700. fundur

16.06.2025 17:00

700. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, haldinn í Stapa, Hljómahöll, 16. júní 2025, kl. 17:00

Viðstaddir: Guðný Birna Guðmundsdóttir, Díana Hilmarsdóttir, Guðbergur Reynisson, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Helga Jóhanna Oddsdóttir, Margrét A. Sanders, Margrét Þórarinsdóttir, Róbert Jóhann Guðmundsson, Sigurrós Antonsdóttir, Sverrir Bergmann Magnússon og Valgerður Björk Pálsdóttir. Í forsæti var Sverrir Bergmann Magnússon.

Að auki sat fundinn Hrefna Gunnarsdóttir ritari.

Bjarni Páll Tryggvason boðaði forföll, Róbert Jóhann Guðmundsson sat fyrir hann.

1. Fundargerðir bæjarráðs 5. og 12. júní 2025 (2025010003)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar. Til máls tók Guðný Birna Guðmundsdóttir.

Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir (U) og lagði fram eftirfarandi bókanir:

Mál 1 frá fundargerð bæjarráðs 12. júní 2025 Erindi frá Ríkislögreglustjóra (2025060149)

„Fulltrúi Umbótar leggur mikla áherslu á að tryggt verði að unnt sé að ráða þau 16–17 ára ungmenni sem lögreglustjóri bendir á í nýlegu bréfi, inn í vinnuskóla Reykjanesbæjar í sumar. Ljóst er að vinna fyrir þennan aldurshóps hefur mikið forvarnargildi, eflir tengsl við samfélagið og dregur úr áhættuhegðun og félagslegri einangrun.

Þrátt fyrir að fjárhagsáætlun hafi verið samþykkt í desember og bréfið borist seint þá afsakar það ekki að brugðist verði hratt og ábyrgðarfullt við þessu mikilvæga máli. Ekki hefur verið tekin ákvörðun enn enda formanni bæjarráðs falið að vinna áfram í málinu. Það skiptir miklu máli að sýna pólitískan vilja og finna þær 10 milljónir sem um ræðir en það er talið að verkefnið muni kosta það.

Fulltrúi Umbótar hvetur eindregið formann bæjarráðs og meirihlutann Framsóknarflokk, Samfylkingu og Beina leið til að gera það sem þarf. Þetta er spurning um forgangsröðun. Það sem við veljum að fjármagna segir meira en öll loforð.

Einnig má hrósa frumkvæði bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins Helgu Jóhönnu Oddsdóttur sem hvetur fyrirtæki til að taka við þessum ungmennum í grein í Víkurfréttum. En sú ábyrgð ætti ekki eingöngu að hvíla á einkaaðilum, ábyrgðin er hjá sveitarfélaginu og Reykjanesbær verður að ganga á undan með góðu fordæmi.“

Mál 3 frá fundargerð bæjarráðs 12. júní 2025 Farsæld barna á Suðurnesjum (2025060040)

„Ég fagna innilega því mikilvæga samstarfsverkefni sem nú er hafið um innleiðingu farsældarlaga á Suðurnesjum, í formi farsældarráðs og svæðisbundinnar aðgerðaáætlunar. Verkefnið fellur vel að þeirri sýn sem við í Umbót höfum, að þjónusta við börn og fjölskyldur sé samfelld, samræmd og manneskjuleg.

Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá að lögð er áherslu á samþættingu þjónustu í þágu barna og fjölskyldna og tryggja að hún byggi á samvinnu, skilningi og lausnamiðaðri nálgun.
Einnig er mikilvægt að þátttaka fagfólks, kjörinna fulltrúa og ekki síst notenda þjónustunnar, barna og fjölskyldna sé í forgrunni. Þannig byggjum við upp þjónustukerfi sem virkar í raun og mætir fólki þar sem það er statt.

Umbót lýsir fullum stuðningi við þetta verkefni og mun fylgja því eftir með ábyrgð og einurð. Við sjáum skýrt tækifæri til að efla þjónustu og samráð á Suðurnesjum og tryggja að farsæld barna verði ekki aðeins markmið á blaði heldur lifandi stefna í framkvæmd.“

Margrét Þórarinsdóttir, Umbót.

