696. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, haldinn í Stapa, Hljómahöll, 15. apríl 2025, kl. 17:00
Viðstaddir: Birgitta Rún Birgisdóttir, Bjarni Páll Tryggvason, Díana Hilmarsdóttir, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Helga Jóhanna Oddsdóttir, Hjörtur Magnús Guðbjartsson, Margrét A. Sanders, Margrét Þórarinsdóttir, Sigurrós Antonsdóttir og Valgerður Björk Pálsdóttir. Í forsæti var Guðný Birna Guðmundsdóttir.
Að auki sat fundinn Hrefna Gunnarsdóttir ritari.
Sverrir Bergmann Magnússon boðaði forföll, Hjörtur Magnús Guðbjartsson sat fyrir hann.
Guðbergur Reynisson boðaði forföll, Birgitta Rún Birgisdóttir sat fyrir hann.
1. Fundargerðir bæjarráðs 3. og 10. apríl 2025 (2025010003)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar.
Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir (U) og lagði fram eftirfarandi bókanir:
Mál fimm frá fundargerð bæjarráðs 3. apríl 2025, Fjárreiður Reykjanesbæjar (2024040272)
„Ég vil byrja á því að rifja upp bókun sem ég lagði fram þann 18. febrúar síðastliðinn, þar sem Umbót gagnrýndi harðlega þá ákvörðun meirihlutans að taka skammtímalán vegna lausafjárvanda hjá bæjarsjóði. Við bentum á að um væri að ræða alvarlegt ástand sem hefði mátt koma í veg fyrir með betri áætlanagerð og betri yfirsýn. Þá lögðum við áherslu á að það væri óásættanlegt að bæjarfulltrúar minnihlutans fengju ekki upplýsingar um þessa stöðu fyrr en lánabeiðnin var lögð fram í bæjarráði.
Í bókuninni var einnig vakin athygli á því að fjárhagsáætlanir skorti bæði nákvæmni og áreiðanleika og að reikningar sem tilheyrðu fyrra ári væru að koma til greiðslu eftir áramót. Við bentum á að framkvæmdir hefðu farið fram úr fjárfestingaráætlun og að kostnaður vegna ýmissa liða, s.s. búnaðarkaupa, viðhalds og ljósleiðaravinnu, væri umfram áætlanir. Þetta sýndi svart á hvítu að skortur væri á samræmingu og yfirsýn í fjármálastjórn Reykjanesbæjar.
Þrátt fyrir þessa skýru gagnrýni Umbótar í febrúar, blasir við okkur í dag enn alvarlegri staða.
Á fundi bæjarráðs þann 3. apríl kom fjármálastjóri og lagði fram minnisblað þar sem óskað er eftir heimild til að taka allt að 2,5 milljarða króna langtímalán.
Það er því ljóst að fjármálastjórn Reykjanesbæjar hefur ekki verið í samræmi við ábyrg vinnubrögð og raunhæfa áætlanagerð. Sé áætlun ekki í takt við þann raunveruleika sem er okkur ljós, er sú áætlun gerð til þess að bregðast.
Það er brýnt að stöðva þessa þróun, auka gagnsæi og taka höndum saman um að móta áreiðanlega og sjálfbæra fjármálastefnu.
Umbót ítrekar alvarlegar áhyggjur sínar af stöðu fjármála Reykjanesbæjar og þeirri fjármálastjórn sem meirihlutinn, Samfylkingin, Framsókn og Bein leið hafa viðhaft. Skortur á yfirsýn, vanáætlanir og ófullnægjandi upplýsingaflæði til kjörinna fulltrúa í minnihluta eru óásættanleg. Fjárfestingar hafa farið fram úr öllu valdi og ábyrg fjármálastjórn virðist víkja fyrir framkvæmdagleði.
Við getum ekki samþykkt frekari lántökur í framtíðinni nema raunveruleg og trúverðug endurskoðun fari fram á fjárhagsáætlun bæjarins, að unnið sé markvisst að því að ná fram jöfnuði í rekstri og að ábyrg fjármálastefna sé mótuð í samráði við alla bæjarfulltrúa.
