705. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar var haldinn í Stapa, Hljómahöll þann 21. október 2025 kl. 17:00
Viðstaddir: Birgitta Rún Birgisdóttir, Bjarni Páll Tryggvason, Díana Hilmarsdóttir, Eyjólfur Gíslason, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Margrét A. Sanders, Margrét Þórarinsdóttir, Sigurrós Antonsdóttir, Sverrir Bergmann Magnússon og Valgerður Björk Pálsdóttir. Í forsæti var Guðný Birna Guðmundsdóttir.
Að auki sátu fundinn Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og Hrefna Gunnarsdóttir ritari.
Alexander Ragnarsson boðaði forföll, Eyjólfur Gíslason sat fyrir hann.
Guðbergur Reynisson boðaði forföll, Birgitta Rún Birgisdóttir sat fyrir hann.
1. Fundargerðir bæjarráðs 9. og 16. október 2025 (2025010003)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar. Til máls tóku Valgerður Björk Pálsdóttir og Guðný Birna Guðmundsdóttir.
Fundargerðirnar samþykktar 11-0.
Fylgigögn:
2. Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 17. október 2025 (2025010011)
Forseti gaf orðið laust um eftirfarandi mál fundargerðarinnar frá 17. október til sérstakrar samþykktar:
Fimmta mál fundargerðarinnar Hafnargata 56 - breyting á deiliskipulagi (2025100183) samþykkt 8-0, bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks Birgitta Rún Birgisdóttir, Margrét A. Sanders og Eyjólfur Gíslason sitja hjá.
Áttunda mál fundargerðarinnar Víkurbraut 10 og 14 - deiliskipulag (2025040036) samþykkt 8-0, bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks Birgitta Rún Birgisdóttir, Margrét A. Sanders og Eyjólfur Gíslason sitja hjá.
Níunda mál fundargerðarinnar Hólagata – Holtsgata - deiliskipulag (2022100137) samþykkt 8-0, bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks Birgitta Rún Birgisdóttir, Margrét A. Sanders og Eyjólfur Gíslason sitja hjá.
Tíunda mál fundargerðarinnar Grófin og Bergið - breyting á deiliskipulagi (2021090502) samþykkt 8-0, bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks Birgitta Rún Birgisdóttir, Margrét A. Sanders og Eyjólfur Gíslason sitja hjá.
Tólfta mál fundargerðarinnar Hólagata - umferðarmál (2025050040) samþykkt 8-0, bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks Birgitta Rún Birgisdóttir, Margrét A. Sanders og Eyjólfur Gíslason sitja hjá.
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina.
Til máls tók Margrét A. Sanders (D) og lagði fram eftirfarandi bókanir Sjálfstæðisflokks vegna fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs:
Umferðarmál
„Sjálfstæðisflokkurinn leggur til að staldrað verði við þegar afgreiðsla er á nýjum deiliskipulagsáætlunum og breytingu á umferðaræðum. Mikilvægt er að gerð verði heildargreining á áhrifum þeirra á samgöngukerfi sveitarfélagsins. Ljóst er að núverandi umferðarleiðir eru nú þegar undir miklu álagi og þarfnast endurbóta til þess að greiða leið bæjarbúa á milli bæjarhluta og til þess að koma inn og út úr bænum. Það liggur fyrir talsverður fjöldi deiliskipulagsáætlana sem eru í samþykktarferli fyrir óbyggðar íbúðir sem munu setja enn meira álag á umferðarleiðir. Nú þegar hafa komið fram ýmsar hugmyndir s.s. lokun á hluta Hólagötu og einstefna á hluta götunnar. Einnig hugmyndir um lokun hluta Sunnubrautar fyrir framan Íþróttaakademíuna, þrengingu Krossmóa og þrengingu Þjóðbrautar. Allar þessar breytingar þrengja enn meira að umferð.
