634.fundur

21.06.2022 17:00

634. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, haldinn í Merkinesi, Hljómahöll 21. júní 2022, kl. 17:00

Viðstaddir: Alexander Ragnarsson, Birgir Már Bragason, Birgitta Rún Birgisdóttir, Bjarni Páll Tryggvason, Díana Hilmarsdóttir, Eyjólfur Gíslason, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Hjörtur M. Guðbjartsson, Rannveig Erla Guðlaugsdóttir og Sverrir Bergmann Magnússon. Í forsæti var Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir.

Friðjón Einarsson boðaði forföll, Hjörtur M. Guðbjartsson sat fyrir hann.
Guðbergur Reynisson boðaði forföll, Birgitta Rún Birgisdóttir sat fyrir hann.
Helga Jóhanna Oddsdóttir boðaði forföll, Eyjólfur Gíslason sat fyrir hana.
Margrét A. Sanders boðaði forföll, Alexander Ragnarsson sat fyrir hana.
Margrét Þórarinsdóttir boðaði forföll, Rannveig Erla Guðlaugsdóttir sat fyrir hana
Valgerður Björk Pálsdóttir boðaði forföll, Birgir Már Bragason sat fyrir hana.

Að auki sátu fundinn Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og Hrefna Gunnarsdóttir ritari.

1. Fundargerðir bæjarráðs 9. og 16. júní 2022 (2022010004)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar. Til máls tóku Díana Hilmarsdóttir og Guðný Birna Guðmundsdóttir.

Til máls tók Birgitta Rún Birgisdóttir og lagði fram eftirfarandi bókun Sjálfstæðisflokks:

Liður 8 í fundargerð bæjarráðs frá 16. júní 2022:

„Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að samið verði um áframhaldandi heilsueflingu eldri íbúa í Reykjanesbæ. Leggjum við til að bærinn kynni sér þá aðila sem bjóða upp á slíka heilsueflingu eða semji um áframhaldandi samstarf við Janus heilsueflingu. Jafnframt leggjum við til að samið veði við Janus heilsueflingu til skamms tíma á meðan meirihlutinn er að skoða alla möguleika, svo hægt verði að taka á móti nýju fólki í verkefnið næsta árið.

Teljum við afar mikilvægt að tryggja það að slíkt verkefni verði í boði í bæjarfélaginu til að draga úr félagslegri einangrun og efla líkamlegt þrek eldra fólks. Með hækkandi aldri bæjarbúa getum við ekki horft fram hjá þeirri staðreynd að huga verði að þessum þáttum og teljum við það vera bæjarfélaginu til bóta að líkamleg og andleg heilsa eldri íbúa sé sem best. Teljum við að hvatagreiðslur einar og sér séu ekki sami hvati fyrir fólk á þessum aldri til að stunda reglulega hreyfingu eins og sá hvati sem fæst með námskeiði í líkingu við það sem í boði hefur verið, þar sem faglærður þjálfari bíður fólks og fylgist með mætingu og mælingar eru gerðar á heilsufari.“

Alexander Ragnarsson, Birgitta Rún Birgisdóttir og Eyjólfur Gíslason Sjálfstæðisflokki.

Til máls tóku Kjartan Már Kjartansson og Guðný Birna Guðmundsdóttir.

Fundargerðirnar samþykktar 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 1372. fundar bæjarráðs 9. júní 2022
Fundargerð 1373. fundur bæjarráðs 16. júní 2022

2. Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 16. júní 2022 (2022010013)

Forseti gaf orðið laust um eftirfarandi liði fundargerðarinnar frá 16. júní til sérstakrar samþykktar:

Sjötti liður fundargerðarinnar Seljavogur 10 – viðbygging (2022050537) samþykktur 11-0 án umræðu.
Sjöundi liður fundargerðarinnar Iðavellir 10B – viðbygging (2022050731) samþykktur 11-0 án umræðu.
Áttundi liður fundargerðarinnar Iðavellir 2 – stækkun (2020020426) samþykktur 11-0 án umræðu.
Tíundi liður fundargerðarinnar Hafnargata 51-55 (2022060350) samþykktur 11-0 án umræðu.
Fjórtándi liður fundargerðarinnar Ásabraut 15 (2022050418) samþykktur 11-0 án umræðu.
Fimmtándi liður fundargerðarinnar Bergás 3 - sólstofa (2022050669) samþykktur 10-0 án umræðu, bæjarfulltrúi Hjörtur M. Guðbjartsson sat hjá undir þessum lið.
Sextándi liður fundargerðarinnar Melavegur 2 - stækkun á lóð (2022060003) samþykktur 11-0 án umræðu.
Sautjándi liður fundargerðarinnar Urta Islandica - Básvegur 10 (2022050538) samþykktur 11-0 án umræðu.

Forseti gaf orðið laust.

Til máls tók Eyjólfur Gíslason og lagði fram eftirfarandi bókun Sjálfstæðisflokks:

Liður 20 í fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 16. júní 2022.