Við krefjumst þess að unnin verði skýr og aðgengileg áætlun um sjóðstreymi, að framkvæmdum verði aðeins hrint í framkvæmd ef til staðar er raunverulegt fjármagn, og að upplýsingar um fjármál bæjarins verði reglubundið lagðar fram í bæjarráði og bæjarstjórn.
Við skuldum bæjarbúum traust, gegnsætt og ábyrgt rekstrarumhverfi og við verðum að standa undir þeirri ábyrgð. Það verður að koma skýrt fram að ábyrgðin á þessari stöðu liggur alfarið hjá meirihlutanum, Samfylkingunni, Framsókn og Beinni leið, sem hafa staðið að baki öllum ákvörðunum um fjármál sveitarfélagsins.“
Mál sex frá fundargerð bæjarráðs 3. apríl 2025, Fjárreiðunefnd Reykjanesbæjar (2025040024)
„Við í Umbót teljum að stofnun nýrrar fjárreiðunefndar sé óþörf, þar sem hlutverk nefndarinnar fellur nú þegar undir bæjarráð, ásamt fjármálastjóra, sem hefur komið á fundi bæjarráðs þegar þörf hefur verið á.
Við teljum að stofnun þessarar nýju nefndar sé beinlínis vegna fjárhagsvanda sveitarfélagsins, en við teljum að betri leið væri að bæta og styrkja núverandi ferla og þau úrræði sem þegar eru til staðar. Meirihlutinn, Samfylkingin, Framsókn og Bein leið ásamt fjármálastjóra, bera ábyrgð á fjárhagsstjórnun sveitarfélagsins.
Við teljum að meirihlutinn ætti að einbeita sér að því að bæta núverandi ferla, auka gagnsæi og ábyrgð í fjármálastjórnun og nýta það sem fyrir er. Ný nefnd ætti ekki að vera lausn á fjárhagslegum áskorunum sem sveitarfélagið stendur frammi fyrir, heldur væri það skilvirkara að bæta þau úrræði sem fyrir eru.
Við viljum því leggja til að meirihluti bæjarstjórnar endurskoði þessa ákvörðun.“
Margrét Þórarinsdóttir, Umbót
Til máls tók Helga Jóhanna Oddsdóttir (D) og lagði fram eftirfarandi bókun:
Mál fimm frá fundargerð bæjarráðs 3. apríl 2025, Fjárreiður Reykjanesbæjar (2024040272) og mál sex frá fundargerð bæjarráðs 3. apríl 2025, Fjárreiðunefnd Reykjanesbæjar (2025040024)
„Í dag, 15. apríl, samþykkjum við enn einu sinni lántöku sveitarfélagsins.
Á fundi bæjarráðs þann 3. apríl sl. var samþykkt að veita heimild til langtímafjármögnunar að fjárhæð 2,5 milljarðar og til að brúa bilið, skammtímalán að fjárhæð 1 milljarður. Svo mikið lá á að fá samþykki bæjarstjórnar fyrir skammtímafjármögnuninni að boða þurfti til aukafundar í bæjarstjórn daginn eftir, á föstudeginum 4. apríl, með rúmlega klukkustundar fyrirvara.
Fyrir fimm mánuðum, þann 19. nóvember sl., var tillaga bæjarráðs um heimild til lántöku upp á 2,5 milljarða hjá Lánasjóði sveitarfélaga samþykkt í bæjarstjórn. Aftur erum við að samþykkja nýtt langtímalán, en í bæjarráði þann 3. apríl sl. kom fram beiðni um 2,5 milljarðs króna langtímalán eins og fyrr segir.
