (2019120007). Til máls tók Anna Sigríður Jóhannesdóttir (D) og lagði fram eftirfarandi bókun:

Liður 1 í fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 15. janúar 2021:
„Í athugasemd frá Skipulagsstofnun virðast ekki vera neinar athugasemdir er snúa að umferðaröryggi, því miklu magni af bílaumferð sem er verið að bæta við í hverfið. Í Hlíðarhverfi eru að byggjast upp um 700-800 íbúðir með tilheyrandi bílaumferð, auk umferðar á leið í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og Holtaskóla. Sex deilda leikskóli mun einnig rísa í hverfinu og er það þá þriðji skólinn í sama hverfi. Eitt það fyrsta sem skoðað er við skipulagsvinnu kringum svona viðkvæmt íbúðarsvæði er að huga að umferðaröryggi fyrir gangandi og hjólandi íbúa hverfisins og hafa það ávallt í forgangi til að tryggja umferðaröryggi. Sjálfstæðisflokkurinn lýsir yfir áhyggjum af umferðaröryggi í hverfinu og miklu magni af bílaumferð sem er verið að bæta á Skólaveginn milli Hlíðarhverfa.“

Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Baldur Guðmundsson og Margrét Sanders Sjálfstæðisflokki.

Fyrsti liður fundargerðarinnar samþykktur 11-0.
Annar liður fundargerðarinnar Flugvellir - breyting á deiliskipulagi Flugvallarvegar (2020060544) samþykktur 11-0 án umræðu.
Þriðji liður fundargerðarinnar Leirdalur 7-13 - breyting á deiliskipulagi (2021010219) samþykktur 11-0 án umræðu.
Fjórði liður fundargerðarinnar Háseyla 33 (2020100038 samþykktur 11-0 án umræðu.
Fimmti liður fundargerðarinnar Ægisvellir 13 - viðbygging sólskála (2021010220) samþykktur 11-0 án umræðu.
Sjöundi liður fundargerðarinnar Fitjaás 22 - viðbygging sólskála (2019050585) samþykktur 11-0 án umræðu.
Áttundi liður fundargerðarinnar Birkiteigur 1 - niðurstaða grenndarkynningar (2020020673) samþykktur 11-0 án umræðu.
Níundi liður fundargerðarinnar Furudalur 14-16 - Breyting á deiliskipulagi (2020020042) samþykktur 11-0 án umræðu.
Tíundi liður fundargerðarinnar Suðurgata 50 - stækkun á húsi (2021010223) samþykktur 11-0 án umræðu.

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Kjartan Már Kjartansson.

Fundargerðin samþykkt að öðru leyti 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 263. fundar umhverfis- og skipulagsráðs 15. janúar 2021

3. Fundargerð velferðarráðs 13. janúar 2021 (2021010011)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Guðný Birna Guðmundsdóttir og Anna Sigríður Jóhannesdóttir.

Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir (M) og lagði fram eftirfarandi bókanir:

Liður 2 í fundargerð velferðarráðs frá 13. janúar 2021:
„Ég tek undir með velferðarráði sem telur tillöguna jákvætt skref í því að einfalda húsnæðisstuðning til þeirra sem eiga rétt á honum og til að hafa betri yfirsýn yfir kerfið í heild. Mikilvægt er að tekin verði afstaða til kostnaðarskiptingar á milli ríkis og sveitarfélaga.
Ég fagna þessari skýrslu enda mikilvægt að einfalda húsnæðisstuðning til þeirra sem eiga rétt á honum. Eins og fram kemur hjá velferðarráði þá er mikilvægt að afstaða verði tekin til kostnaðarskiptingar á milli ríkis og sveitarfélaga. Mjög jákvætt skref fyrir hið opinbera, bæði ríki og sveitarfélög og skjólstæðinga kerfisins.“
Liður 3 í fundargerð velferðarráðs frá 13. janúar 2021:
„Bæjarfulltrúi Miðflokksins tekur í einu og öllu undir þau sjónarmið sem fram koma í bókun velferðarráðs enda er bókunin að nokkru leyti byggð á málflutningi mínum á kjörtímabilinu. Sérstaklega er tekið undir að þjónustusamningurinn hefur haft álag á ýmsa innviði og talsvert álag hafi verið á sjúkraflutninga vegna flutninga í Sóttvarnarhús. Eins og staðan er í dag er mikið atvinnuleysi í Reykjanesbæ og kallar það á mikið álag á ýmsar stofnanir bæjarins og ekki síst félagsþjónustuna. Við það bætist að hælisleitendur þurfa mikla þjónustu og mikla aðstoð fyrstu mánuðina. Ríkisvaldið verður að taka á vandanum. Byggja ætti sérstaka móttökustöð fyrir hælisleitendur í námunda við flugvöllinn að fyrirmynd Norðmanna þar sem þjónusta yrði veitt á meðan umsóknir yrðu afgreiddar á 48 klukkustundum. Miðflokkurinn á Alþingi lagði fram þingsályktunartillögu um breytingar á útlendingalögum til að auka skilvirkni í málsmeðferð hælisleitenda á síðasta ári. Að dómsmálaráðherra verði falið að flytja frumvarp um breytingar á útlendingalögum sem verði lagt fram eigi síðar en 1. mars 2021 svo að lögfesta megi nauðsynlegar breytingar á málaflokknum fyrir þinglok.
Ég fagna því að velferðarráð telur ekki stætt á að ganga til samninga við Útlendingastofnun um að Reykjanesbær taki yfir þjónustu á Lindarbraut 536 á þeim grundvelli sem stofnunin leggur til enda er það algerlega ótækt og óskiljanlegt að stofnunin skuli ætlast til þess að sveitarfélagið taki yfir þessa þjónustu sér í lagi að Útlendingastofnun tók á leigu Lindarbraut til fimm ára í óþökk sveitarfélagsins. Ég tek undir með velferðarráði að fleiri sveitarfélög verði að axla ábyrgð í málaflokknum, sem er í ólestri og skrifast það á stjórnvöld. Það er óásættanlegt að Ísland skuli vera með veikustu löggjöfina í Evrópu í málefnum hælisleitenda. Það kallar bara á eitt, stöðuga fjölgun umsókna hér á landi. Reykjanesbær getur ekki leyst heimatilbúinn vanda stjórnvalda þegar kemur að hælisleitendum.“
Liður 5 í fundargerð velferðarráðs frá 13. janúar 2021:
„Engin fylgigögn eru undir þessum lið en fram kemur í fundargerðinni að Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs fór yfir stöðu mála. Ég spyr því hvernig á ég að geta samþykkt fundargerðina án þess að hafa fengið upplýsingar um hver staðan er á stjórnsýsluúttektinni? Þetta kalla ég ekki góða stjórnsýslu og hvað þá gagnsæi að láta ekki fylgja minnisblað um hver staðan er. Ég óska eftir að kjörnir fulltrúar fái stjórnsýsluúttektina senda til að þeir geti kynnt sér málið en það er lágmark að allir kjörnir fulltrúar fái stjórnsýsluúttektir sem bærinn fer í.“

Margrét Þórarinsdóttir Miðflokki.

Til máls tóku Díana Hilmarsdóttir, Friðjón Einarsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, Margrét A. Sanders, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Margrét Þórarinsdóttir og Guðbrandur Einarsson.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 394. fundar velferðarráðs 13. janúar 2020

4. Fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs 14. janúar 2021 (2021010006)

Forseti lagði til að sjötta máli fundargerðar íþrótta- og tómstundaráðs frá 14. janúar „Íþróttahreyfingin og Covid-19“ verði vísað til frekari umræðu bæjarráðs 21. janúar 2021.

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina.

Til máls tók Margrét A. Sanders (D) og lagði fram eftirfarandi bókun:

Liður 6 í fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs frá 14. janúar 2021:
„Við undirrituð lýsum áhyggjum okkar yfir þeirri slæmu fjárhagslegu stöðu sem flest íþróttafélög í bænum standa frammi fyrir. Mikilvægt er að Reykjanesbær styðji við þau eftir fremsta megni, bæði með fjárhagslegum og faglegum stuðningi. Bæjarfélagið þarf að vera félögunum innan handar á allan hátt þannig að erfiðleikar þeir sem við stöndum frammi fyrir núna skaði ekki íþróttahreyfinguna til lengri tíma.
Eftir að hafa farið yfir þær fjárhagsupplýsingar sem lágu fyrir á síðasta fundi ÍT ráðs leggjum við fram eftirfarandi tillögu:
Sjálfstæðisflokkurinn, Miðflokkurinn og Frjálst afl leggja til að fjármálastjóri Reykjanesbæjar verði fenginn til að leiða vinnu með íþróttafélögunum til að taka betur saman og samræma heildarupplýsingar um fjárhagsstöðu íþróttafélaga í Reykjanesbæ. Með greinargóðri framsetningu og upplýsingum munu allir aðilar átta sig nákvæmlega á stöðunni og eiga þá betur með að bregðast við.“

Margrét Sanders, Baldur Guðmundsson og Anna Sigríður Jóhannesdóttir Sjálfstæðisflokki, Margrét Þórarinsdóttir Miðflokki og Gunnar Þórarinsson Frjálsu afli.

Til máls tóku Kjartan Már Kjartansson, Baldur Þ. Guðmundsson, Friðjón Einarsson, Margrét A. Sanders, Jóhann Friðrik Friðriksson, Gunnar Þórarinsson og Guðbrandur Einarsson.