Fundargerðirnar samþykktar 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 1519. fundar bæjarráðs 5. júní 2025
Fundargerð 1520. fundar bæjarráðs 12. júní 2025

2. Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 6. júní 2025 (2025010011)

Forseti gaf orðið laust um eftirfarandi mál fundargerðarinnar frá 6. júní til sérstakrar samþykktar.

Þriðja mál fundargerðarinnar Aðaltorg - nýtt deiliskipulag (2024080041) samþykkt 11-0 án umræðu.
Fjórða mál fundargerðarinnar Breyting á deiliskipulagi - Vogshóll - Sjónarhóll (2023100048) samþykkt 11-0 án umræðu.
Fimmta mál fundargerðarinnar Njarðarbraut 11 - aðkoma á lóð (2025050554) samþykkt 11-0 án umræðu.
Sjötta mál fundargerðarinnar Flugvellir 1-3 - aðlögun að landhæð (2025060024) samþykkt 11-0 án umræðu.
Sjöunda mál fundargerðarinnar Flugvellir 17-21 - stækkun á lóð (2025050556). Til máls tók Róbert Jóhann Guðmundsson, benti hann á að ekki þyrfti að samþykkja málið þar sem því hafði verið frestað. Þakkaði forseti fyrir ábendinguna.
Tíunda mál fundargerðarinnar Aðaltorg - umsókn um framkvæmdaleyfi (2025050558) samþykkt 11-0 án umræðu.
Ellefta mál fundargerðarinnar Ásbrú kvaðir vegna fráveitu innan lóða (2025050562) samþykkt 11-0 án umræðu.

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Enginn fundarmanna tók til máls.

Fundargerðirnar samþykktar að öðru leyti 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 365. fundar umhverfis- og skipulagsráðs 6. júní 2025

3. Fundargerð velferðarráðs 5. júní 2025 (2025010012)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Sigurrós Antonsdóttir.

Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir (U) og lagði fram eftirfarandi bókun:

Mál 3 frá fundargerð velferðarráðs 5. júní 2025 Þjónusta við umsækjendur um alþjóðlega vernd – áhrif uppsagnar samnings (2024100122).

„Nú hefur það gerst sem við í minnihlutanum höfum lengi varað við. Ríkið hefur sagt upp samningi sínum við Reykjanesbæ um þjónustu við hælisleitendur. Við sitjum nú eftir með skuldbindingar, kostnað og langtíma húsaleigusamninga sem byggðir voru á þessum samningi. Þessi staða er alvarleg bæði fjárhagslega og siðferðislega.

Reykjanesbær hefur borið langstærstan hluta ábyrgðarinnar í móttöku flóttafólks og hælisleitenda. Við höfum tekið á móti yfir þúsund einstaklingum í senn, leigt húsnæði, ráðið starfsfólk og lagt samfélagið okkar undir mikinn þrýsting. Á sama tíma hafa mörg önnur sveitarfélög ýmist ekki tekið þátt eða gert það í miklu minna mæli.

Þrátt fyrir þessar staðreyndir hefur meirihlutinn, Samfylkingin, Framsókn og Bein leið ítrekað samþykkt samninga við ríkið ár eftir ár án þess að tryggja raunhæfa fjármögnun, skýrleika í ábyrgð eða samráð við íbúa. Við í Umbót höfum hins vegar frá upphafi sagt NEI. Við treystum ekki ríkisvaldinu til að standa við skuldbindingar sínar og því miður hefur reynslan sýnt að við höfðum rétt fyrir okkur.

Nú þegar ríkið hverfur frá borðinu, situr Reykjanesbær eftir með skuldir, þjónustuskyldur og húsaleigusamninga sem ekki er hægt að rifta með einu pennastriki. Meirihlutinn þarf nú að horfast í augu við afleiðingar ákvarðana sinna. Samningar sem þeir samþykktu ítrekað, þrátt fyrir gagnrýni og varnaðarorð, hafa nú leitt til þess að Reykjanesbær stendur einn með halla upp á 15 til 20 milljónir króna.