Er von að maður spyrji sig, í hvaða farvegi stjórnun sveitarfélagsins sé undir forystu meirihluta Samfylkingar, Framsóknar og Beinnar leiðar, þegar halda þarf fyrirvaralausan auka fund bæjarstjórnar til að samþykkja skammtímalántöku á föstudags eftirmiðdegi, þrátt fyrir að bæjarstjórnarfundir séu haldnir hálfsmánaðarlega. Þriðjudaginn í sömu viku var fundur bæjarstjórnar og vitað að sá fundur sem hér er nú haldinn væri á dagskrá 10 dögum síðar.
Við bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins höfum ítrekað bent á að vanda þurfi áætlanagerð sveitarfélagsins og efla til muna. Þetta höfum við sagt í ljósi þess að við stöndum einnig frammi fyrir því að kostnaðaráætlanir standast ekki og kostnaði við verkefni jafnvel sleppt í áætlun.
Í bókun meirihlutans á bæjarstjórnarfundi þann 18. febrúar sl. kemur fram að meirihlutinn hagar áætlanagerð sinni þannig, að “áætla tekjur varlega í fjárhagsáætlunum síðustu ára”. Eins segir í sömu bókun “það er nefnilega betra að eiga meira fjármagn seinni hluta árs í stað þess að ofáætla tekjur og lenda svo í vandræðum og ná ekki endum saman”. Í sömu bókun tíundar meirihlutinn ýmsar ástæður þess að um tímabundinn sjóðstreymisvanda sé að ræða, telur upp fjölmörg verkefni sem unnið er að, og jafnvel einhver sem hafi reynst kostnaðarsamari en áætlað var.
Sjálfstæðisflokkurinn spyr því meirihluta Samfylkingar, Framsóknar og Beinnar leiðar; Er meirihlutinn sáttur við eigin vinnubrögð við fjárhagsáætlunargerð og stýringu sveitarfélagsins, sem endurspeglast í viðbrögðum undanfarinna mánaða? Getur verið að sú aðferð að vanáætla tekjur ár eftir ár, sé farin að hafa áhrif á trúverðugleika og gæði annara þátta innan áætlunarinnar?
Eins ítrekum við spurningu úr bókun okkar þann 18. febrúar sl. Sem hljóðaði þannig: Það er eitt er að þurfa að fara í lántökur, en er ekki lágmarkskrafa að það sé gert með góðum fyrirvara og stutt af góðum áætlunum til að lágmarka kostnað eins og hægt er?
Hvert er planið? Jú, eftir 11 ára setu í meirihluta liggur nú fyrir bæjarstjórnarfundi tillaga Samfylkingar, Framsóknar og Beinnar leiðar, að setja á laggirnar fjárreiðunefnd, sem skipuð skuli oddvitum allra flokka, fjármálastjóra og bæjarstjóra. Við bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins munum ekki styðja þá tillögu enda eru þessir aðilar nú í bæjarráði og teljum við eðlilegra að fjármál sveitarfélagsins verði sett á dagskrá á reglulegum fundum bæjarráðs sem haldnir eru vikulega. Í bæjarráði sitja nú þegar allir oddvitar stjórnmálaflokka auk bæjarstjóra og mun þá fjármálastjóri mæta undir þeim lið. Við teljum það vænlegra en að sett sé á laggirnar enn ein nefndin, skipaða sama hópi."
Helga Jóhanna Oddsdóttir, Margrét A. Sanders og Birgitta Rún Birgisdóttir, Sjálfstæðisflokki.
Til máls tók Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir.
Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir (U) og lagði fram eftirfarandi andsvör:
Mál fimm frá fundargerð bæjarráðs 3. apríl 2025, Fjárreiður Reykjanesbæjar (2024040272)
„Ég vil svara hér sitjandi bæjarstjóra Halldóru Fríðu Þorvaldsdóttur en hún sagði að okkur hefði öllum verið kunnugt um þessa lántöku. Það er alrangt enda fékk minnihlutinn vitneskju um lántökurnar á bæjarráðsfundunum þegar beiðnirnar um lántökuna komu fram.
