- Þjónusta
- Velferð og stuðningur
- Menntun og fræðsla
- Skipulags-, bygginga- og umhverfismál
- Íþróttir og tómstundir
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- Mitt Reykjanes
Viðstaddir: Alexander Ragnarsson, Bjarni Páll Tryggvason, Díana Hilmarsdóttir, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Guðbergur Reynisson, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Helga María Finnbjörnsdóttir, Margrét A. Sanders, Margrét Þórarinsdóttir, Sigurrós Antonsdóttir og Sverrir Bergmann Magnússon. Í forsæti var Guðný Birna Guðmundsdóttir.
Að auki sátu fundinn Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.
Valgerður Björk Pálsdóttir boðaði forföll og sat Helga María Finnbjörnsdóttir fundinn í hennar stað.
Helga Jóhanna Oddsdóttir boðaði forföll og sat Alexander Ragnarsson fundinn í hennar stað.
Tímabundnar breytingar embætta í bæjarstjórn og bæjarráði sem samþykktar voru á bæjarstjórnarfundi 6. maí 2025 falla úr gildi þar sem Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri hefur snúið til starfa frá og með 1. september 2025 að loknu veikindaleyfi.
Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir sem hefur verið starfandi bæjarstjóri tekur við embætti formanns bæjarráðs og Guðný Birna Guðmundsdóttir við embætti varaformanns bæjarráðs.
Guðný Birna Guðmundsdóttir tekur við embætti forseta bæjarstjórnar, Bjarni Páll Tryggvason við embætti 1. varaforseta bæjarstjórnar og Guðbergur Reynisson við embætti 2. varaforseta.
Forseti gaf orðið laust. Til máls tók Margrét A. Sanders.
Breytingar á skipan embætta í bæjarstjórn og bæjarráði samþykktar 11-0.
Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar. Til máls tóku Margrét A. Sanders, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Margrét Þórarinsdóttir, Guðbergur Reynisson, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Bjarni Páll Tryggvason, Alexander Ragnarsson og Kjartan Már Kjartansson.
Til máls tók Margrét A. Sanders (D) og lagði fram eftirfarandi bókun:
Mál 2 frá fundargerð bæjarráðs 28. ágúst 2025, Fjárhagsáætlun 2026-2029 (2025060320)
„Samfylkingin, Framsókn og Bein leið leggja til við upphaf fjárhagsáætlunar að fasteignaskattar á íbúðarhúsnæði hækki um 9% á milli ára og fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði um 10%. Álagningarhlutfallið er það sama og síðasta ár en vegna hækkunar fasteignamats þýðir þetta mikla hækkun á fólk og fyrirtæki.
Það er með öllu óásættanlegt að hefja vinnu við fjárhagsáætlun með því að ákveða að hækka fasteignaskatta áður en vinna er fyrir alvöru hafin. Vaxtastig er hátt í landinu og það þrengir að heimilum og fyrirtækjum. Reykjanesbær á að sýna gott fordæmi og beita aðhaldi í rekstri og halda skattlagningu í hófi. Sjálfstæðisflokkurinn greiðir því atkvæði á móti fyrstu drögum að ramma fjárhagsáætlunar.“
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks Margrét Sanders, Guðbergur Reynisson og Alexander Ragnarson.
Forseti gerði fundarhlé kl. 17:09.
Fundur aftur settur kl. 17:27.
Guðný Birna Guðmundsdóttir (S) tók til máls og lagði fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Samfylkingar, Framsóknarflokks og Beinnar leiðar:
Mál 2 frá fundargerð bæjarráðs 28. ágúst 2025, Fjárhagsáætlun 2026-2029 (2025060320)
„Meirihlutinn telur óábyrgt af Sjálfstæðisflokknum að halda því fram í ræðustóli bæjarstjórnar að búið sé að ákveða að hreyfa ekki við lækkun á álagningu fasteignaskatts.
Vinna við fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar fyrir árið 2026 er rétt farin af stað.
Áætlanir sem byggt er á, svokallaðir rammar, fóru til sviðsstjóra í vinnslu í gær. Sviðsmyndir fjárhagsáætlunar með mismunandi lækkun á álagningarhlutfalli fasteignaskatts eru ekki tilbúnar svo að hægt sé að taka ákvörðun um það á degi tvö.