Þar af leiðandi er mikilvægt að gerð verði umferðargreining sem fyrst ásamt tillögum að úrbótum í umferðarmálum og horft þá til þess framtíðarskipulags sem nú liggur fyrir.“
Mál nr. 1, nr. 3 og nr. 9 - Verslun og þjónusta
„Sjálfstæðisflokkurinn telur að fundargerð umhverfis-og skipulagsráðs frá 17. okt. sl. mál nr. 1, nr. 3 og nr. 9 sé birtingarmynd af framtíðarsýn meirihluta bæjarstjórnar Samfylkingar, Framsóknar og Beinnar leiðar sem sé í besta falli óskýr og í versta falli engin.
Í máli nr. 1 er meirihlutinn kominn í viðræður við Funaberg fasteignafélag varðandi uppbyggingu við Víkingarheima á svæði sem er ekki enn búið að deiliskipuleggja. Þar eru uppi hugmyndir um að byggð verði upp verslun og þjónusta í jaðri Innri-Njarðvíkur ásamt íbúabyggð. Í máli 3 er farið yfir þróun Akademíureits og þar er gert ráð fyrir miðbæjartengdri starfsemi með verslun og þjónustu á jarðhæð og síðan í 9. máli eru uppi hugmyndir um deiliskipulag við Hólagötu, Ytri-Njarðvík þar sem gert er að hluta ráð fyrir fjölbýlishúsum en þjónustu á jarðhæð.
Því spyrjum við; Hver er heildarstefna sveitarfélagsins í uppbyggingu verslunar og þjónustu? Sjálfstæðisflokkurinn telur mikilvægt að stefnan sé tekin af sveitarfélaginu og í framhaldi er unnið með verktökum og bæjarbúum að uppbyggingu. Eins og staðan er í dag eru þessar ákvarðanir tilviljanakenndar og mikill skortur á alvöru framtíðarsýn.“
Margrét Sanders, Birgitta Rún Birgisdóttir, Eyjólfur Gíslason Sjálfstæðisflokki.
Forseti gaf orðið laust.
Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir (U) og lagði fram eftirfarandi bókanir:
Mál 1 - Víkingaheimar – kynning (2025050343)
„Við í Umbót höfum frá upphafi varað við því hvernig þessu máli er haldið á lofti.
Það er verið að ráðstafa einu verðmætasta svæði bæjarins — án útboðs, án jafnræðis og án raunverulegs gagnsæis.
Þrátt fyrir fyrri mótmæli okkar hélt meirihlutinn, Framsókn, Samfylkinginn og Bein leið áfram og lét USK taka málið upp, fá kynningu og taka ákvörðun án þess að tryggja opið ferli.
Við teljum þetta grafalvarlegt, bæði fyrir stjórnsýslu bæjarins og traust almennings og leggjum því fram bókun þar sem við krefjumst þess að málið verði stöðvað strax.
Umbót ítrekar fyrri mótmæli sín, sbr. bókun í bæjarráði 7. ágúst 2025, þegar meirihlutinn ákvað að vísa málinu til umhverfis- og skipulagsráðs (USK). Þegar það var gert bentum við á að þessi leið væri hvorki gagnsæ né fagleg og að hætta væri á pólitískum afskiptum og misræmi í málsmeðferð. Nú hefur komið í ljós að það sem við vöruðum við hefur raungerst.
Á fundi USK þann 22. ágúst 2025 fékk ráðið kynningu frá framkvæmdaaðila og tók ákvörðun um framhald málsins án auglýsingar eða útboðs. Þannig fengu aðrir aðilar ekki jafnt tækifæri til að taka þátt í ferlinu.
Þetta snýst um eitt verðmætasta byggingarsvæði bæjarins sem ekki er ætlað til íbúðarbyggðar í aðalskipulagi. Það er því óásættanlegt að ráðstafa slíku svæði án opins ferlis og án þess að tryggt sé jafnræði, traust og þátttaka íbúa í ákvarðanatöku.