Ég vil ítreka alvarlegar áhyggjur okkar í Umbót af því hvernig staðið hefur verið að fjárstýringu sveitarfélagsins og hvernig fjármálaákvarðanir eru teknar. Það er óumflýjanlegt að ræða fjárflæði og samræmingu framkvæmda við raunverulegt fjármagn, því hér er einfaldlega ekki verið að stýra útgjöldum með nægilegri yfirsýn.
Það liggur fyrir að stórar framkvæmdir, svo sem við Myllubakkaskóla, Holtaskóla og Drekavelli, voru fyrir fram þekktar og fjárfestingaráætlun unnin í kringum þær. Því á staðan í dag ekki að koma okkur á óvart. Það hefði verið hægt að stýra þessu betur, með skýrri fjárflæðiáætlun, sem væru lifandi skjöl sem tekið er mið af við ákvörðunartöku.
Í stað þess erum við að samþykkja skammtímalán og síðar langtímalán eftir á, nánast án fyrirvara, með mjög takmörkuðum gögnum og án þess að kjörnir fulltrúar hafi haft aðgang að upplýsingum fyrir fram. Þannig vinnubrögð teljum við einfaldlega óásættanleg.
Ef áætlanir um sjóðstreymi voru til, eins og þær ættu að vera innan rekstrarsviðs þá hljótum við að spyrja: Af hverju voru áætlanirnar ekki notaðar til að stýra fjármögnun tímanlega?
Af hverju eru verktakar nú sagðir bíða eftir greiðslum, með kröfur sem eru jafnvel komnar á eindaga? Við eigum að fá fram dagsetningar og yfirlit yfir slíkar skuldbindingar. Þetta snýst ekki um að vera með tortryggni, heldur að byggja upp traust og gagnsæi.
Það er ekki erfitt að forgangsraða framkvæmdum og taka ákvarðanir í takt við fjármagn. Það krefst vilja og samhæfingar milli deilda en einnig krefst það þess að upplýsingaflæði til bæjarfulltrúa sé tryggt, ekki aðeins meirihlutans heldur einnig minnihluta bæjarstjórnar.
Við í Umbót höfum sýnt það í verki að við viljum ábyrg fjármál og þess vegna komum við með þessa gagnrýni þegar við sjáum að staðan er að þróast í verri átt.“
Mál sex frá fundargerð bæjarráðs 3. apríl 2025, Fjárreiðunefnd Reykjanesbæjar (2025040024)
„Þetta er ekki upplýsingnefnd eins og formaður bæjarstjórnar Guðný Birna Guðmundsdóttir sagði, þetta er fjárreiðunefnd.
Það kemur mér ekki á óvart að meirihlutinn leggi mikla áherslu á stofnun þessarar nefndar. En við skulum hafa eitt á hreinu: Fjárhagsvandinn sem sveitarfélagið stendur frammi fyrir verður ekki leystur með því að stofna nýja nefnd, heldur með því að axla ábyrgð og endurskoða hvernig fjármálum hefur verið stýrt hingað til.
Þessi nýja nefnd er að mínu mati tilraun til að dreifa ábyrgðinni og draga minnihlutann inn í ákvarðanatöku sem hann hefur ekki átt aðkomu að fram til þessa. Meirihlutinn hefur farið með fullt ákvörðunarvald í fjárhagsmálum, hann samþykkti fjárhagsáætlunina, tók lánin og hefur mótað þá stefnu sem nú hefur leitt okkur í þessar aðstæður.
Ef vilji er til að auka yfirsýn og bæta vinnubrögð, þá er það hægt innan ramma bæjarráðs og þá þarf einfaldlega að gera það með meiri upplýsingagjöf, gagnsæi og virkri þátttöku allra bæjarfulltrúa. Það þarf ekki að setja á laggirnar enn eina nefndina til þess.
Að lokum vil ég undirstrika: Fjárreiðunefnd sem kemur til eftir að tvö stór lán hafa verið samþykkt, án þess að minnihlutinn hafi haft forsendur til að meta stöðuna fyrir fram, vekur eðlilega upp spurningar um tilgang og tímasetningu. Þetta er ekki leiðin til að byggja upp traust eða styrkja fjármál sveitarfélagsins.“
Margrét Þórarinsdóttir, Umbót
Til máls tóku Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Margrét A. Sanders, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Bjarni Páll Tryggvason og Helga Jóhanna Oddsdóttir.
Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir og lagði fram eftirfarandi bókun sem andsvar vegna máls fimm frá fundargerð bæjarráðs 3. apríl 2025, Fjárreiður Reykjanesbæjar (2024040272)
„Bæjarfulltrúi Bjarni Páll Tryggvason sagði að í máli mínu hefði komið fram að fjárfestingar hefur farið fram úr öllu valdi. Það er ekki rétt.
Við í Umbót bentum á að framkvæmdir hefðu farið fram úr fjárfestingaráætlun og að kostnaður vegna ýmissa liða, s.s. búnaðarkaupa, viðhalds og ljósleiðaravinnu, væri umfram áætlanir. Ég vil ítreka að Umbót samþykkti ekki fjárhagsáætlunargerðina.
Ég við einnig benda bæjarfulltrúa Bjarna Páli á að ég talaði einmitt um þessar stóru framkvæmdir eins og hann nefndi hefðu legið fyrir og nefndi þær, framkvæmdir við Myllubakkaskóla, Holtaskóla og Drekavelli, voru fyrir fram þekktar og fjárfestingaráætlun unnin í kringum þær. Því á staðan í dag ekki að koma okkur á óvart. Umbót telur því að Það hefði verið hægt að stýra þessu betur, með skýrri fjárflæðiáætlun, sem væru lifandi skjöl sem tekið er mið af við ákvörðunartöku.“
Margrét Þórarinsdóttir, Umbót
Til máls tóku Margrét A. Sanders og Guðný Birna Guðmundsdóttir.
Til máls tók Guðný Birna Guðmundsdóttir (S) og lagði fram eftirfarandi bókun meirihluta bæjarstjórnar:
Mál fimm frá fundargerð bæjarráðs 3. apríl 2025, Fjárreiður Reykjanesbæjar (2024040272)
„Reykjanesbær hefur nú aftur leitað í langtíma fjármögnun á bæjarsjóði, alls fyrir 2,5 milljarð í nýju langtímaláni og 1 milljarð í skammtíma fjármögnun.
Ástæður þessa má aðallega rekja til mikils framkvæmdahraða í byrjun árs 2025 sem mun hægja á síðar á árinu. Fjárfestingaráætlun fyrir árið 2025 gerði ráð fyrir 1.750 milljóna króna fjárfestinga yfir árið en framkvæmt var fyrir 1.450 milljónir fyrstu þrjá mánuði ársins.
Reykjanesbær á útistandandi kröfur á íslenska ríkið vegna samninga um samræmda móttöku flóttafólks og vegna samnings um uppbyggingu hjúkrunarheimilisins. Þessar upphæðir hlaupa á hundruðum milljóna.
Sveitarfélagið mun þurfa að horfa í sparnaðartillögur til framtíðar vegna 580 milljóna gats sem myndast hefur í fjárhagsáætlun ársins vegna hækkunar á kjarasamningum kennara. Þessi launahækkun var ekki í neinum áætlunum og þarf því að finna umrætt fjármagn með öðrum leiðum.
Alls eru 252 einstaklingar skráðir með aðsetur í Reykjanesbæ en greiða sitt útsvar annars staðar. Það
gefur augaleið að það myndast tekjugat vegna þessa. Sveitarfélög hafa í raun aðeins þrjá tekjustofna; fasteignaskatta, útsvar og tekjuframlag frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Þegar horft er til meðal útsvars 2024 eru þetta tekjur fyrir 179,2 milljónir sem sveitarfélagið verður af árlega.
Kæru íbúar:
Reykjanesbær er þessa dagana í umræðu um ársreikning 2024. Drögin að reikningnum sýna að skatttekjur eru 1.088 milljónum yfir áætlun en rekstrarniðurstaðan er 964 milljónum betri en áætlun gerði ráð fyrir. Skuldahlutfall bæjarsjóðs er 121,98% og skuldaviðmið er 97,75% fyrir árið 2024 sem er undir 150% hámarksviðmiðunum.