Þessi meirihluti hefur ítrekað lækkað álagningarhlutfall fasteignaskatts fyrir íbúa Reykjanesbæjar á undanförnum árum.
Ekki stendur til, nú né fyrr, að hækka álagningarhlutfallið.“
Bæjarfulltrúar Samfylkingar Guðný Birna Guðmundsdóttir, Sverrir Bergmann Magnússon og Sigurrós Antonsdóttir, bæjarfulltrúar Framsóknar Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Bjarni Páll Tryggvason og Díana Hilmarsdóttir, bæjarfulltrúi Beinnar leiðar Helga María Finnbjörnsdóttir.
Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir (U) og lagði fram eftirfarandi bókanir:
Mál 2 frá fundargerð bæjarráðs 28. ágúst 2025, Fjárhagsáætlun 2026-2029 (2025060320)
„Umbót vill vekja athygli á því að hækkun á fasteignamati íbúðareigna um 9% mun hafa bein áhrif til samsvarandi hækkunar á álögðum fasteignagjöldum heimila í Reykjanesbæ.
Við teljum að tími sé kominn til að lækka álagningarprósentu fasteignagjalda til að koma þó ekki væri nema að hluta til móts við íbúa bæjarfélagsins. Sérstaklega þarf að hafa í huga að fasteignamatið hefur hækkað hvað mest hér á svæðinu vegna Grindavíkuráhrifa. Þannig hafa álögur á íbúa Suðurnesja hækkað umfram álögur á íbúa annarra sveitarfélaga.
Umbót hvetur til þess að tekin verði skref til að draga úr þessum byrðum og tryggja að hækkun fasteignagjalda verði ekki eins þungbær fyrir íbúana og verður ef ekkert er að gert. Ég hvet því meirihluta Framsóknar, Samfylkingar og Beinnar leiðar að létta á þessum byrðum með því að lækka álagningarprósentuna. Með því verður hægt að draga úr hækkunum fasteignagjalda í krónum talið og sýna raunverulegt aðhald og ábyrgð gagnvart íbúum.
Umbót mun ekki samþykkja þennan lið.“
Bæjarfulltrúi Umbótar Margrét Þórarinsdóttir.
Mál 5 frá fundargerð bæjarráðs 28. ágúst 2025, Starfsmannamál (2025080466)
„Umbót getur ekki tekið undir að auglýst verði í starf sviðsstjóra menningar- og þjónustusviðs að svo stöddu.
Við blasir að bæjarsjóður stendur frammi fyrir grafalvarlegri fjárhagsstöðu. Handbært fé var 0 krónur í lok júní 2025, skuldir hafa aukist um milljarða og lánsfjármögnun er orðin burðarás í rekstrinum. Í þessari stöðu er óábyrgt að fjölga í dýrum stjórnendastörfum í stað þess að nýta tækifærið til að hagræða í stjórnsýslunni.
Við teljum að í ljósi aðstæðna sé nauðsynlegt að endurskoða stjórnsýsluna í heild, þar sem meðal annars verði skoðað hvort verkefni menningar- og þjónustusviðs verði færð undir önnur svið eða sameinuð. Það er ábyrgðarhluti að forgangsraða grunnþjónustu og verkefnum sem snúa beint að íbúum og ekki að stækka yfirstjórn þegar fjármál sveitarfélagsins eru í ójafnvægi.“
Bæjarfulltrúi Umbótar Margrét Þórarinsdóttir.
Til máls tók Guðbergur Reynisson (D) og lagði fram eftirfarandi bókun:
Mál 5 frá fundargerð bæjarráðs 28. ágúst 2025, Starfsmannamál (2025080466)
„Sjálfstæðisflokkurinn leggst alfarið gegn því að auglýsa stöðu sviðsstjóra menningar- og þjónustusviðs að svo stöddu. Í nokkurn tíma hefur verið rætt um að færa ferðamálin yfir til atvinnu-og hafnarráðs, nú er tækifæri til þess. Skoða þarf vel með starfsmönnum hvernig best er að hafa fyrirkomulag menningar og þjónustu. Við erum með frábæran menningarfulltrúa, yfirmenn hinna ýmsu safna o.s.frv. Einnig eru yfirmenn yfir hinum ýmsu þjónustuhlutum. Í ljósi stöðu sveitarfélagsins, teljum við ráðlegt að fara betur yfir málið þar sem möguleiki er þar á hagræðingu.