Við krefjumst þess að ríkið axli sína ábyrgð og endurgreiði Reykjanesbæ þann kostnað sem til hefur fallið. Jafnframt hvetjum við meirihlutann, Samfylkinguna, Framsókn og Beina leið til að sýna kjark og setja hagsmuni bæjarins í forgang, ekki áframhaldandi undanlát gagnvart ríkinu.

Ég vil spyrja meirihlutann.
Hversu margir þeirra einstaklinga sem fengið hafa alþjóðlega vernd í Reykjanesbæ eru nú sjálfstæðir á vinnumarkaði og hversu margir þurfa enn fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu?
Þetta snýst ekki um að hafna fólki í neyð heldur um að tryggja að ábyrgðin sé skýr, fjármögnun raunhæf og að sveitarfélagið sé ekki látið axla óeðlilega byrði eitt síns liðs.

Við í Umbót stöndum fast á kröfu um ábyrgð, gagnsæi og virðingu fyrir Reykjanesbæ og því fólki sem hér býr.“

Margrét Þórarinsdóttir, Umbót.

Til máls tóku Margrét A. Sanders, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Guðný Birna Guðmundsdóttir og Sigurrós Antonsdóttir.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 444. fundar velferðarráðs 5. júní 2025

4. Fundargerð menntaráðs 6. júní 2025 (2025010008)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Sverrir Bergmann Magnússon.

Til máls tók Helga Jóhanna Oddsdóttir (D) og lagði fram eftirfarandi bókun:

2.mál frá fundargerð menntaráðs 6. júní 2025 Verklag vegna undirmönnunar í leikskólum (2025050381)

„Á fundi bæjarstjórnar þann 3. júní sl. bárust svör við þeim spurningum sem undirrituð, fyrir hönd bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, hafði lagt fram á fyrri fundi og lúta að manneklu og lokunum deilda í leikskólum.

Í svörunum kom fram að unnið væri samkvæmt verklagi um viðbrögð við manneklu við lokun deilda. Ekki fengust svör við því hvaða áætlun væri í gangi til að leysa vandann og koma í veg fyrir endurteknar lokanir, eins og spurt var um, heldur einungis hver væru viðbrögð við vandanum og hverjir kæmu að því að ræða einstaka tilvik.

Frá því að við bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vöktum athygli á málinu, hefur þó eitthvað verið brugðist við og ráðning tveggja starfsmanna leyfð í Stapaskóla. Í fyrirspurn okkar tókum við fram að spurt væri um skólaárið, tímabilið frá 1. september 2024 til 1. maí 2025.

Ég vona að betri staða á vorönn í Heiðarskóla sé komin til að vera, þó hennar hafi ekki verið getið sérstaklega í fundargerð menntaráðs. Svo virðist sem menntaráð hafi kosið að líta eingöngu á það sem af er árinu 2025 og sleppa þannig að minnast á að vandi Heiðarsels á haustmánuðum 2024 hafi verið alvarlegur, 16 skipti á haustönn og fjórum sinnum varði lokun deildar í heilan dag. Stapaskóli hafði skert þjónustu 12 sinnum, þar af 9 sinnum á vorönn, en í 10 skipti af þessum 12 varði lokun deildar í heilan dag, þrátt fyrir nýtt fyrirkomulag í dymbilviku. Þau börn sem hafa oftast lent í skerðingum í heilan dag hafa þurft að vera heima í fjóra daga.

Tekið er fram að foreldrar hafi ekki þurft að greiða fyrir þann tíma sem skerðing varir frá áramótum. Skárra væri það nú!