Umbót leggur áherslu á að íbúar svæðisins fái raunverulegt tækifæri til að hafa áhrif til dæmis með íbúakosningu eða samráðsferli áður en ákvörðun er tekin um framtíð svæðisins.
Þá telur Umbót jafnframt að verktakar eigi ekki að hafa stjórn á umsvifum eða ráðstöfun svæða í gegnum samninga eða óformleg áhrif, þar sem slíkt veldur ágreiningi og vantrausti innan sveitarfélagsins og grefur undan eðlilegri stjórnsýslu.
Umbót gagnrýnir harðlega meirihlutann, Framsóknarflokkinn, Samfylkinguna og Beina leið fyrir að hunsa fyrri viðvaranir og halda áfram með málið á þessum forsendum. Þetta sýnir skort á ábyrgð bæði í stjórnsýslu og fjármálum bæjarins. Bærinn hefur þegar greitt fyrir framkvæmdir sem verktakar hefðu átt að leggja sitt af mörkum í. Það er því óábyrgt að hefja ný verkefni án þess að tryggt sé að allir taki sanngjarnan þátt í kostnaði.
Sérstaklega er alvarlegt að meirihlutinn samþykki að taka hersjúkrahúsið á gamla varnarsvæðinu upp í innviðagjöld, þar sem það er óraunhæft og fjármálalega ósvaranlegt. Almennt er vitað að Reykjanesbær hefur í gildi hagstæðan langtímasamning um leigu á viðkomandi húsnæði. Þessi samningur hefur þau áhrif að eignin verður ekki söluhæf á því verði sem eigandi krefst. Að meta fasteignina á 700 milljónir króna er því óraunhæft og gera má ráð fyrir að raunverulegt verðmæti byggingarinnar sé verulega lægra. Umbót telur að slík sala þjóni hvorki hagsmunum bæjarins né íbúa hans. Umbót telur þetta dæmi um óábyrga fjármálastjórn og skort á gagnsæi. Sveitarfélagið á ekki að taka við fasteignum upp í lóðagreiðslur eða innviðagjöld, sérstaklega þegar verðmat og forsendur eru veikar.
Umbót krefst þess að málið verði stöðvað í núverandi mynd og að hafið verði opið útboðsferli þar sem allir hafi jafna möguleika og ákvörðun verði tekin á faglegum, gagnsæjum og réttmætum forsendum með virkri þátttöku íbúa svæðisins.
Umbót vill standa vörð um gagnsæi, jafnræði, íbúaþátttöku og ábyrga stjórnsýslu í allri ákvarðanatöku bæjarins.“
Mál 7 - Fjölbrautaskóli Suðurnesja – deiluskipulag (2019090479)
„Umbót hafnar alfarið breytingartillögu ríkisins sem lögð hefur verið fram vegna fyrirhugaðrar stækkunar Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Tillagan felur í sér óásættanlega einföldun á áður kynntum lausnum, sem virðast fyrst og fremst knúnar áfram af kostnaðarsjónarmiðum, frekar en vandaðri faglegri útfærslu eða raunverulegri framtíðarsýn.
Það er verulega ámælisvert að ríkið skuli kjósa að leggja fram slíka tillögu án raunverulegs samráðs við sveitarfélagið og í miðju skipulagsferli, þar sem fyrri tillögur höfðu þegar verið lagðar fram og kynntar. Slíkt verklag er alvarlegt frávik frá eðlilegum vinnubrögðum og lýsir skorti á virðingu fyrir staðbundnum stjórnvöldum og þeim hagsmunaaðilum sem þetta snýr að.
Fram komnar breytingar fela í sér samruna bygginga og verulegt fráhvarf frá fyrri hugmyndum, án þess að sýnt sé fram á að þær uppfylli nauðsynlegar kröfur til framtíðaruppbyggingar. Það virðist skorta heildstæða stefnu og markmið í útfærslu verkefnisins og niðurstaðan ber þess merki að um sé að ræða bráðabirgðaaðgerðir sem eru hvorki faglega né samfélagslega verjanlegar.
