704. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, haldinn í Stapa, Hljómahöll, 7. október 2025, kl. 17:00
Viðstaddir: Alexander Ragnarsson, Díana Hilmarsdóttir, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Guðbergur Reynisson, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Margrét A. Sanders, Margrét Þórarinsdóttir, Sigurrós Antonsdóttir, Sverrir Bergmann Magnússon, Trausti Arngrímsson og Valgerður Björk Pálsdóttir. Í forsæti var Guðný Birna Guðmundsdóttir.
Að auki sat fundinn Hrefna Gunnarsdóttir ritari.
Bjarni Páll Tryggvason boðaði forföll, Trausti Arngrímsson sat fyrir hann.
1. Fundargerðir bæjarráðs 18. og 25. september 2025 (2025010003)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar. Til máls tóku Guðbergur Reynisson og Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir.
Fundargerðirnar samþykktar 11-0.
Fylgigögn:
2. Fundargerðir umhverfis- og skipulagsráðs 19. september og 3. október 2025 (2025010011)
Forseti gaf orðið laust um eftirfarandi mál fundargerðarinnar frá 19. september til sérstakrar samþykktar:
Fyrsta mál fundargerðarinnar Nesvellir - Móavellir - breyting á deiliskipulagi (2025090167) samþykkt 11-0 án umræðu.
Þriðja mál fundargerðarinnar Bergvegur 12 - fjölgun íbúða úr einni í þrjár (2025080151) samþykkt 11-0 án umræðu.
Fjórða mál fundargerðarinnar Lindarbraut 624 - viðbygging (2025080332) samþykkt 11-0 án umræðu.
Sjötta mál fundargerðarinnar Ljósleiðarinn - framkvæmdaleyfi (2025080305) samþykkt 11-0 án umræðu.
Forseti gaf orðið laust um eftirfarandi mál fundargerðarinnar frá 3. október til sérstakrar samþykktar:
Annað mál fundargerðarinnar Hreinsistöð í Höfnum (2025070018) samþykkt 11-0 án umræðu.
Þriðja mál fundargerðarinnar Brekadalur 63 - aukið byggingarmagn (2025080087) samþykkt 11-0 án umræðu.
Fjórða mál fundargerðarinnar Greniteigur 41 - viðbygging (2025090306) samþykkt 11-0 án umræðu.
Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar.
Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir (U) og lagði fram eftirfarandi bókanir:
Mál 7 - Dalshverfi 2. áfangi – breyting á deiliskipulagi (2023080307)
„Umbót mótmælir harðlega þeirri stefnu meirihlutans að ganga sífellt á græn svæði bæjarins til að mæta eftirspurn eftir lóðum. Nú á enn á ný á að skerða grænt svæði í Dalshverfi, rétt eins og áður var reynt í hverfinu, þar sem við í Umbót mótmæltum harðlega og bókuðum sérstaklega gegn því á fundi bæjarstjórnar þann 17. desember 2024. Sú afstaða stendur óbreytt.
Við teljum að þessi nálgun sé ekki aðeins slæm hugsun heldur skipulagsslys af hálfu meirihlutans, Framsóknar, Samfylkingar og Beinna leiðar. Hún sýnir skýrt að meirihlutann skortir bæði vilja og getu til að vinna skipulagsmál með framtíðarsýn. Það er óábyrg stjórnsýsla að fórna grænum svæðum íbúa í skammtímahagsmunum í stað þess að tryggja að nægt framboð lóða sé fyrir hendi með markvissri langtímaáætlun.
Græn svæði eru lífsgæði sem íbúar eiga rétt á. Þau eru forsenda margra sem fjárfestu í húsnæði sínu í góðri trú um að græn svæði yrðu áfram til staðar í nærumhverfinu. Í stað þess að efla þau til útivistar og samfélagslegrar notkunar er þeim fórnað af meirihlutanum.
Umbót krefst þess að horfið verði frá þessari skammtímahugsun og að farið verði í ábyrga og framsýna skipulagsvinnu sem tryggir bæði fjölbreytt framboð lóða og vernd grænna svæða sem skipta íbúa miklu máli. Við munum því sitja hjá í þessum lið.“
Mál 12 - Fitjabraut og Fitjabakki – gangandi og hjólandi umferð (2025090263)
„Umbót fagnar því að loksins skuli vera komið á dagskrá að bæta göngu- og hjólatengingar við verslunar- og þjónustusvæðið á Fitjum. Umræddar tengingar eru lífsnauðsynlegar fyrir öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda, bæði íbúa Ásahverfis og þá sem sækja Krónuna og Byko daglega.
Við í Umbót höfum bent á þessa þörf í fyrri bókunum okkar og m.a. ítrekað kallað eftir úrbótum á öryggi með umferðarljós og tengingum yfir Fitjabraut. Þrátt fyrir það hefur málið dregist á langinn. Nauðsynlegt er að tryggja fjármagn strax svo unnt verði að ljúka stígnum til norðurs og hanna lausnir til suðurs og í átt að Ásahverfi án frekari tafa.
Umbót vill minna á að meirihlutinn, Framsókn, Samfylkingin og Bein leið tók nýlega umfram lán upp á 800 milljónir. Það er því ekkert sem ætti að standa í vegi fyrir að hluti þeirra fjármuna verði nýttur til að tryggja öruggar og vistvænar samgöngur fyrir íbúa bæjarins.