Þetta ástand hjá okkur er tímabundið. Reykjanesbær er að draga úr framkvæmdahraða enda mörg stór verkefni nýlega búin eða eru mjög langt komin. Unnið er að úrlausn varðandi útsvarstekjur og ýmis atriði í samráði við íslenska ríkið.
Reykjanesbær mun standa kröftuglega vakt í fjármálum sveitarfélagsins nú eins og undanfarin 11 ár. Gert var ráð fyrir lántöku á þessu tímabili þó að vísu ekki fyrir eins háa upphæð en eðlilegt er að horfa til lántöku eftir að við höfum fjármagnað framkvæmdir fyrir milljarða undanfarin ár fyrir eigið fé sem við höfðum safnað áður.“
Guðný Birna Guðmundsdóttir (S), Hjörtur Magnús Guðbjartsson (S), Sigurrós Antonsdóttir (S), Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir (B), Bjarni Páll Tryggvason (B), Díana Hilmarsdóttir (B) og Valgerður Björk Pálsdóttir (Y).
Forseti las upp eftir farandi bókun til samþykktar:
„Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkir hér með á bæjarstjórnarfundi þann 15. apríl 2025 að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga að höfuðstól allt að kr. 2.500.000.000, með lokagjalddaga þann 20. febrúar 2039, í samræmi við skilmála að lánasamningi sem liggja fyrir á fundinum og sem bæjarstjórnin hefur kynnt sér.
Bæjarstjórnin samþykkir að til tryggingar láninu (höfuðstól, uppgreiðslugjaldi auk vaxta, dráttarvaxta og kostnaðar), standa tekjur sveitarfélagsins, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, nánar tiltekið útsvarstekjum sínum og framlögum til sveitarfélagsins úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
Er lánið tekið til fjármagna skammtímafjármögnun sem tekin hefur verið á árinu 2025 sem nýtt var og verður í framkvæmdir á árinu s.s. nýbyggingar íþróttahúss og sundlaugar, tvenn húsnæði fyrir leikskóla og meiriháttar viðgerðir á tveimur skólabyggingum vegna rakaskemmda sem felur í sér að vera verkefni sem hefur almenna efnahagslega þýðingu, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.
Jafnframt er Regínu Fannýju Guðmundsdóttur, kt. "ekki birt", fjármálastjóra Reykjanesbæjar veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. sveitarfélagsins að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari, þ.m.t. beiðni um útborgun láns.“
Samþykkt 11-0.
Fundargerðirnar samþykktar 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 1510. fundar bæjarráðs 3. apríl 2025
Fundargerð 1511. fundar bæjarráðs 10. apríl 2025
2. Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 4. apríl 2025 (2025010011)
Forseti gaf orðið laust um eftirfarandi mál fundargerðarinnar frá 4. apríl til sérstakrar samþykktar.
Fjórða mál fundargerðarinnar Tæknivellir - deiliskipulag (2020120241) samþykkt 11-0 án umræðu.
Fimmta mál fundargerðarinnar Iðavellir 14b og Vatnsholt 2 - breyting á aðalskipulagi og nýtt deiliskipulag (2025030582) samþykkt 11-0 án umræðu.
Varðandi 5. mál þá eru þetta tvö erindi undir sama máli. En það er aðalskipulagshlutinn sem er endanleg afgreiðsla, deiliskipulagið kemur síðar.
Sjötta mál fundargerðarinnar Aðaltorg M12 - breyting á aðalskipulagi (2019060056) samþykkt 11-0 án umræðu.
Sjöunda mál fundargerðarinnar Fitjabraut 1b - ósk um lóðarstækkun (2025030586) samþykkt 11-0 án umræðu.
Áttunda mál fundargerðarinnar Keilisbraut 747 (2025030089) samþykkt 11-0 án umræðu.