Auk þess vekur það sérstaka athygli að fulltrúar sveitarfélagsins fengu ekki afhentar fullnægjandi teikningar og að mikilvægar upplýsingar virðist hafa skort í samskiptum við skipulagsyfirvöld. Slíkt verklag grefur undan trausti og samstarfi, sem ætti að vera grundvöllur slíkra framkvæmda.
Í ljósi ofangreinds er þess krafist að tillagan verði dregin til baka og unnið verði að nýrri, vandaðri lausn í nánu samráði við sveitarfélagið og aðra hagsmunaaðila.“
Margrét Þórarinsdóttir, Umbót.
Til máls tóku Guðný Birna Guðmundsdóttir, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir og Margrét A. Sanders.
Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir (U) og lagði fram eftirfarandi bókun sem andsvar við umræðum:
Mál 1 - Víkingaheimar – kynning (2025050343)
„Umbót áréttar að undir þessum lið hafi einungis verið kynning lögð fram og að engin ákvörðun hafi verið tekin.
Umbót ítrekar að umræðan hafi snúist um hugmynd eiganda Víkingaheima, þar á meðal hugmynd um að taka hersjúkrahúsið upp í innviðagjöld. Það var hugmynd eiganda, ekki samþykkt ráðsins né meirihlutans.
Umbót hafnar því alfarið að bókun þess hafi gefið í skyn að samningar eða ákvörðun hafi verið tekin. Þvert á móti hefur Umbót frá upphafi bent á hættuna við slíka nálgun, sbr. bókun í bæjarráði 7. ágúst 2025, þar sem Umbót varaði skýrt við því að málið yrði tekið upp í ráðinu án opins ferlis, jafnræðis og gagnsæis.
Þessi staða hefur nú raungerst, og Umbót telur óásættanlegt að rangt sé haft eftir eða gefið í skyn að ákvörðun hafi verið tekin.
Umbót leggur áherslu á að skoðun hugmynda sé eðlilegur hluti lýðræðislegrar stjórnsýslu, en að það sé óábyrgt að gefa annað til kynna en að málið sé á kynningarstigi.
Umbót hefur aldrei lýst yfir samþykki fyrir neinum samningi eða ráðstöfun, heldur krafist þess að allar hugmyndir verði metnar á faglegum, gagnsæjum og réttmætum forsendum, með virkri þátttöku íbúa áður en ákvörðun er tekin.
Umbót ítrekar að meirihlutinn beri ábyrgð á því hvernig málið er kynnt og meðhöndlað, og kallar eftir því að ferlið verði leiðrétt þannig að traust og gagnsæi í stjórnsýslu Reykjanesbæjar verði tryggt.“
Margrét Þórarinsdóttir, Umbót.
Forseti gerir fundarhlé kl. 17:46.
Fundur aftur settur kl. 18:20.
Til máls tók Bjarni Páll Tryggvason og lagði fram eftirfarandi bókun meirihluta bæjarfulltrúa Reykjanesbæjar:
„Í máli Sjálfstæðisflokksins kom fram að engin stefna væri til staðar er varðar verslun og þjónustu í sveitarfélaginu. Meirihlutinn vill benda á að í aðalskipulagi sveitarfélagsins eru slík svæði skilgreind sérstaklega. Auk þess er nýlega komin fram ný atvinnustefna Reykjanesbæjar þar sem kemur fram að mikilvægt sé að nýta lykilstaðsetningar fyrir uppbyggingu verslunar og þjónustu. Það skýtur skökku við að Sjálfstæðisflokkurinn, sem hefur ítrekað gagnrýnt skort á atvinnuuppbyggingu, gagnrýnir hér uppbyggingu á þjónustu og húsnæði því tengdu. Það er hlutverk sveitarfélagsins að skapa innviðina til að laða til okkar fyrirtæki, í hag okkar íbúa.