Við bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fögnum því að menntaráð skuli hafa tekið málefnið til umfjöllunar og að stofnaður verði starfshópur til að vinna að lausn vandans. Ljóst er að þessi staða innan leikskóla Reykjanesbæjar veldur miklu álagi á starfsfólk. Stöðuna verður að leysa, svo draga megi úr álagi og koma í veg fyrir þá miklu röskun sem skerðing þjónustunnar hefur á barnafjölskyldur í Reykjanesbæ. Ég ítreka; Þau börn sem hafa oftast lent í skerðingum í heilan dag hafa þurft að vera heima í fjóra daga. Líkt og getið er í svörum við fyrirspurninni, hefur frídögum í leikskólum fjölgað umtalsvert undanfarin misseri vegna styttingar vinnuvikunnar, meðal annars með lokunum á milli jóla og nýárs og skráninga í dymbilviku. Koma þessir dagar til viðbótar við fimm vikna sumarlokanir, fimm skipulagsdaga, að minnsta kosti einn vetrarfrísdag og 3-4 skerta daga (skv. dagatali Heiðarsels fyrir núverandi skólaár). Orlofsdagar á vinnumarkaði eru á bilinu 24-30 á ári. Gera má ráð fyrir að ungt fólk, sé að meirihluta í hópi þeirra sem eru með á bilinu 24-25 orlofsdaga. Það er því ljóst að orlofsdagar foreldra duga ekki lengur til, hvað þá þegar fyrirvaralausar lokanir skella á til viðbótar. Það er óásættanlegt að heyra frá ungum foreldrum í Reykjanesbæ að þeir upplifi aukna streitu og ótta um starfsöryggi sitt vegna fyrirvaralausra fjarvista frá vinnu þegar leikskólar loka, til viðbótar við fjarvistir sem aðrir dagar krefjast. Það að foreldrar geti ekki betur treyst á þjónustu leikskóla er ekki boðlegt. Við því verðum við að bregðast af krafti og finna leiðir til að koma í veg fyrir vandann, ekki dugar að bregðast við honum, það þarf að ráðast að rótum hans.“

Helga Jóhanna Oddsdóttir, Margrét A. Sanders og Guðbergur Reynisson, Sjálfstæðisflokki.

Til máls tók Guðný Birna Guðmundsdóttir, Sverrir Bergmann Magnússon, Helga Jóhanna Oddsdóttir, Margrét A. Sanders og Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 386. fundar menntaráðs 6. júní 2025

5. Fundargerð stjórnar Eignasjóðs 10. júní 2025 (2025010010)

Forseti gaf orðið laust um eftirfarandi mál fundargerðarinnar frá 10. júní til sérstakrar samþykktar.

Fyrsta mál fundargerðarinnar Fjárfestingaverkefni 2025 (2024090522). Til máls tók Guðný Birna Guðmundsdóttir.

Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir (U) og lagði fram eftirfarandi bókun:

„Umbót lýsir yfir miklum vonbrigðum með að meirihlutinn – Samfylking, Framsókn og Bein leið – hafi samþykkt leið B við endurskipulagningu fjárfestingaráætlunar.

Leið B felur í sér frestun verkefna sem snúa beint að velferð barna og ungmenna, svo sem innanhúsframkvæmdir í skólum, tækjakaup og nauðsynlegar uppfærslur á leik- og grunnskólamannvirkjum. Á sama tíma blasir við veruleg kostnaðaraukning í einstökum verkefnum og engin heildarsýn um hvernig skuli bregðast við.

Þetta er ekki óhjákvæmileg lausn – heldur afleiðing vanstýringar.

Ítrekað hefur verið gripið til viðbótarlántöku án yfirsýnar. Fjárhagsáætlun ársins 2025 stenst ekki. Stór verkefni hafa farið langt fram úr áætlun og enn og aftur er brugðist við með því að taka fjármuni frá verkefnum sem snúa að börnum og ungmennum – í stað þess að horfast í augu við vandann og finna raunverulegar lausnir.

Furða vekur að ekkert samstillt mat virðist hafa farið fram milli sviða sveitarfélagsins. Er enginn heildarstjórn á verkefnunum? Hver ber ábyrgð á því að þetta gerist aftur og aftur?

