699. fundur

03.06.2025 17:00

699. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, haldinn í Stapa, Hljómahöll, 3. júní 2025, kl. 17:00

Viðstaddir: Alexander Ragnarsson, Bjarni Páll Tryggvason, Díana Hilmarsdóttir, Guðbergur Reynisson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Margrét A. Sanders, Margrét Þórarinsdóttir, Sigurrós Antonsdóttir, Sverrir Bergmann Magnússon og Valgerður Björk Pálsdóttir. Í forsæti var Bjarni Páll Tryggvason.

Að auki sat fundinn Hrefna Gunnarsdóttir ritari.

Helga Jóhanna Oddsdóttir boðaði forföll, Alexander Ragnarsson sat fyrir hana.

1. Fundargerðir bæjarráðs 22. og 28. maí 2025 (2025010003)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar. Til máls tók Guðný Birna Guðmundsdóttir.

Fundargerðirnar samþykktar 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 1517. fundar bæjarráðs 22. maí 2025
Fundargerð 1518. fundar bæjarráðs 28. maí 2025

2. Fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs 20. maí 2025 (2025010005)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Valgerður Björk Pálsdóttir, Alexander Ragnarsson, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Guðbergur Reynisson, Guðný Birna Guðmundsdóttir og Bjarni Páll Tryggvason.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 194. fundar íþrótta- og tómstundaráðs 20. maí 2025

3. Fundargerð menningar- og þjónusturáðs 23. maí 2025 (2025010007)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Sverrir Bergmann Magnússon, Margrét A. Sanders, Margrét Þórarinsdóttir og Bjarni Páll Tryggvason.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 65. fundar menningar- og þjónusturáðs 23. maí 2025

4. Fundargerð sjálfbærniráðs 27. maí 2025 (2025010009)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Guðný Birna Guðmundsdóttir.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 61. fundar sjálfbærniráðs 27. maí 2025

5. Hönnun gatnamóta Njarðarbrautar, Fitjabakka og Bergáss (2022110639)

Forseti gaf orðið laust um 2. mál frá fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs sem frestað var á síðasta bæjarstjórnarfundi 20. maí 2025.

Til máls tók Guðný Birna Guðmundsdóttir (S) og lagði fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Samfylkingar, Framsóknarflokks og Beinnar leiðar:

„Mikilvægt er að leysa umferðarflæði um Njarðarbraut sem allra fyrst. Umferðin um veginn hefur aukist jafnt og þétt með fjölgun íbúa Reykjanesbæjar. Með aukinni umferð fylgir einnig aukin áhersla á öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda.

Fyrir bæjarstjórn liggur fyrir tillaga frá umhverfis- og skipulagsráði Reykjanesbæjar um að hefjast handa við uppbyggingu á stóru 48 metra hringtorgi við Fitjatorg. Sú framkvæmd getur farið af stað í sumar, mun bæta umferðarflæði um Njarðarbrautina og tekur við umferðarþunga um Fitjabakkahverfið. Sú afstaða var samþykkt tvisvar af öllum fulltrúum umhverfis- og skipulagsráðs og er studd af umferðargreiningu Eflu og mati sérfræðinga. Meirihluti bæjarstjórnar tekur undir þau sjónarmið og mun samþykkja tillögu ráðsins um að hefjast handa við uppbyggingu hringtorgsins við Fitjabakka.

Sú framkvæmd mun þó ekki leysa vandamál fyrir íbúa Ásahverfis sem komast seint út úr hverfinu sínu vegna mikillar umferðar. Eftir íbúafund kom bersýnilega í ljós að íbúar telja að umferðarstýrð ljós við Bergás muni ekki bæta aðgengi íbúa hverfisins að Njarðarbrautinni.

Til að leysa umferðarflæði frá Ásahverfi leggur meirihlutinn til að reist verði annað hringtorg við Bergás sem verður þó minna í sniðum en hringtorgið við Fitjabakka. Með því leysum við umferðarflæðið frá hverfinu sem mun væntanlega draga úr umferð íbúa yfir í Grænás.

Auk þess mun meirihlutinn halda áfram forgangsröðun sinni til að bæta umferðina um Grænás en það verkefni er í hönnun nú þegar og mun fara af stað strax á næsta ári. Samhliða því er stefna meirihlutans að setja undirgöng undir Grænás til að tryggja öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda.

Hringtorg við Njarðarbraut og Fitjabakka er bara fyrsta skrefið í bætingu á þessu svæði til framtíðar. Með þessum miklu framkvæmdum munum við létta á umferðarflæðinu um Njarðarbrautina, tryggja flæði umferðar frá Ásahverfinu og bæta umferð um Grænás. Þetta verður mikið framfararskref fyrir Reykjanesbæ í heild sinni.“

Bæjarfulltrúar Samfylkingar Guðný Birna Guðmundsdóttir, Sverrir Bergmann Magnússon og Sigurrós Antonsdóttir, bæjarfulltrúar Framsóknar Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Bjarni Páll Tryggvason og Díana Hilmarsdóttir og bæjarfulltrúi Beinnar leiðar Valgerður Björk Pálsdóttir.

Til máls tók Guðbergur Reynisson (D) og lagði fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Umbótar:

„Sjálfstæðisflokkurinn og Umbót lýsa ánægju sinni með fjölmennan íbúafund 2. júní síðastliðinn vegna hringtorgs við Fitjabakka / Njarðarbraut.