Hvað varðar bókun bæjarfulltrúa Umbótar um kynningu um mögulegt verkefni við Víkingaheima vil meirihlutinn árétta að fullyrðingar hennar verða að teljast sérstakar um að búið sé að semja um málið. Engar ákvarðanir um málið hafa verið teknar og ekkert ákveðið í þessu máli. Að halda öðru fram er einfaldlega rangt.“
Bjarni Páll Tryggvason, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir og Díana Hilmarsdóttir Framsóknarflokki, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Sverrir Bergmann Magnússon og Sigurrós Antonsdóttir Samfylkingunni og Valgerður Björk Pálsdóttir Beinni leið.
Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir og óskaði eftir að gert yrði fundarhlé.
Forseti gerir fundarhlé kl. 18:30.
Fundur aftur settur kl. 18:56.
Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir (U) og lagði fram eftirfarandi bókanir:
Mál 1 - Víkingaheimar – kynning (2025050343) - andsvar
„Umbót tekur fram að það sé rétt að engar ákvarðanir hafi verið teknar varðandi verkefnið við Víkingaheima. Málið var einungis lagt fram til kynningar, og það var öllum ljóst. Umbót hefur aldrei haldið öðru fram.
Það sem Umbót gagnrýnir er ekki málið sjálft eða hugmynd eiganda, heldur vinnubrögð meirihlutans í málsmeðferðinni — að mál af þessu umfangi og mikilvægi séu tekin til kynningar og umræðu án þess að tryggt sé gagnsæi, jafnræði og samráð áður en næstu skref eru ákveðin.
Umbót telur slíka málsmeðferð óheppilega og ósamrýmanlega góðri stjórnsýslu. Það er eðlilegt að sveitarfélagið taki jákvætt í að skoða hugmyndir, en það verður að gerast með opnu ferli og skýrum ramma um ábyrgð, upplýsingagjöf og aðkomu íbúa.
Umbót ítrekar að markmið bókunar okkar var að tryggja gagnsæi, fagmennsku og jafnræði í meðferð málsins, ekki að draga úr mikilvægi verkefnisins eða frumkvæði einkaaðila. Ábyrgð bæjarstjórnar er að standa vörð um trausta stjórnsýslu og að íbúar Reykjanesbæjar hafi fullt traust á ferlinu.
Umbót vísar jafnframt til fyrri bókana sinna, þar sem bent var á að ferli málsins þurfi að vera skýrt, opið og faglegt, og að samráð við íbúa og hagsmunaaðila verði tryggt áður en ákvörðun er tekin.“
Mál 7 - Fjölbrautaskóli Suðurnesja – deiliskipulag (2019090479) – andsvar:
„Umbót hafnar þeirri túlkun meirihlutans að gagnrýni þess hafi beinst að sveitarfélaginu eða Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Gagnrýni Umbótar beindist að vinnubrögðum ríkisins, sem hefur tekið ákvarðanir og lagt fram breytingartillögur án samráðs við Reykjanesbæ.
Umbót telur slíkt verklag óásættanlegt, enda snerta þessar ákvarðanir skipulag og þróun svæðisins sem hefur bein áhrif á bæði íbúa og stofnanir bæjarins, þar á meðal Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Sveitarfélagið á að hafa raunverulegt aðkomuvald og að samráð fari fram áður en mál eru lögð fram af hálfu ríkisins.
Umbót telur gagnrýnina tímabæra og nauðsynlega, því það er á þessu stigi sem sveitarfélagið þarf að tryggja að ferlið sé gagnsætt, faglegt og í samræmi við góða stjórnsýsluhætti. Þetta snýst ekki um andstöðu við verkefni, heldur um að tryggja ábyrg vinnubrögð og virkt samráð milli stjórnvalda.
Umbót stendur við fyrri bókanir sínar og leggur áherslu á að bæjarstjórn Reykjanesbæjar beiti sér fyrir góðu samstarfi við ríkið, í þágu íbúa og trausts í stjórnsýslu.“
Margrét Þórarinsdóttir, Umbót.