Umbót leggur ríka áherslu á að málið verði afgreitt hratt og faglega á næsta fundi umhverfis- og skipulagsráðs, að framkvæmdir hefjist hið fyrsta enda hafa íbúar beðið nógu lengi eftir öruggum og vistvænum samgöngum á svæðinu.“
Margrét Þórarinsdóttir, Umbót.
Til máls tóku Díana Hilmarsdóttir, Guðbergur Reynisson, Guðný Birna Guðmundsdóttir og Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir.
Forseti gerði fundarhlé kl. 17:37.
Fundur aftur settur kl. 17:50.
Til máls tók Margrét A. Sanders (D) og lagði fram sameiginlega bókun bæjarfulltrúa Reykjanesbæjar:
Mál 6 - Reykjanesbraut – breyting á aðalskipulagi (2019060056)
„Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkir að skipulags- og matslýsing á breytingu á aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2020 – 2035 verði auglýst.
Þrátt fyrir að margt hafi áunnist og batnað frá fyrstu drögum þá er enn stórt atriði sem að okkar mati gengur ekki upp, en það varðar gatnamótin við Þjóðbraut.
Í dag eru í byggingu eða fara fljótlega í byggingu við Þjóðbraut rúmlega 1.000 íbúðir, tæplega 900 í Hlíðarhverfi 2 og 3 og síðan fjöldi íbúða á Akademíureitnum. Auk þess á að byggja upp verslunar-og þjónustukjarna á Akademíureitnum sem og miðstöð almenningssamgangna.
Nú þegar liggja fyrir áform um mikla uppbyggingu íþróttamannvirkja aftan við Reykjaneshöll sem er einnig við Þjóðbraut. Þá er rétt að nefna að þessi gatnamót eru notuð af fjölda bæjarbúa og annarra Suðurnesjamanna sem sækja Fjölbrautaskóla Suðurnesja daglega.
Bæjarstjórn vill einnig benda á mikilvægi gatnamótanna fyrir viðbragðsaðila slökkviliðs og lögreglu sem nýta veginn oft á dag. Teljum við það mikilvægt öryggismál að halda Þjóðbraut óbreyttri með hringtorgi.
Vegna framangreinds sjáum við það hreinlega ekki ganga upp að breyta gatnamótum Reykjanesbrautar/Þjóðbrautar eingöngu í beygjuakrein til hægri frá Þjóðbraut og hægri beygju frá Reykjanesbraut.
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar vonast eftir því að í heild verði haldið áfram með það sem kemur fram í skipulags-og matslýsingu en að bætt verði við hringtorgi eða mislægum gatnamótum við Þjóðbraut/Reykjanesbraut fyrir öryggi og uppbyggingu Reykjanesbæjar.“
Alexander Ragnarsson (D), Díana Hilmarsdóttir (B), Guðný Birna Guðmundsdóttir (S), Guðbergur Reynisson (D), Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir (B), Margrét A. Sanders (D), Margrét Þórarinsdóttir (U), Sigurrós Antonsdóttir (S), Sverrir Bergmann Magnússon (S), Trausti Arngrímsson (B) og Valgerður Björk Pálsdóttir (Y).
Margrét Þórarinsdóttir sat hjá undir 7. máli fundargerðarinnar. Fundargerðirnar samþykktar að öðru leyti 11-0.
Fylgigögn:
3. Fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs 23. september 2025 (2025010005)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Valgerður Björk Pálsdóttir.
Til máls tók Alexander Ragnarsson (D) og lagði fram eftirfarandi bókun:
Mál 6 - Gervigrasvöllur – vetrarþjónusta (2025020117)
„Reykjanesbær tók í notkun nýjan gervigrasvöll í byrjun október 2021. Samið var við verktaka um að hreinsa snjó af vellinum en í september 2024 sagði verktakinn upp samningunum og hefur ekki verið nein vetrarþjónusta við völlinn síðan.
Iðkendur, foreldrar og stjórnendur hafa unnið að snjóhreinsun síðan þegar þörf hefur verið á og notað til þess verkfæri sem að mati allra þeirra sem til þekkja, geta verið skaðleg fyrir gervigrasið. Beiðni liggur fyrir að skoðað verði að fjárfesta í eigin tæki, sem gæti nýst að auki við snjómokstur á fleiri stöðum.
Sjálfstæðisflokkurinn leggur til að strax verði farið í að kanna hvort hægt sé að semja við verktaka sem fyrst eða hvort fjárfesta skuli í eigin tæki. Ekki sé hægt að bíða eftir fjárhagsáætlun og nýju ári, til umbóta, enda ekki hægt að treysta á að það verði óafturkræf skemmd á grasinu með notkun á ófullnægjandi búnaði við snjóhreinsun.“
Alexander Ragnarsson, Margrét Sanders og Guðbergur Reynisson Sjálfstæðisflokki.
Fundargerðin samþykkt 11-0.
Fylgigögn:
4. Fundargerð sjálfbærniráðs 24. september 2025 (2025010009)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Guðný Birna Guðmundsdóttir.
Fundargerðin samþykkt 11-0.
Fylgigögn:
5. Fundargerð atvinnu- og hafnarráðs 24. september 2025 (2025010004)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Alexander Ragnarsson og Guðný Birna Guðmundsdóttir.
Fundargerðin samþykkt 11-0.
Fylgigögn:
6. Fundargerð menningar- og þjónusturáðs 26. september 2025 (2025010007)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Trausti Arngrímsson og Guðný Birna Guðmundsdóttir.
Fundargerðin samþykkt 11-0.
Fylgigögn:
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18:16.