Ellefta mál fundargerðarinnar Umsókn um nýtingarleyfi jarðsjávar í Eldisgarði (202109002) samþykkt 11-0 án umræðu.
Tólfta mál fundargerðarinnar Berghólabraut 3 - framlenging á afnotaleyfi á lóð (2023040518) samþykkt 11-0 án umræðu.
Þrettánda mál fundargerðarinnar Aðalskipulag Dalshverfi (2023080307) samþykkt 11-0 án umræðu.
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Enginn fundarmanna tók til máls.
Fundargerðin samþykkt að öðru leyti 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 362. fundar umhverfis- og skipulagsráðs 4. apríl 2025
3. Fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs 8. apríl 2025 (2025010005)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Valgerður Björk Pálsdóttir.
Fundargerðin samþykkt 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 193. fundar íþrótta- og tómstundaráðs 8. apríl 2025
4. Fundargerð lýðheilsuráðs 9. apríl 2025 (2025010006)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Guðný Birna Guðmundsdóttir.
Fundargerðin samþykkt 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 57. fundar lýðheilsuráðs 9. apríl 2025
5. Fundargerð velferðarráðs 10. apríl 2025 (2025010012)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Guðný Birna Guðmundsdóttir. Lagði forseti til að mál 2 Skjólið – húsnæðismál og mál 4 Faxabraut 13 – þjónustumiðstöð fyrir börn og vistheimili barna frá fundargerð velferðarráðs verði vísað til sviðsstjóra velferðarsviðs til frekari þarfagreiningar. Samþykkt 11-0.
Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir (U) og lagði fram eftirfarandi bókun:
Mál tvö frá fundargerð velferðarráðs frá 10. apríl 2025, Skjólið – húsnæðismál (2025010187)
„Ég vil vekja sérstaka athygli á brýnum húsnæðisvanda Skjólsins, mikilvægs frístundar- og skólaúrræðis fyrir börn og ungmenni með sértækar stuðningsþarfir, frá 5. bekk og upp í framhaldsskóla.
Á undanförnum árum hefur bæði fjöldi barna í Skjólinu aukist og stuðningsþarfir orðið flóknari. Skjólið er með aðstöðu í 88-húsinu en sú aðstaða hefur dregist verulega saman þar sem önnur starfsemi innan hússins hefur smám saman tekið yfir þau rými sem áður stóðu úrræðinu til boða. Núverandi aðstæður eru óásættanlegar og ógna bæði faglegu starfi og velferð barnanna.
Um er að ræða lögbundna þjónustu samkvæmt lögum nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Sveitarfélaginu ber lagaleg og siðferðileg skylda til að tryggja viðeigandi aðbúnað, öryggi og faglega þjónustu fyrir börn í þessum hópi.
Umbót fagnar því að Velferðarráð hafi lagt fram beiðni um að starfsemi Skjólsins verði færð í húsnæðið að Grænubraut 910, þar sem leikskólinn Drekadalur hefur verið starfræktur, þegar hann flytur í nýtt húsnæði. Ef sú tillaga verður samþykkt, væri það mikilvægt skref í átt að bættri aðstöðu, þó einungis tímabundin lausn.
Við í Umbót leggjum ríka áherslu á að samhliða þessari mögulegu tilfærslu verði þegar hafist handa við að finna framtíðarlausn fyrir Skjólið. Í því samhengi vil ég sérstaklega benda á eign sveitarfélagsins að Breiðbraut 645, 293 m² húsnæði með hjólastólaaðgengi, að hluta endurnýjað og nú þegar laust. Ég tel mikilvægt að það húsnæði verði skoðað alvarlega sem möguleg varanleg aðstaða fyrir Skjólið.
Ég skora á meirihlutann, Samfylkinguna, Framsókn og Beina leið að bregðast við af ábyrgð, ekki aðeins með tímabundnum úrræðum, heldur með langtímahugsun og samstöðu. Börnin sem nýta sér Skjólið eiga rétt á stöðugleika, góðum aðbúnaði og faglegum stuðningi og samfélagið ber þá skyldu að standa vörð um þann rétt.“
Margrét Þórarinsdóttir, Umbót.