Til máls tóku Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Margrét A. Sanders, Bjarni Páll Tryggvason og Guðný Birna Guðmundsdóttir.
Fundargerðin samþykkt að öðru leyti 11-0.
Fylgigögn:
3. Fundargerð velferðarráðs 9. október 2025 (2025010012)
Forseti gaf orðið laust um eftirfarandi mál fundargerðarinnar frá 9. október til sérstakrar samþykktar:
Annað mál fundargerðarinnar Reglur um fjárhagsaðstoð – tillaga til breytingar (2022010182) samþykkt 11-0.
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina.
Til máls tók Eyjólfur Gíslason (D) og lagði fram eftirfarandi bókanir:
Mál 1 - Félagslegt húsnæði - eignasafn, biðlisti og biðtími eftir úthlutun (2025020341)
„Í ljósi samantektar um stöðu á eignasafni, biðlista og biðtíma eftir úthlutun á félagslegu húsnæði er ástæða til að óska eftir að gert verði samanburðarhæft yfirlit þar sem m.a. er skoðað hvernig Reykjanesbær stendur gagnvart öðrum samanburðarsveitarfélögum er kemur að félagslegu húsnæði samhliða því að meta kosti og galla óhagnaðardrifinna leigufélaga sem eru í nánara samstarfi við önnur sveitarfélög og áhrif þeirra á biðlista eftir félagslegu húsnæði. Slíkt yfirlit myndi styrkja umræðuna um framtíðarstefnumótun í málaflokknum.
Það er mikilvægt að hafa í huga að stefna og ákvarðanir sem hentuðu áður geta þurft endurskoðun, í ljósi breyttrar samfélagsgerðar, fjölbreyttari íbúahópa og breyttra þarfa á hverjum tíma fyrir sig. Með fjölbreyttara framboði, reglulegum samanburði og opnum hug á aðrar leiðir má mögulega bæði stytta biðlista og tryggja að félagslegt húsnæði nýtist þeim sem mest þurfa á því að halda í rauntíma.“
Mál 5 - Drög að frumvarpi til laga um brottfararstöð (2025010342)
„Sjálfstæðisflokkurinn er opinn fyrir hugmyndum um brottfararstöð en bendir á að margt er óljóst í núverandi drögum frumvarps til laga sem eru til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. Þar sem gert er ráð fyrir að brottfararstöð verði staðsett á Suðurnesjum er nauðsynlegt að meta áhrif slíkrar starfsemi á samfélagið, innviði og þjónustu sveitarfélaganna. Við tökum undir áhyggjur sem fram koma í umsögnum velferðarráðs Reykjanesbæjar og Sambands íslenskra sveitarfélaga og leggjum áherslu á að gagnsætt samráð ríkis og sveitarfélaga hér á Suðurnesjum verði tryggt vegna málsins.
Þá er mikilvægt að mannúðarsjónarmið, öryggi og réttindi verði í forgrunni í þeim takmörkunum sem hljótast af úrræðinu sérstaklega þegar vistunartími, samkvæmt drögum frumvarpsins, er óljós. Þá er ítrekað að ríkisvaldið á að bera allan tilheyrandi kostnað af rekstri og þjónustu af ofangreindu úrræði. Þá hvetjum við ríkisvaldið til að auka samráð og samtal við sveitarfélög, félagasamtök og aðrar stofnanir sem áhyggjur hafa af brottfararstöð.“
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Eyjólfur Gíslason, Margrét Sanders og Birgitta Rún Birgisdóttir.
Til máls tóku Sigurrós Antonsdóttir, Bjarni Páll Tryggvason og Guðný Birna Guðmundsdóttir.
Fundargerðin samþykkt 11-0.
Fylgigögn:
4. Fundargerð menntaráðs 10. október 2025 (2025010008)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Sverrir Bergmann Magnússon og Birgitta Rún Birgisdóttir.
Fundargerðin samþykkt 11-0.
Fylgigögn:
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19:32.