„Umhirða á gras-svæðum og gróðri almennt hér í Reykjanesbæ, hefur ekki verið í lagi undanfarið.
Það virðist alveg undir hælin lagt hvort og hvenær svæði eru slegin og ef þau eru slegin, þá hefur það gerst - að gras er ekki hirt og látið liggja í görðum jafnvel í einhverja daga áður en það er hirt.

Einnig hafa orðið skemmdir bæði á grasflötum og eignum við sláttinn.

Það verklag sem viðhaft hefur verið er með öllu ólíðandi! Við Sjálfstæðisfólk viljum að farið verði í endurskipulagningu á því hvernig slætti og umhirðu gras-svæða verður.

Þetta er stór hluti af ásýnd bæjarins að hafa snyrtilegar og vel hirtar grasflatir sem og önnur gróðursvæði, götur og gangstíga sem umhirðu hefur einnig verið ábótavant á.

Sjálfstæðisfólk óskar eftir því að bæjarstjóri – sem æðsti stjórnandi bæjarins taki málið föstum tökum og vinni þetta mál í samstarfi við Umhverfis- og skipulagssvið. Án tafar.“

Alexander Ragnarsson, Birgitta Rún Birgisdóttir og Eyjólfur Gíslason Sjálfstæðisflokki.

Fundargerðin samþykkt að öðru leyti 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 295. fundar umhverfis- og skipulagsráðs 16. júní 2022

3. Fundargerð menningar- og atvinnuráðs 15. júní 2022 (2022010011)

Forseti gaf orðið laust. Til máls tóku Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Sverrir Bergmann Magnússon og Kjartan Már Kjartansson.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 34. fundar menningar- og atvinnuráðs 15. júní 2022

4. Fundargerð stjórnar Reykjaneshafnar 16. júní 2022 (2022010012)

Forseti gaf orðið laust. Til máls tók Hjörtur M. Guðbjartsson.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 264. fundar Stjórnar Reykjaneshafnar 16.06.2022

5. Málefnasamningur meirihluta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar 2022 – 2026 (2022060065)

Forseti gaf orðið laust. Til máls tók Bjarni Páll Tryggvason.

Til máls tók Birgitta Rún Birgisdóttir og lagði fram eftirfarandi bókun Sjálfstæðisflokks:

"Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að breytingum á almenningssamgöngum til og frá Leifsstöð verði flýtt þannig að starfsfólk eigi auðveldara með að sækja vinnu sína.

Í viðtali í fréttum við sviðsstjóra Umhverfis- og skipulagssviðs kom fram að ekki yrði ráðist í neinar breytingar fyrr en við endurskoðun samnings sem er eftir of langan tíma.

Þessi tímarammi er að okkar mati óásættanlegur og leggjum við til að ráðist verði í endurskoðun á tengingu strætókerfisins við Leifsstöð án tafar.“

Alexander Ragnarsson, Birgitta Rún Birgisdóttir og Eyjólfur Gíslason Sjálfstæðisflokki.

Forseti gaf orðið laust. Til máls tóku Kjartan Már Kjartansson og Guðný Birna Guðmundsdóttir.

Fylgigögn:

Málefnasamningur Beinnar leiðar, Framsóknar og Samfylkingar i Reykjanesbæ kjörtímabilið 2022-2026

6. Áhersluatriði Sjálfstæðisflokksins 2022-2023 (2022060385)

Forseti gaf orðið laust. Til máls tók Alexander Ragnarsson og kynnti áhersluatriði Sjálfstæðisflokksins.

Atvinnumál

    • Gerum átak í að ná nýjum fyrirtækjum til bæjarins. Þetta kallar á að við sækjum fyrirtæki og fylgjum eftir þeim tækifærum sem opnast.
    • Hlúum vel að þeim fyrirtækjum sem fyrir eru og aukum samtalið við þau.
    • Íþróttir
    • Aukum framlög til íþróttafélaga og verum samanburðarhæf við sambærileg sveitarfélög
    • Tengjum saman frístundastarf skólanna og íþróttahreyfingarinnar
    • Tryggjum reglubundið samráð við íþróttafélögin og meiri samvinnu
    • Tryggjum fleiri stöðugildi til íþróttafélaganna

Frístund og tómstundir

    • Opnum félagsmiðstöðvar í hverfunum í samstarfi við grunnskólana og Fjörheima
    • Opnum aftur og eflum Landnámsdýragarðinn

Eldri íbúar Reykjanesbæjar

    • Setjum meiri kraft í félagsstarf eldri íbúa utan Nesvalla og skoðum möguleikana innan hverfa
    • Veitum áfram öflugan stuðning við heilsueflingu eldri íbúa
    • Hefjum skoðun á fjölbreyttari búsetuúrræðum eldra fólks
    • Aukum samráð bæjarins við öldungaráð