Sjálfstæðisflokkurinn leggur til að ákvörðun um að auglýsa stöðu sviðsstjóra menningar- og þjónustusviðs verði frestað og skoðað verði hvort ekki sé möguleiki til hagræðingar eða að nýting á fjármagni verði betri.“
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks Guðbergur Reynisson, Margrét Sanders og Alexander Ragnarsson.
Til máls tók Margrét A. Sanders (D) og lagði fram eftirfarandi bókun Sjálfstæðisflokks og Umbótar:
Mál 10 frá fundargerð bæjarráðs 28. ágúst 2025, Fjárreiður Reykjanesbæjar (2025040024)
„Sjálfstæðisflokkurinn og Umbót samþykkja viðbótarlánveitingu upp á 700 milljónir við þá 2,5 milljarða lántöku sem þegar hefur verið samþykkt, eða samtals 3,2 milljarða lán.
Viðbótarlántökunni er ætlað að greiða fyrir verkefnum við leikskólann Drekadal, Myllubakkaskóla og Holtaskóla þannig að hægt sé að ljúka þeim framkvæmdum sem fyrst. Meirihluti Samfylkingar, Framsóknar og Beinnar leiðar lögðu einnig til að bæta við lántökuna 800 milljónum „til að halda áfram dampi í framkvæmdum og eiga fyrir ófyrirséðu“ eins og segir í tillögum meirihlutans.
Sjálfstæðisflokkurinn og Umbót telja sig ekki geta samþykkt þessa viðbótar 800 milljóna lántöku án þess að skilgreint sé betur í hvað fjármunirnir eigi að fara enda mikilvægt að ábyrg fjármálastjórn sé til staðar til þess að skapa aðhald.
Sjálfstæðisflokkurinn og Umbót leggja mikla áherslu á að ljúka sem fyrst við framkvæmdir Holtaskóla, Myllubakkaskóla og leikskólans Drekadals og ítrekar að ábyrg fjármálastjórn felur í sér að áætlanir standist. Við höfum ítrekað bent á að fjárhagsáætlanir meirihlutans hafi brugðist. Framhaldið verður að vera unnið með skýrri forgangsröðun, gagnsæi og reglulegri framsetningu á fjárhagsstöðu verkefnanna og fjárhagsstaða verkefna skoðuð í samræmi við áætlanir.
Leggja þarf áherslu á góða fjármála- og framkvæmdastýringu þessara verkefna og að farið sé reglulega yfir hvar misbrestur hefur orðið á miðað við þær áætlanir sem liggja fyrir.“
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks Margrét Sanders, Guðbergur Reynisson og Alexander Ragnarsson, bæjarfulltrúi Umbótar Margrét Þórarinsdóttir.
Forseti las upp eftir farandi bókun til samþykktar:
Mál 10 frá fundargerð bæjarráðs 28. ágúst 2025, Fjárreiður Reykjanesbæjar (2025040024)
„Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkir hér með á bæjarstjórnarfundi þann 2. september 2025 að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga að höfuðstól allt að kr. 4.000.000.000,- , með lokagjalddaga þann 20. febrúar 2039 og 5. nóvember 2055 í samræmi við skilmála að lánasamningi sem liggja fyrir á fundinum og sem bæjarstjórnin hefur kynnt sér.
Bæjarstjórnin samþykkir að til tryggingar láninu (höfuðstól, uppgreiðslugjaldi auk vaxta, dráttarvaxta og kostnaðar), standa tekjur sveitarfélagsins, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, nánar tiltekið útsvarstekjum sínum og framlögum til sveitarfélagsins úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
Er lánið tekið til að fjármagna skammtímafjármögnun sem tekin hefur verið á árinu 2025 og nýja lántöku sem nýtt verður í forgangsverkefni bæjarstjórnar Reykjanesbæjar; leikskólann í Drekadal og áframhaldandi uppbyggingu á grunnskólunum Myllubakkaskóla og Holtaskóla vegna rakaskemmda. Verkefnin fela í sér að vera verkefni sem hafa almenna efnahagslega þýðingu, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.