Umbót hefur frá upphafi kallað eftir gagnsæi, ábyrgu verklagi og skýrri forgangsröðun sem horfir til framtíðar, ekki einungis skammtímalausna. Við höfum bent á vaxandi skuldasöfnun, ósamhæfðar ákvarðanir og skort á skýrri og framkvæmanlegri áætlun. Nú hefur það orðið ljóst að þetta er ekki einungis tilviljun, heldur viðvarandi mynstur.

Umbót getur ekki stutt fjárfestingaráætlun sem í reynd felur í sér að grunnþjónusta sveitarfélagsins beri skellinn vegna mistaka stjórnenda.

Við krefjumst þess að meirihlutinn viðurkenni alvarleika málsins og leggi fram aðgerðaáætlun ekki einungis í Excel-skjali, heldur í verki, með samráði, ábyrgð og skýrri stefnu til að stöðva þennan óstöðuga fjármálarekstur.“

Margrét Þórarinsdóttir, Umbót.

Forseti gerði fundarhlé kl. 18:09.
Fundur aftur settur kl. 18:26

Til máls tók Guðný Birna Guðmundsdóttir og lagði fram eftirfarandi bókun meirihluta bæjarstjórnar:

„Varðandi fjárfestingarverkefni ársins 2025 hjá Reykjanesbæ er mikilvægt að meirihlutinn árétti að þau verkefni sem ákveðið var að forgangsraða fjármunum í á þessu ári snúa eingöngu að börnum og ungmennum. Myllubakkaskóli og Holtaskóli hafa verið hvað lengst til í vinnslu, í þrjú og fjögur ár. Starfsemi leikskólans í Drekadal er komin að hluta til í Keili og er mjög mikilvægt að opna þann leikskóla í haust. Með ábyrgri fjármálastjórn er meirihlutinn, í takt við ráðleggingar fagmanna og allra stjórnarmanna í stjórn Eignasjóðs voru sammála um, að taka hagkvæmar ákvarðanir í fjárfestingum á árinu. Þeim verkefnum sem er slegið á frest verða framkvæmd um leið og fjármögnun gefur tilefni til.“

Guðný Birna Guðmundsdóttir (S), Sverrir Bergmann Magnússon (S), Sigurrós Antonsdóttir (S), Róbert Jóhann Guðmundsson (B), Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir (B), Díana Hilmarsdóttir (B) og Valgerður Björk Pálsdóttir (Y).

Fyrsta mál fundargerðarinnar Fjárfestingaverkefni 2025 samþykkt með 7 atkvæðum meirihlutans. Minnihlutinn Guðbergur Reynisson, Margrét A. Sanders og Helga Jóhanna Oddsdóttir Sjálfstæðisflokki og Margrét Þórarinsdóttir Umbót sitja hjá.

Til máls tók Guðný Birna Guðmundsdóttir og bar upp tillögu að máli 8 Hafnargata 2a - Svarta pakkhúsið (2025060128) og máli 9 Hafnargata 2 - Fischershús (2025060129) verði vísað til umhverfis- og skipulagsráðs til frekari vinnslu.

Til máls tók Margrét A. Sanders.

Forseti bar upp tillöguna og var hún samþykkt 11-0.

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina.

Til máls tók Guðbergur Reynisson (D) og bar upp eftirfarandi bókun:

„Sjálfstæðisflokkurinn samþykkti ekki fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar fyrir árið 2025, og taldi að fjárfestingar væru vanáætlaðar og bókaði þá m.a.:

- Reykjanesbær á í miklum erfiðleikum með að standa undir fjárfestingaþörfum s.s. að ljúka við framkvæmdir við Myllubakkaskóla og Holtaskóla vegna stöðunnar og ekki hægt að ráðast í nauðsynlegar framkvæmdir.

- Ekki er gert ráð fyrir hlut sveitarfélagsins í nýju hjúkrunarheimili í fjárhagsáætlun.

- Á sama tíma er ekki gert ráð fyrir frekari kostnaði við að reyna að troða bókasafninu í okkar öflugu Tónlistarhöll sem er alls ekki lokið.