Menningarmál

    • Vekjum athygli á sögu og menningu bæjarins til að laða að ferðamenn
    • Bætum í markaðssetningu á menningartengdum verkefnum Reykjanesbæjar og aukum aðsókn gesta
    • Verum óhrædd við að gera upp menningartengd verkefni og rýnum hvort þau skili þeim árangri sem vænta má m.t.t. tekna og útgjalda sveitarfélagsins

Skipulags- og umhverfismál

    • Eflum umhverfis-og skipulagssvið sveitarfélagsins
    • Stýrum af festu verklegum framkvæmdum og leggjum áherslu á góðan undirbúning áður en hafist er handa
    • Verum leiðbeinandi fyrir fólk og fyrirtæki í skipulagsmálum þannig að komist verði hjá ágreiningi
    • Gerum átak í að fegra bæinn með því að bæta slátt, bæta umhirðu trjáa og gróðurs, hreinsa götur og gönguleiðir
    • Setjum upp fjölskyldugarð/útisvæði fyrir fólk á öllum aldri í Innri- Njarðvík
    • Gerum fjölskylduvænt og aðlaðandi útivistarsvæði á Ásbrú

Strætó

    • Frítt í strætó á skólatíma
    • Aukum tíðni strætóferða
    • Komum á meiri samvinnu rekstraraðila strætó við skóla-, íþrótta- og tómstundastarf
    • Skipuleggjum frístundaakstur og strætisvagnaferðir með þarfir skóla-, íþrótta- og tómstundastarfs í huga
    • Tengjum strætókerfið við Leifsstöð m.t.t. þarfa starfsfólks og ferðamanna
    • Byggjum upp strætókerfi með þarfir notenda í huga

Fræðslumál

    • Förum strax í að semja við sem flestar menntastofnanir um kennaramenntun fyrir leiðbeinendur í Reykjanesbæ og þá sem áhuga hafa á að starfa í skólum bæjarins
    • Setjum upp skilvirkara kerfi fyrir foreldra vegna umsókna leikskólabarna þannig að hægt sé að sjá betur hvenær barn kemst inn í leikskóla
    • Hönnum strax þá leikskóla sem meirihlutinn sagði í kosningabaráttunni að stæði til að byggja, setjum fram áætlun um hvenær þeir verða teknir í notkun
    • Hefjum strax undirbúning að byggingu nýs grunnskóla á Ásbrú
    • Leggjum grunn að því að efla stuðningsþjónustu í skólum, endurskoðum stuðningskerfi innan skólanna sem er í höndum ófaglærðra

Umhverfismál

    • Fjölgum hraðhleðslustöðvum í Reykjanesbæ í samvinnu við einkaaðila þannig að Reykjanesbær verði leiðandi í orkuskiptum
    • Hröðum led væðingu sveitarfélagsins
    • Vekjum áhuga íbúa og fulltrúa fyrirtækja um áhrif þeirra og möguleika til kolefnisjöfnunar. Setjum á laggirnar gróðursetningarátak á lóðum í bænum í samstarfi við íbúa, félög og fyrirtæki.

Velferðarmál

    • Aukum áherslu á úrræði sem auka getu til sjálfsbjargar og lífsgæði til frambúðar og fækkum þannig þiggjendum fjárhagsaðstoðar Reykjanesbæjar
      • Styðjum vel við fólk sem þarfnast aðstoðar með það að markmiði að gera þörfina minni
      • Gerum þjónustuna skilvirkari og auðveldum fólki endurkomu á vinnumarkaðinn í samstarfi við fagaðila.
    • Setjum geðheilbrigðismál á oddinn og gerum þau sýnileg
    • Komum á auknu samstarfi stjórnenda HSS og sveitarfélagsins

Stjórnsýsla, fjármál

    • Lækkum fasteignaskatta og skoðum breytingar á lóðarleigu
    • Gerum skýra kröfu um hagkvæman rekstur þar sem sjálfsagt þykir að spyrja reglulega hvort gera megi betur
    • Komum á og eigum reglulega samráðsfundi með íbúum allra hverfa
    • Rýnum stöðugt hvar er hægt að gera betur og með hagkvæmari hætti
    • Vinnum ötullega að því að auka tekjur í takti við önnur sveitarfélög, án hækkunar skatta.

Alexander Ragnarsson, Birgitta Rún Birgisdóttir og Eyjólfur Gíslason Sjálfstæðisflokki.

Forseti gaf orðið laust. Til máls tóku Bjarni Páll Tryggvason, Alexander Ragnarsson, Hjörtur M. Guðbjartsson, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir og Guðný Birna Guðmundsdóttir.

7. Sumarleyfi bæjarstjórnar (2022060161)

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkir 11-0 með vísan til 35. gr. laga nr. 138/2011 og 48. gr. Samþykktar um stjórn Reykjanesbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar, að fela bæjarráði fullnaðarafgreiðslu mála á meðan sumarleyfi bæjarstjórnar stendur yfir frá 22. júní til 17. ágúst n.k. Næsti bæjarstjórnarfundur verður þriðjudaginn 23. ágúst 2022 í Merkinesi í Hljómahöll.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18:05.