Jafnframt er Regínu Fannýju Guðmundsdóttur, kt. (ekki birt), fjármálastjóra Reykjanesbæjar veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. sveitarfélagsins að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari, þ.m.t. beiðni um útborgun láns.“
Samþykkt með 7 atkvæðum bæjarfulltrúa Samfylkingar Guðnýjar Birnu Guðmundsdóttur, Sverris Bergmanns Magnússonar og Sigurrósar Antonsdóttur, bæjarfulltrúa Framsóknar Halldóru Fríðu Þorvaldsdóttur, Bjarna Páls Tryggvasonar og Díönu Hilmarsdóttur og bæjarfulltrúa Beinnar leiðar Helgu Maríu Finnbjörnsdóttur.
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks Margrét Sanders, Guðbergur Reynisson og Alexander Ragnarsson og bæjarfulltrúi Umbótar Margrét Þórarinsdóttir sátu hjá.
Tekin fyrir tillaga Guðbergs Reynissonar um að fresta fimmta máli frá fundargerð bæjarráðs 28. ágúst 2025.
Tillagan felld með 7 atkvæðum meirihluta gegn 4 atkvæðum minnihluta.
Margrét A. Sanders (D), Guðbergur Reynisson (D) og Alexander Ragnarsson (D) greiddu atkvæði gegn 2. máli fundargerðar bæjarráðs frá 28. ágúst 2025. Margrét Þórarinsdóttir (U) sat hjá við afgreiðslu málsins.
Margrét A. Sanders tók ekki þátt í afgreiðslu þriðja máls á dagskrá bæjarráðs frá 21. ágúst 2025.
Margrét A. Sanders (D), Guðbergur Reynisson (D), Alexander Ragnarsson (D) og Margrét Þórarinsdóttir (U) greiddu atkvæði gegn 5. máli fundargerðar bæjarráðs frá 28. ágúst 2025.
Fundargerðirnar samþykktar að öðru leyti 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 1527. fundar bæjarráðs 21. ágúst 2025
Fundargerð 1528. fundar bæjarráðs 28. ágúst 2025
Forseti gaf orðið laust um eftirfarandi mál fundargerðarinnar til sérstakrar samþykktar:
Fjórða mál fundargerðarinnar Hafnargata 12 - breyting á deiliskipulagi (2020040425) samþykkt 11-0 án umræðu.
Fimmta mál fundargerðarinnar Hólagata - umferðarmál (2025050040) samþykkt 11-0 án umræðu.
Sjötta mál fundargerðarinnar Selvík 1 (2021010222) samþykkt 11-0 án umræðu.
Sjöunda mál fundargerðarinnar Flugvellir 17 (2025070155) samþykkt 11-0 án umræðu.
Áttunda mál fundargerðarinnar Vitabraut 7 - breyting á deiliskipulagi (2025070106) samþykkt 11-0 án umræðu.
Níunda mál fundargerðarinnar Bjarkardalur 10b (2025070231) samþykkt 11-0 án umræðu.
Tíunda mál fundargerðarinnar Blikabraut 8 - innkeyrsla (2025080294) samþykkt 11-0 án umræðu.
Ellefta mál fundargerðarinnar Ljósleiðarinn - framkvæmdaleyfi (2025080305) samþykkt 11-0 án umræðu.
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Guðbergur Reynisson og Margrét A. Sanders.
Til máls tók Guðbergur Reynisson og lagði fram eftirfarandi bókun:
Mál 12 frá fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 22. ágúst 2025, Reykjanesbraut - Rósaselstorg - breyting á aðalskipulagi Suðurnesjabæjar 2022-2034 (2022030582)
„Bæjarstjórn Reykjanesbæjar lýsir ánægju yfir hve vel gengur að hanna og forvinna tvöföldun Reykjanesbrautar ofan Reykjanesbæjar.
Bæjarstjórn vill hvetja ríkisstjórn og alþingismenn sem og samgönguráð og samgöngunefnd Alþingis til að flýta tvöföldun Reykjanesbrautar enda er vinna við samgönguáætlun að hefjast á næstu dögum.