Til máls tóku Margrét A. Sanders, Sigurrós Antonsdóttir, Bjarni Páll Tryggvason, Margrét Þórarinsdóttir, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir og Guðný Birna Guðmundsdóttir.
Fundargerðin samþykkt 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 442. fundar velferðarráðs 10. apríl 2025
6. Fundargerð atvinnu- og hafnarráðs 10. apríl 2025 (2025010004)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Hjörtur Magnús Guðbjartsson.
Til máls tók Birgitta Rún Birgisdóttir (D) og lagði fram eftirfarandi bókun:
Mál 6 frá fundargerð atvinnu- og hafnarráðs frá 10. apríl 2025, Samráðsnefnd atvinnu- og hafnarráðs og umhverfis- og skipulagsráðs (2025010264)
„Sjálfstæðisflokkurinn tekur undir bókun Sigurðar Guðjónssonar nefndarmanns í atvinnu- og hafnarráði. Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að vandað sé til verka, Fitjasvæðið skoðað í heild sinni og tryggt að hugsað sé til langtíma-skipulags varðandi umferðaflæði á Njarðarbraut, frá Fitjum að Fitjabakka. Á svæðinu er fyrirhuguð mikil atvinnuuppbygging, þar er nú þegar stór íbúabyggð sem enn á eftir að byggjast upp að fullu auk þess sem lífæð sveitarfélagsins liggur þarna í gegn.
Ljóst er að fyrirhuguð þróun og uppbygging svæðisins muni auka umferðarálag sem þegar er komið að þolmörkum. Því er brýnt að tryggja að allar framkvæmdir við gatnakerfið taki mið af svæðinu í heild og framtíðarsýn svo álagið valdi ekki óþarfa óþægindum fyrir íbúa og atvinnurekendur.“
Birgitta Rún Birgisdóttir, Margrét A. Sanders og Helga Jóhanna Oddsdóttir, Sjálfstæðisflokki.
Tillaga kom fram að vísa máli 6 Samráðsnefnd atvinnu- og hafnarráðs og umhverfis- og skipulagsráðs (2025010264) til frekari vinnslu bæjarstjóra. Samþykkt 11-0.
Til máls tóku Margrét Þórarinsdóttir, Hjörtur Magnús Guðbjartsson, Sigurrós Antonsdóttir og Margrét A. Sanders.
Fundargerðin samþykkt 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 296. fundar atvinnu- og hafnarráðs 10. apríl 2025
7. Fundargerð menntaráðs 11. apríl 2025 (2025010008)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina.
Til máls tók Helga Jóhanna Oddsdóttir og lagði fram eftirfarandi fyrirspurn: Ég óska eftir því að fá áreiðanlegar, tölulegar staðreyndir sem sýna meðalaldur barna þegar þau komast inn á leikskóla í dag og hvernig ferillinn og tímalínan, sem sýnir áætlaða lækkun meðalaldurs barna sem fá pláss, lítur út.
Til máls tók Guðný Birna Guðmundsdóttir.
Fundargerðin samþykkt 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 384. fundar menntaráðs 11. apríl 2025
8. Húsnæðisáætlun Reykjanesbæjar 2025 – síðari umræða (2025030033)
Lögð fram til seinni umræðu húsnæðisáætlun Reykjanesbæjar 2025.
Tillaga kom fram að vísa húsnæðisáætlun Reykjanesbæjar til frekari umræðu í bæjarráð 23. apríl 2025.
Samþykkt 11-0.
9. Ársreikningur Reykjanesbæjar 2024 – fyrri umræða (2025040164)
Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir starfandi bæjarstjóri fylgdi ársreikningi Reykjanesbæjar 2024 úr hlaði.
Enginn fundarmanna tók til máls.
Ársreikningi Reykjanesbæjar vísað til seinni umræðu í bæjarstjórn 6. maí 2025.
Samþykkt 11-0.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19:07.