Eftir málefnalegar ábendingar íbúa og með hagsmuni þeirra sem og annarra íbúa Reykjanesbæjar og fyrirtækjaeigenda leggja Sjálfstæðisflokkurinn og Umbót eftirfarandi til.

1. Hafinn verði undirbúningur á hringtorgi sunnar en núna er áætlað þannig að það þjóni líka íbúum Ásahverfis og tefji síður umferð um Njarðarbraut.

2. Farið verði strax af stað með hönnun á undirgöngum fyrir gangandi vegfarendur undir Grænásveg, og kostnaðarmat gert. Kannað hvort möguleiki er á að hliðra til með aðrar framkvæmdir hjá bænum þannig að hægt sé að fara í undirgöngin fyrir næsta skólaár með öryggi barna í Ásahverfi í huga.

3. Farið verði af stað í hönnun á Njarðarbraut og aðliggjandi vegum frá Borgarvegi að Fitjum þannig að heildarmynd verði skýrari.

4. Skoða möguleika á að loka tímabundið fyrir umferð frá Grænásvegi inn í Ásahverfi.“

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks Guðbergur Reynisson, Margrét Sanders og Alexander Ragnarsson og bæjarfulltrúi Umbótar Margrét Þórarinsdóttir.

Til máls tóku Guðný Birna Guðmundsdóttir, Sigurrós Antonsdóttir, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Guðbergur Reynisson og Margrét A. Sanders.

Forseti gerir fundarhlé kl. 18:14.
Fundur aftur settur kl. 18:36.

Tekin fyrir tillaga Guðbergs Reynissonar um að fresta málinu. Tillagan felld 7-4.

Borin upp tillaga um að farið verði í framkvæmd við hringtorg við Fitjabakka í samræmi við tillögur umhverfis-og skipulagsráðs.

Samþykkt með 7 atkvæðum meirihluta bæjarstjórnar, Guðný Birna Guðmundsdóttir (S), Sverrir Bergmann Magnússon (S), Sigurrós Antonsdóttir (S), Bjarni Páll Tryggvason (B), Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir (B), Díana Hilmarsdóttir (B) og Valgerður Björk Pálsdóttir (Y).
Minnihluti bæjarstjórnar, Margrét A. Sanders (D), Guðbergur Reynisson (D), Alexander Ragnarsson (D) og Margrét Þórarinsdóttir (U) greiða atkvæði á móti.

Bæjarstjórn leggur til við umhverfis- og skipulagsráð að reisa annað hringtorg við Bergás.

Samþykkt með 7 atkvæðum meirihluta bæjarstjórnar, Guðný Birna Guðmundsdóttir (S), Sverrir Bergmann Magnússon (S), Sigurrós Antonsdóttir (S), Bjarni Páll Tryggvason (B), Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir (B), Díana Hilmarsdóttir (B) og Valgerður Björk Pálsdóttir (Y).
Minnihluti bæjarstjórnar, Margrét A. Sanders (D), Guðbergur Reynisson (D), Alexander Ragnarsson (D) og Margrét Þórarinsdóttir (U) sitja hjá.

Umhverfis- og skipulagsráði falið að hefja hönnun undirganga við Grænás. Samþykkt 11-0.

6. Staða í leikskólum - svör við fyrirspurnum (2025050381)

Á bæjarstjórnarfundi 20. maí sl. lögðu bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks fram fyrirspurn um þjónustuskerðingu hjá leikskólum Reykjanesbæjar á tímabilinu 1. september 2024 til 1. maí 2025.

Sverrir Bergmann Magnússon fór yfir svör við fyrirspurninni.

Til máls tók Margrét A. Sanders og lagði fram eftirfarandi bókun Sjálfstæðisflokks:

„Á síðasta bæjarstjórnarfundi var Sjálfstæðisflokkurinn með fyrirspurn vegna þjónustuskerðingu sem hefur orðið í leikskólum Reykjanesbæjar veturinn 2024 – 2025.
Sjálfstæðisflokkurinn undrast hversu mikil þjónustuskerðing hefur orðið, sérstaklega í Heiðarseli og Stapaskóla án þess að bæjarfulltrúar hafi haft vitneskju um málið.

Í Heiðarseli hefur þjónusta verið skert í alls 17 skipti í heild, þar af 16 skipti á haustmánuðum 2024. Stapaleikskóli hefur í heild skert þjónustu í alls 12 skipti þar af 9 skipti á vorönn.

Þrátt fyrir að stjórnendur hafi reynt að láta skerðinguna bitna sem minnst á börnum og fjölskyldum þá hefur þessi skerðing oft á tíðum verið með litlum sem engum fyrirvara og telur Sjálfstæðisflokkurinn ástæðu til að farið sé sérstaklega yfir málið í menntaráði og skoðað hvernig hægt er að bregðast við þannig að ekki komi til skerðingar.“

Margrét Sanders, Guðbergur Reynisson og Alexander Ragnarsson Sjálfstæðisflokki.

Til máls tóku Guðný Birna Guðmundsdóttir, Margrét A. Sanders, Bjarni Páll Tryggvason og Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir.

7. Fráveitusamþykkt Reykjanesbæjar - síðari umræða (2024030272)

Forseti gaf orðið laus um fráveitusamþykkt Reykjanesbæjar. Til máls tóku Margrét A. Sanders, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir og Bjarni Páll Tryggvason.

Fráveitusamþykkt Reykjanesbæjar samþykkt 11-0.

8. 700. fundur bæjarstjórnar (2025050386)

Bæjarstjórn samþykkir 11-0 að næsti fundur bæjarstjórnar verði 16. júní 2025.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19:15.