- Við teljum að fjárfestingar séu vanáætlaðar í fjárhagsáætlun, söknuðum við þess að rýnt væri ítarlega í almennan rekstur og tækifæri til hagræðingar sem finna mætti þar.
Ofangreint, sem við höfum ítrekað áður, virðist því miður hafa raungerst.

Sjálfstæðisflokkurinn ítrekar mikilvægi þess að fjármálin séu tekin fastari tökum sem og stjórnun sveitarfélagsins í heild. Einnig leggjum við til að fjármál sveitarfélagsins sé tekin sérstaklega fyrir á hverjum einasta bæjarráðsfundi þannig að allir bæjarfulltrúar verði upplýstir um stöðuna.“

Guðbergur Reynisson, Margrét A. Sanders, Helga Jóhanna Oddsdóttir, Sjálfstæðisflokki.

Til máls tóku Guðný Birna Guðmundsdóttir, Margrét A. Sanders og Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir.

Fundargerðin samþykkt að öðru leyti 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 19. fundar stjórnar Eignasjóðs 10. júní 2025

6. Fundargerð atvinnu- og hafnarráðs 12. júní 2025 (2025010004)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina.

Fundargerðin samþykkt 11-0 án umræðu.

Fylgigögn:

Fundargerð 298. fundar atvinnu- og hafnarráðs 12.06.25

7. Atvinnustefna Reykjanesbæjar 2025-2035 – fyrri umræða (2023020501)

Guðný Birna Guðmundsdóttir fylgdi atvinnustefnu Reykjanesbæjar úr hlaði.

Forseti gaf orðið laust. Til máls tók Margrét A. Sanders

Atvinnustefnu Reykjanesbæjar 2025-2035 vísað til seinni umræðu í bæjarstjórn 19. ágúst 2025.

8. Kosningar til eins árs samkvæmt samþykkt um stjórn Reykjanesbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar nr. 1150/2024 (2024010091)

Forseti bæjarstjórnar og 2 varaforsetar sbr. 15. gr.

Til máls tóku Guðný Birna Guðmundsdóttir og Margrét A. Sanders.

Forseti gerði fundarhlé kl. 18:56.
Fundur aftur settur kl. 19:00.

8.1. Sverrir Bergmann Magnússon óskaði eftir tilnefningu um forseta bæjarstjórnar. Tillaga kom um Guðnýju Birnu Guðmundsdóttur (S) sem forseta bæjarstjórnar og var hún sjálfkjörin.

8.2. 1. varaforseti. Uppástunga kom um Bjarna Pál Tryggvason (B) og var hann sjálfkjörin.

8.3. 2. varaforseti. Uppástunga kom um Guðberg Reynisson (D) og var hann sjálfkjörinn.

2 aðalskrifarar og 2 varaskrifarar sbr. 16. gr.

8.4. Aðalskrifarar. Uppástunga kom um Díönu Hilmarsdóttur (B) og Helgu Jóhönnu Oddsdóttur (D) og voru þær sjálfkjörnar.

8.5. Varaskrifarar. Uppástunga kom um Valgerði Björk Pálsdóttur (Y) og Guðberg Reynisson (D) og voru þau sjálfkjörin.

Bæjarráð - 5 aðalmenn sbr. 57. gr. A

Forseti gerði fundarhlé kl. 19:04.
Fundur aftur settur kl. 19:12.

8.6.Uppástunga kom um aðalmenn: Bjarna Pál Tryggvason (B), Halldóru Fríðu Þorvaldsdóttur (B), Guðnýju Birnu Guðmundsdóttur (S), Margréti Þórarinsdóttur (U), og Margréti Ólöfu A. Sanders (D) og voru þau sjálfkjörin.

9. Sumarleyfi bæjarstjórnar (2025060083)

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkir með vísan til 35. gr. laga nr. 138/2011 og 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjanesbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar, að fela bæjarráði fullnaðarafgreiðslu mála á meðan sumarleyfi bæjarstjórnar stendur yfir frá 17. júní til 13. ágúst 2025. Næsti bæjarstjórnarfundur verður þriðjudaginn 19. ágúst 2025 í Stapa Hljómahöll.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19:14.