Það er ólíðandi að við þurfum að bíða í 10 ár héðan í frá og í allt að 40 ár eftir að 40 kílómetra vegkafli sem ber yfir 25.000 bíla á sólarhring verði tvöfaldaður.
Kaflinn frá Fitjum upp að Flugstöð Leifs Eiríkssonar er eini kaflinn sem er eftir og er á Samgönguáætlun 2029 til 2035.
Við leggjum til að þeirri framkvæmd verði flýtt.“
Samþykkt 11-0.
Fundargerðin samþykkt að öðru leyti 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 370. fundar umhverfis- og skipulagsráðs 22. ágúst 2025
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Guðný Birna Guðmundsdóttir.
Fundargerðin samþykkt 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 20. fundar stjórnar eignasjóðs 21. ágúst 2025
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Alexander Ragnarsson og Guðný Birna Guðmundsdóttir.
Fundargerðin samþykkt 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 299. fundar atvinnu- og hafnarráðs 21. ágúst 2025
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Sverrir Bergmann Magnússon, Margrét A. Sanders og Guðný Birna Guðmundsdóttir.
Fundargerðin samþykkt 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 67. fundar menningar- og þjónusturáðs 22. ágúst 2025
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Guðný Birna Guðmundsdóttir og Margrét A. Sanders.
Guðný Birna Guðmundsdóttir (S) tók til máls og lagði fram eftirfarandi bókun:
Mál 5 frá fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs 25. ágúst 2025, Endurbætur á HS Orkuvelli og JBÓ velli (2025080224)
„Reykjanesbær setti af stað stýrihóp sem fékk það hlutverk að setja saman tillögur að framtíðaruppbyggingu íþróttamannvirkja og -svæða. Stýrihópurinn hefur starfað í rúmt ár við sína vinnu en taka skal fram að upphaflegar áætlanir sneru að því að byggja sameiginlega aðstöðu fyrir bæði Keflavík og Njarðvík við Afreksbraut í samstarfi við íþróttafélögin. Í vinnunni í kjölfarið, komu fram sjónarmið sem gerðu það að verkum að ekki var hægt að styðjast við upphaflegar áætlanir og í kjölfarið þurfti stýrihópurinn að setjast aftur yfir tillögur svæðisins. Nú er svo komið að tillögur stýrihópsins verða kynntar á næstu vikum.
Við breytingu á upphaflega verkefninu var leitað til ungmennafélaganna Keflavíkur og Njarðvíkur til að kanna með endurbætur á núverandi fótboltavöllum félaganna, með það í huga að nýta umrædda velli áfram, í hið minnsta næstu fimm árin.
Í erindum frá félögunum kom bersýnilega fram að gera þarf breytingar en fyrst og fremst lagfæringar á núverandi völlum.
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar þakkar ungmennafélögunum fyrir góðar skýrslur og mun taka málið fyrir traustum tökum. Það er alveg ljóst að fara þarf í gott viðhald og bæta núverandi aðstöðu og munum við kostnaðarmeta og forgangsraða verkefnunum sem allra fyrst.“
Samþykkt 11-0.
Fundargerðin samþykkt að öðru leyti 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 196. fundar íþrótta- og tómstundaráðs 25. ágúst 2025
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Guðný Birna Guðmundsdóttir.
Fundargerðin samþykkt 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 63. fundar sjálfbærniráðs 27. ágúst 2025
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Sverrir Bergmann Magnússon og Guðný Birna Guðmundsdóttir.
Fundargerðin samþykkt 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 387. fundar menntaráðs 29. ágúst 2025
Forseti gaf orðið laust um stefnu um starfsmannaíbúðir á Suðurnesjum.
Borin upp tillaga um að fresta afgreiðslu málsins.
Samþykkt 11-0 að fresta síðari umræðu um stefnu um starfsmannaíbúðir á Suðurnesjum.
Forseti gaf orðið laust um tómstundastefnu Reykjanesbæjar. Til máls tók Guðný Birna Guðmundsdóttir.
Tómstundastefna Reykjanesbæjar 2025-2030 samþykkt 11-0.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19:02.