Samþykkt 11-0 að vísa sjötta lið fundargerðarinnar ásamt framlagðri tillögu minnihluta bæjarstjórnar til næsta bæjarráðsfundar 21. janúar 2021.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 146. fundur ÍT 14.01.2021

5. Fundargerð fræðsluráðs 15. janúar 2021 (2021010005)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Friðjón Einarsson, Baldur Þ. Guðmundsson og Margrét A Sanders.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 339. fundar fræðsluráðs 15. janúar 2021

6. Fundargerð lýðheilsuráðs 15. janúar 2021 (2021010007)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Jóhann Friðrik Friðriksson, Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Margrét Þórarinsdóttir og Baldur Þ. Guðmundsson.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 15. fundar lýðheilsuráðs 15. janúar 2021

7. Vinna við umhverfisstefnu Reykjanesbæjar – svar við fyrirspurn (2020021391)

Forseti gaf orðið laust. Til máls tók Kjartan Már Kjartansson og lagði fram eftirfarandi svör við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá síðasta bæjarstjórnarfundi:

1. Hver ber ábyrgð á gerð umhverfisstefnu Reykjanesbæjar?
Umhverfisstefna hefur sl. ár verið unnin samhliða endurskoðun aðalskipulags hjá umhverfis- og skipulagsráði. Þann 25. júní 2020 samþykkti bæjarráð á fundi sínum að fela framtíðarnefnd að koma að vinnu við gerð nýrrar Umhverfis- og loftlagsstefnu Reykjanesbæjar ásamt umhverfis- og skipulagsráði. Var það gert til að stefnan fengi meira vægi og gæti staðið sem sjálfstæð stefna þó hún haldi áfram að vera hluti af aðalskipulagi sveitarfélagsins.
2. Hvert er hlutverk ráðgjafa í þessu ferli?
Í byrjun árs 2020 kannaði Reykjanesbær fýsileika þess að gefa út græn skuldabréf í tengslum við fyrirhugaða endurfjármögnun. Fossar markaðir hf., sem bæjarráð samþykkti að ráða sem ráðgjafa við undirbúning að útgáfu grænna skuldabréf, mælti með Circular enda fyrirtækið með mestu reynslu af því að aðstoða seljendur grænna skuldabréf við fýsileikagreiningu, val á vottunaraðila og gerð nauðsynlegs ramma fyrir slík bréf hér á landi. Í greiningarferlinu benti Circular á mikilvægi þess að hafa nútímalega umhverfis- og loftslagsstefnu sem uppfyllti kröfur sem gerðar eru til þeirra sem hyggjast gefa út græn skuldabréf.
Circular var því fengið til að aðstoða við gerð stefnunnar til að auka áhættustýringu sveitarfélagsins í umhverfismálum. Slík stefna þyrfti að uppfylla þarfir fjárfesta og vera í samhengi við alþjóðlega staðla og leiðbeiningar ásamt því að draga úr neikvæðum áhrifum á umhverfið og auka líkur á sjálfbærni.
3. Hver er heildarkostnaður sem greiddur var til ráðgjafa vegna umhverfisstefnu árið 2020 og hver er áætlaður kostnaður 2021?
Skv. 9. gr. upplýsingalaga er heimilt að takmarka upplýsingarétt til almennings þegar gögn innihalda fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Það þarf heimild gagnaðila til að upplýsa um fjárhagsupplýsingar. Sú heimild hefur enn ekki fengist frá Circular.
Ekki er áætlaður neinn kostnaður árið 2021.
4. Var gerður samningur við ráðgjafa vegna vinnu við umhverfisstefnu?
Reykjanesbær gerði samning við Circular Solutions ehf. í janúar 2020 um fýsileikagreiningu og val á vottunaraðila í tengslum við mögulega útgáfu á grænum skuldabréfum. Hluti af þeim samningi fól í sér ráðgjöf varðandi umhverfisstefnu og mælingu á þeim umhverfisþáttum sem Reykjanesbær þurfti að styrkja skv. áhættu- og mikilvægisgreiningu UFS þátta. Vinnan við umhverfisstefnuna féll að hluta inn í þann samning en ekki var gerður sérstakur samningur varðandi aðstoð við að uppfæra umhverfisstefnu.
5. Hvenær er áætlað að vinnu við umhverfisstefnu ljúki?
Vinnuhópur, þrír úr hvorri nefnd, framtíðarnefnd og umhverfis- og skipulagsráði, lauk við gerð lokadraga stefnunnar þann 7. janúar sl. Drögin fara þaðan til samþykktar í báðum nefndum og í framhaldinu til umsagnar inn í aðrar nefndir og ráð Reykjanesbæjar. Áætlað er að drög að nýrri umhverfisstefnu verði afgreidd úr framtíðarnefnd og umhverfis- og skipulagsráði fyrir lok febrúar 2021 og í framhaldinu lögð fyrir bæjarstjórn Reykjanesbæjar.

Til máls tóku Margrét A. Sanders, Kjartan Már Kjartansson, Jóhann Friðrik Friðriksson og Guðbrandur Einarsson.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 20:45